Stórhættuleg stóriðja

Það er ekkert einkennilegt við það að umhverfisráðherra sé andstæðingur stóriðju. Mun einkennilegra væri ef hann skilgreindi sig sem sérstakan talsmann hennar og reyndar teldist það saga til næsta bæjar. Það er auðvelt að hafa skilning á því að Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra hafi lýst því yfir að loka ætti kísilmálmverksmiðjunni í Helguvík meðan mikilvægir þættir sem varða starfsemina væru kannaðir. Umhverfisráðherra er að segja nákvæmlega það sem fjölmargir hugsa. Á það hefur verið bent að ráðherrann hafi með orðum sínum, sem féllu á Facebook, farið út fyrir valdsvið sitt til þess að hafa áhrif á ákvarðanir Umhverfisstofnunar. Þetta hefur örugglega ekki verið ætlun ráðherrans, mun líklegra er að orðin hafi verið skrifuð í tilfinningahita þess sem hefur sterka sannfæringu í umhverfismálum. Reyndar er það svo að hver sá einstaklingur sem lætur sig umhverfisvernd einhverju varða getur illa setið þegjandi hjá þegar kemur að máli kísilmálmverksmiðjunnar í Helguvík.

Umhverfisstofnun hefur örugglega ekki þurft sérstaka hvatningu frá umhverfisráðherra til að ákveða að United Silicon hafi ekki heimild til að gangsetja kísilverið á ný án samþykkis stofnunarinnar. Á síðustu vikum og mánuðum hafa þær fréttir sem tengjast verksmiðjunni verið hin mestu ótíðindi. Allt virðist hafa verið í ólagi í kísilmálmverksmiðjunni í Helguvík. Í verksmiðju eins og þessari er mikilvægt að vel sé gætt að öllum öryggisþáttum. Þarna er staðan hins vegar sú að starfsmenn hafa verulegar áhyggjur af öryggismálum. Ekki kemur síðan á óvart að þeir kvarta undan mengun, sem er hinn klassíski fylgifiskur stóriðju.

Íbúar í grennd við verksmiðjuna telja sig einnig finna verulega fyrir mengun. Það er vitaskuld óþolandi að mengandi verksmiðju sé plantað í grennd við mannabyggð og fólk þurfi að líða líkamleg óþægindi þess vegna. Grunur leikur á að skaðleg efni streymi yfir byggðina þótt ekki sé vitað hver þau eru. Þetta þarf að rannsaka ofan í kjölinn. Heilsa starfsmanna og íbúa í grenndinni skiptir sannarlega meira máli en stundargróði.

Mengandi stóriðja er ekki það sem við Íslendingar þurfum á að halda. Það á að vera hluti af skyldu stjórnvalda að sporna við henni. Þessi kísilmálmverksmiðja hefur á stuttum tíma valdið skaða. Við höfum ekkert við hana að gera. Umhverfisráðherra gerir sér glögga grein fyrir því og tjáði því skoðun sína á afdráttarlausan hátt. Björt Ólafsdóttir hefði verið að bregðast skyldu sinni ef hún hefði ekki lýst skoðun sinni á jafn alvarlegu máli. Hún á skilið lof, ekki skammir.

Þjóðinni er svo vonandi orðið ljóst að stóriðja er ekki svarið við öllu. Þvert á móti getur hún verið stórhættuleg – og er það venjulega.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.