Engar patentlausnir í boði

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Stofnun evrópska myntbandalagsins um síðustu aldamót er ein stærstu pólitísku og efnahagslegu mistök sem gerð hafa verið á síðari tímum á Vesturlöndum. Alþjóðlega fjármálakreppan sem skall á haustið 2008 leiddi í ljós þá kerfislægu galla sem voru innbyggðir í evrusamstarfið. Fátt hefur verið gert til að leysa þá galla enda er enginn góður kostur í stöðunni. Vitað er að myntsvæðið getur ekki lifað af til lengri tíma litið nema komið verði á fót pólitísku sambandsríki en vilji almennings til nánari samruna hefur hins vegar sjaldan verið minni. Fullkomin óvissa er því uppi um hvernig evrusvæðið eigi eftir að þróast á komandi árum.

Þeir fyrirfinnast engu að síður enn stjórnmálaflokkar hér á landi sem telja réttast að Ísland leiti allra leiða til að taka upp evru, með einum eða öðrum hætti, og þeim hefur núna jafnvel fjölgað í aðdraganda kosninga til Alþingis. Viðreisn hefur þannig sett það á stefnuskrá sína að festa eigi gengi krónunnar við annan gjaldmiðil, en þar er einkum horft til evrunnar, með svonefndu myntráði en forystumenn flokksins hafa talað fyrir því að slíkt fyrirkomulag í peningamálum gæti verið undanfari evruupptöku. Kostirnir séu þeir að gengið haldist stöðugt og vextir ættu að lækka. Ljóst er að ákvörðun um á hvaða skiptigengi ætti að læsa krónuna gagnvart evru inni í myntráði yrði ekki tekin átakalaust enda miklir hagsmunir þar undir fyrir útflutningsgreinar landsins.

Umræða um stefnu í gjaldmiðlamálum snýst öðrum þræði um val á milli mismunandi slæmra valkosta. Fastgengisstefna með upptöku myntráðs myndi vissulega skapa gengisstöðugleika og þar með lækka verðbólguvæntingar fjárfesta. En þess í stað kæmi greiðsluþrotsáhætta þar sem skortur á trúverðugleika og ófullnægjandi gjaldeyrisvarasjóður myndi auka líkur á áhlaupi á bankakerfið og gjaldmiðilinn. Þrátt fyrir að hér hafi byggst upp stór gjaldeyrisforði á allra síðustu árum – óskuldsettur hluti hans er um 500 milljarðar – þá myndi sú fastgengisstefna sem Viðreisn boðar kalla á enn stærri forða. Slíkum gjaldeyrisforða fylgir mikill vaxtakostnaður en hann nemur nú þegar tugum milljarða króna á ári.

Það er ekkert náttúrulögmál að vextir þurfi að vera hærri en í okkar nágrannalöndum vegna íslensku krónunnar.

Þegar reynt er að framfylgja fastgengisstefnu í gegnum myntráð skiptir sköpum að það séu tengsl við hagsveiflu þess myntsvæðis sem gengið er fest við. Svo er ekki í tilfelli Íslands og evrópska myntbandalagsins. Hagsveiflan hér á landi hefur lítil sem engin tengsl við hagsveifluna í kjarnaríkjum evrusvæðisins. Sumir þekktustu hagfræðingar heims hafa því undantekningarlaust ráðið Íslendingum frá því að tengjast evrunni. Þeir benda á þau augljósu sannindi að það sé mikilvægt að Ísland búi við sveigjanlegt gjaldmiðlakerfi enda þurfi gengi krónunnar að geta aðlagað sig þegar framboðsskellur verður í hinum hlutfallslega fáu útflutningsgreinum þjóðarinnar.

Hugmyndir Viðreisnar um fastgengisstefnu, rétt eins og hjá þeim sem tala fyrir upptöku evru, grundvallast á þeirri skoðun að það sé eina leiðin til að innleiða bætta og agaðri hagstjórn. Þetta er hættulegur málflutningur. Sagan kennir okkur að augljósir veikleikar hagkerfa hverfa ekki við það eitt að breytt sé um peningastefnu. Orsaka langvarandi óstöðugleika í efnahagsmálum á Íslandi, sem hefur þýtt mikla verðbólgu og háa vexti, er fyrst og fremst að leita í lausatökum í ríkisfjármálum og ónýtu vinnumarkaðsmódeli. Það er ekkert náttúrulögmál að vextir þurfi að vera hærri hér á landi en í okkar nágrannalöndum vegna íslensku krónunnar.

Íslenskt efnahagslíf og grunngerð þess er um þessar mundir að taka róttækum breytingum þar sem landið er að breytast í fjármagnsútflytjanda. Gengi krónunnar er því að styrkjast og verðbólguvæntingar til lengri tíma eru í samræmi við markmið Seðlabankans. Það er því útlit fyrir frekari vaxtalækkanir á komandi misserum. Á þessu kjörtímabili hafa jafnframt verið tekin risavaxin skref við að bæta umgjörðina um stjórn efnahagsmála – ríkisfjármálaáætlun til fimm ára og eitt lífeyriskerfi fyrir opinbera og almenna vinnumarkaðinn – sem eru eru til þess fallin að festa í sessi þann stöðugleika sem náðst hefur. Verði haldið áfram á þeirri braut, og stjórnmálamenn freistist ekki til þess að auka útgjöld ríkisins um tugi milljarða á ári, munu skapast forsendur fyrir enn lægri vöxtum. En það mun hins vegar taka tíma og engar patentlausnir eru þar í boði.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.