fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Eyjan

Stelpan sem níðingurinn drap

Ari Brynjólfsson
Föstudaginn 7. apríl 2017 06:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristjón Kormákur Guðjónsson skrifar:

Á meðan amma mín sat hjá mér og las mig í svefn með sitt silfurgráa hár bundið í fléttu, sjal yfir herðarnar og í kjól sem var sprunginn út í blómum og hvíslaði Ævintýraeyjunni með sinni fögru röddu lá pabbi góðrar vinkonu minnar uppi í rúmi hjá dóttur sinni og nauðgaði henni. Hann nauðgaði barninu sínu í mörg ár. Þessi vinkona mín er dáin. Hún framdi sjálfsmorð. Hún reyndi að drekkja minningunum í brennivíni, síðar dópi. Ekkert gekk. Minningarnar flutu alltaf upp á yfirborðið og vöfðu sig að lokum utan um hana og þegar þær loks sukku tóku þær hana með niður í djúpið.

Líklega mun einhver halda því fram að DV sé að birta drottningarviðtal við barnaníðing þegar hann flettir þessu tölublaði DV. Það er fjarri lagi. Barnaníðingurinn mun hata þessa umfjöllun. Reiðast. Öskra. Berja í borðið svo músin sem býr á bak við örbylgjuofninn í húsi hans mun hrökkva í kút.

Gunnar Jakobsson, áður Roy Svanur Shannon, á heimili sínu á Stokkseyri.

Á þessari stundu, sem þú ert að lesa þessi orð, þá er Gunnar Jakobsson dæmdur barnaníðingur örugglega fyrir löngu búinn að hringja í mig og hrópa í símann. Gunnar vill vera í felum. Hann vill ekki að þú vitir hvernig hann lítur út, ekki leita sér hjálpar. Og yfirvöld gera ekkert. Á dögunum fékk hann skilorð fyrir vörslu á rúmlega fjörutíu þúsund barnaníðsmyndum og um fimm hundruð hreyfimyndum.

Með því að benda á Gunnar, segja sögu hans, bendum við á aðra líka, það sem þarf að laga í samfélaginu. Því menn sem eru haldnir barnagirnd telja oft að þeir séu ekki að gera nokkuð rangt og kenna jafnvel barninu um. Barninu sem þeir eru búnir að skemma. Barninu sem seinna á eftir að ánetjast fíkniefnum. Barninu sem er komið svo langt niður í myrkrið að það ratar ekki til baka.

Faðir vinkonu minnar játaði aldrei ofbeldið. Leitaði sér aldrei aðstoðar. Hann gerði ekkert rangt. Hann bar kistuna út úr kirkjunni og lýsti því yfir í erfidrykkjunni hve rammur af afli alkóhólisminn væri. Hvernig fíknin færi með fólk og áttaði sig ekki á að dóttir hans hafði flúið minningarnar út í bílskúr og hengt sig.

Barnaníðingar átta sig heldur ekki á að barnið sem er beitt kynferðisofbeldi deyr kannski ekki þessa kvöldstund sem þeir níðast á því þegar enginn sér til. En afleiðingarnar eru rosalegar. Þær sjást til dæmis á löngum biðlistum eftir plássi á geðdeildum fyrir börn og unglinga.

Æskuvinur minn skrifaði opið bréf árið 2015 til að greina frá afleiðingum kynferðisofbeldis á unglingsárum. Þar sagði hann:

Ég hef barist við fíknina. Mamma hefur reynt sjálfsmorð oftar en einu sinni. Þá var mér strítt fyrir að vera beittur kynferðisofbeldi af karlmanni. Stundum var reiðin að gera út af við mig og mér fannst samfélagið hafa brugðist mér. Réttara sagt: Samfélagið brást mér. Ég veit líka að sumir sigrast á misnotkun og lifa eðlilegu lífi. Ná að komast yfir áfallið. Fíknina. Það er gott. Mér hefur ekki tekist það.

Kristjón Kormákur Guðjónsson ritstjóri DV. Mynd: DV/Sigtryggur Ari

Hans barátta stendur enn yfir. En það er von. Ég hef sjálfur ferðast langt ofan í myrkrið og villst af leið. Mér tókst að rata til baka með hjálp góðs fólks eitt þungt skref í einu. Og á meðan vonin er til staðar er nauðsynlegt að fjalla um barnaníðinga. Í DV í vikunni greindum við frá ársskýrslu Stígamóta fyrir árið 2016 sem dregur upp dökka mynd af stöðu mála þegar kemur að kynferðisbrotum hér á landi. Aldrei frá árinu 1992 hafa fleiri leitað til Stígamóta.

Við munum ekki hika við að segja sögur níðinga, hvernig þeir reyna að fela sig og hvaða afleiðingar það hefur, og um leið benda á að yfirvöld eru að bregðast börnum og foreldrum. Ef við gerðum það ekki værum við að bregðast hlutverki okkar.

Í dag er framið meira en eitt kynferðisbrot á dag og þetta er orðið gott.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 5 dögum

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega