Grátur og gnístran tanna

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, sagði á dögunum að fjölgun ferðamanna væri á mörkum þess sem hægt væri að ráða við og bætti við að samkeppnisstaða íslenskrar ferðaþjónustu væri það síðasta sem hann hefði áhyggjur af. Þarna er auðvelt að vera sammála forsætisráðherra. Það myndi ekki saka ef erlendir ferðamenn væru nokkuð færri, þótt einhverjir Íslendingar myndu um leið græða ögn minna.

Á undanförnum árum hefur vöxturinn í íslenskri ferðaþjónustu verið gríðarlegur, ferðamenn streyma til landsins og hótel og gistiheimili spretta upp eins og gorkúlur. Á sama tíma lætur náttúra landsins og vegakerfi á sjá vegna hins mikla átroðnings. Við þessu hefur ekki verið brugðist af þeim skörungsskap sem þörf er á. Úrbætur á vegakerfi kosta sitt og sömuleiðis uppbygging á vinsælum ferðamannastöðum. Sjálfsagt og eðlilegt er að fjármagn til slíks komi að hluta til frá ferðaþjónustunni sem á að greiða sinn virðisaukaskatt í ríkiskassann en ekki vera á þægilegri undanþágu.

Ríkisstjórnin hefur boðað hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu, eins og sjálfsagt og eðlilegt hlýtur að teljast. Það skipti örugglega litlu hvort hér sæti hægri-, miðju- eða vinstristjórn, hvaða stjórn sem er myndi gera það sama. Þjóðin hlýtur að vera sammála um að ferðaþjónustan, þessi öfluga grein sem aflar mestra tekna fyrir þjóðarbúið, eigi ekki að vera með undanþágu á virðisaukaskatti. Það kemur hins vegar ekki á óvart að úr flokki forsætisráðherra, Sjálfstæðisflokknum, heyrast hljóð úr horni. Þar hafa einstaka þingmenn sett sig upp á móti málinu, en í fréttum hefur komið fram að ættingjar sumra þeirra eiga hagsmuna að gæta þar sem þeir vinna við ferðaþjónustu. Það hljóta að teljast fremur neyðarlegar fréttir.

Einstaka sinnum heyrast fréttir um fólk sem rekur fyrirtæki og stórgræðir en greiðir skatta sína og gjöld til samfélagsins með bros á vör. Fréttir af þessu tagi þykja yfirleitt óvenjulegar og sagt er frá þeim eins og þar séu furðufregnir á ferð. Það hefði sannarlega verið frétt til næsta bæjar ef menn innan ferðaþjónustunnar hefðu brugðist við hækkun á virðisaukaskatti með jákvæðum hætti. Svo varð ekki. Viðbrögðin urðu nákvæmlega eins og búast mátti við: grátur og gnístran tanna. Eftir fylgdu svo heimsendaspár um lok ferðamannagóðæris á Íslandi.

Ekki er víst að ferðaþjónustan njóti mikillar samúðar landsmanna þótt menn beri sig þar illa. Hinn venjulegi launamaður greiðir gjöld sín og skatta og atvinnugrein sem skilar stórgróða á að gera það líka. Best væri ef það yrði gert möglunarlaust – en þá er líklega verið að fara fram á fullmikið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.