Lok lok og læs

Meðal margra þjóða tíðkast að selja áfengi í matvöruverslunum og felst í því töluvert hagræði, eins og þeir fjölmörgu Íslendingar vita sem hæstánægðir hafa nýtt sér þá þjónustu erlendis. Þá er keypt í matinn og léttvínsflösku eða bjór stungið um leið í innkaupakerruna. Er það bæði þægilegt og einfalt. Hér á landi telst slík þjónustu hins vegar ekki til fyrirmyndar, það er jafnvel talið að hún bjóði upp á mikla vá. Því rjúka menn nú upp til handa og fóta og góla ógurlega þegar frjálslyndir þingmenn úr hinum ýmsu flokkum stíga fram með nýtt áfengisfrumvarp. Búast má við hörðum deilum á þingi, en vonandi verður umræðan þar vitrænni en hún var á sínum tíma vegna bjórfrumvarpsins, en andstæðingar þess töldu mikla hættu vofa yfir fengi þjóðin það frelsi að kaupa sér bjór. Áfengisþefinn átti víst að leggja af landsmönnum í tíma og ótíma og þeir nánast að verða óvinnufærir vegna ölvunar. Oft hafa umræður á þingi verið vitleysislegar, en sjaldan álíka og þá.

Hvernig væri að treysta þjóðinni og hætta að láta eins og hún þurfi að vera undir stöðugu eftirliti? Þessi „lok lok og læs“ stefna sem ríkt hefur hér í allt of miklum mæli í of mörgum málum er afturhald í sinni verstu mynd.

Það hlýtur að vera æskilegt að hér ríki frjáls verslun og samkeppni. Það er hagur neytenda að geta keypt sér bjór, og léttvín, í matvöruverslunum. Engin ástæða er fyrir stjórnmálamenn að setja sig upp á móti því, en það kemur engan veginn á óvart að þeir skuli gera það. Það er alkunna að stjórnmálamenn þrá margir hverjir að stjórna því hvernig fólk lifir. Betra væri að þeir legðu á minnið að einstaklingar bera ábyrgð á eigin lífi og eiga að njóta frelsis meðan þeir eru ekki að skaða aðra. Íslenska þjóðin mun ekki ráfa rænulaus um stræti og torg þótt hún fái að kaupa áfengi í matvörubúðum.

Andstæðingar áfengisfrumvarpsins nefna ítrekað hin margfrægu lýðheilsusjónarmið. Ef hafa ætti lýðheilsusjónarmið í fullum heiðri þá ætti til dæmis að setja áfengi á bannlista ásamt tóbaki. Sælgæti ætti einnig að vera á þeim lista, ásamt hinum sykruðu gosdrykkjum. Boðorðið væri þá: Áfengislaus og tóbakslaus þjóð án offitu. Þetta mun hins vegar aldrei verða. Þjóð verður ekki þvinguð til hollustu.

Mikið framfaraskref var stigið á sínum tíma þegar bjórsala var leyfð í landinu. Svartsýnisspárnar rættust ekki. Jafn sjálfsagt og það er að leyfa áfengissölu í verslunum ætti sömuleiðis að vera leyfilegt að auglýsa áfengi eins og aðrar vörur. Hér á landi er reyndar allt fullt af áfengisauglýsingum, til dæmis í erlendum tímaritum, sjónvarpsefni og á netinu. Innlendir framleiðendur fá hins vegar ekki að auglýsa sína vöru. Ekki er mikið réttlæti í því!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.