Orð og gjörðir stjórnmálamanna

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Starfsfólk leikskóla er plagað af streitu. Leikskólastjórar segja fjárhagsstöðu leikskóla aldrei hafa verið jafn slæma. Foreldrar leikskólabarna „neita að láta börnin í borginni dvelja í sársveltum rekstri“ – svo vitnað sé orðrétt í formála undirskriftasöfnunar sem hleypt var af stokkunum nýlega. Allt þetta gerist í stjórnartíð Samfylkingar, Vinstri-grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata, sem hafa komið fram af tuddaskap í endalausum og ósanngjörnum aðhaldskröfum. Forsvarsmenn þessara flokka eru fyrir kosningar ósparir á að boða úrlausnir fyrir barnafjölskyldur en staðreyndin er sú að valdatíð þessara flokkar hefur skilað því að starfsemi leikskóla verður æ erfiðari og er að mati þeirra sem vel þekkja til orðin nánast vonlaus. Og hvernig var það, fóru Vinstri-græn ekki í kosningabaráttu í borginni undir kjörorðinu „Gjaldfrjáls leikskóli“?

Þetta er glöggt dæmi um það þegar orð og gjörðir stjórnmálamanna fara ekki saman. Hvaða gagn er af svokölluðum félagshyggjuöflum ef þau treysta sér ekki til þess að að veita á valdatíma sínum sjálfsagða grunnþjónustu í leikskólum landsins? Þessir sömu flokkar eru nú að hefja kosningabaráttu sína á landsvísu og eiga eftir að ræða fjálglega um aðgerðir til að bæta hag barnafjölskyldna. Sú spurning hlýtur að vakna hvort alvara búi þar að baki og hvort þessir flokkar muni ekki bara haga sér nákvæmlega eins og meirihlutinn í borginni gerir komist þeir til valda? Það eina sem við getum verið alveg viss um í stjórnmálum er að það er varasamt að treysta stjórnmálamönnum.

Undanfarin ár hafa fjárveitingar til leikskóla verið skornar niður í svo miklum mæli að skaðlegt er orðið. Leikskólinn á að vera fyrsta skólastig en gegnir ekki því hlutverki sínu meðan leikskólar eru fjársveltir og illa undirmannaðir. Það er ljóst að meirihlutinn í borginni hefur undanfarin ár tekið margar vondar ákvarðanir sem hafa reynst dýrkeyptar. Dæmi um það er sameining leik- og grunnskóla og frístundaheimila víða um borg árið 2011. Þær aðgerðir vöktu hörð mótmæli borgarbúa en ekki var á þá hlustað heldur vaðið glórulaust áfram í vitleysunni. Þarna var verið að sóa tíma og fjármunum. Það má velta því fyrir sér hvort menn hafi nokkuð lært af þeim mistökum.

„Ég skil vel að það sé óþreyja eftir skilaboðum frá okkur um nákvæmlega hvernig við munum standa að nýrri sókn í leikskólamálum en það fer að koma að því,“ sagði borgarstjórinn, Dagur B. Eggertsson, nýlega í viðtali. Við skulum ekki efast um að það komi að því að Dagur boði, fyrir hönd Samfylkingarinnar, sókn í leikskólamálum. Við getum verið alveg jafn viss um að það mun gerast í aðdraganda næstu borgarstjórnarkosninga þegar lokka þarf til sín atkvæði.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.