Skýrslan sem er ekki skýrsla

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, fór í langan tíma hamförum í fjölmiðlum og boðaði mikil tíðindi, stórskandala og bombur. Nafn Steingríms J. Sigfússonar kom ítrekað fram í máli hennar og helst mátti ráða að dagar uppgjörs væru í nánd og hann myndi fljótlega sitja hnípinn á bekk, úthrópaður af þjóð sinni og sviptur öllum trúverðugleika.

Svo leið og beið og skýrslan, sem sögð var verk meirihluta fjármálanefndar, leit dagsins ljós. Þar var fátt nýtt að finna, annað en svívirðingar um háttsetta embættismenn sem voru nánast sakaðir um landráð. Nefndin hafði ekki hirt um að gefa þeim tækifæri til að svara fyrir sig og útskýra sína hlið, enda hefði það skemmt hina fyrirframgefnu niðurstöðu. Þegar dylgjum í skýrslunni um ákveðna menn var mótmælt sýndi varaformaður nefndarinnar, Guðlaugur Þór Þórðarson, þann dug að stíga fram og biðjast afsökunar á hinu miður smekklega orðalagi. Úr varð að orðalaginu var mikið breytt. Þetta telst sannarlega til tíðinda en er örugglega ekki fréttin sem formaður fjárlaganefndar hefði helst viljað heyra í kvöldfréttum.

Orð forseta Alþingis, Einars K. Guðfinnssonar, um að skýrslan væri ekki skýrsla í skilningi þingskapa Alþingis, voru örugglega ekki heldur til að gleðja hjörtu meirihluta fjárlaganefndar. Vigdís Hauksdóttir gat ekki hamið gremju sína og kallaði forseta Alþingis „aumingja manninn“ í útvarpsviðtali.

Málið var orðið svo vandræðalegt að meirihluti fjárlaganefndar sá ekkert annað til ráða en að hlaupa frá málinu, þar á meðal helsti samstarfsmaður Vigdísar, Guðlaugur Þ. Þórðarson, sem hefði betur aldrei lagt upp í þennan misráðna leiðangur. Skýrslan er nú nefnd eftir Vigdísi Hauksdóttur, sem hlýtur að teljast eðlilegt, enda sérstakt gæluverkefni þingmannsins.

Allt í kringum þessa skýrslu meirihluta fjárlaganefndar, sem nú nefnist Skýrsla Vigdísar Hauksdóttur, er farsakennt og til háðungar fyrir þá sem að henni stóðu. Ásakanir um hótanir embættismanns í garð þingmanns fjárlaganefndar hljóma ekki sannfærandi. Vissulega er það ekki skynsamlegt af embættismanni að setja sig í samband við þingmann og gera honum grein fyrir að fullyrðingar í skýrslunni kunni að varða við lög. Það er hins vegar hæpið að fullyrða að slík orð jafngildi hótun, það mætti allt eins segja að embættismaðurinn væri að segja þingmanninn nokkuð sjálfsagða hluti. Viðbrögð þingmannsins eru því full dramatísk. En þau eru kannski í takt við stemninguna á fundum meirihluta fjárlaganefndar, þar sem ekki er ólíklegt að menn hafi verið að mæla vitleysuna upp í hver öðrum. Niðurstaðan er eins og við vitum: enginn tekur mark á skýrslunni enda varla hægt þar sem hún er að mætra manna mati engin skýrsla.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.