Píratar falla á prófinu

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Píratar eru stöðugt að koma á óvart, en ekki á skemmtilegan hátt. Flokkurinn sem tónar allra flokka hæst um ný og betri vinnubrögð, gegnsæi og nauðsyn baráttu gegn spillingu gerist hvað eftir annað sekur um óboðleg vinnubrögð.
Skemmst er að minnast þess þegar frambjóðandi sem náði fyrsta sæti í prófkjöri flokksins í Norðvesturkjördæmi var bolað af listanum vegna þess að flokksforystunni hugnaðist hann ekki. Það varð að endurtaka prófkjörið til að ná fram „réttum“ úrslitum. Ekki var mikill lýðræðisbragur á því.

Vist hjá Pírötum er sannarlega ekki ávísun á kærleiksrík samskipti. Samskiptavandi innan Pírata hefur reynst svo mikill að á tímabili þótti fátt til ráða annað en að leita til vinnustaðasálfræðings. Illa var þá komið fyrir flokki fólks sem vill að eigin sögn skapa nýtt Ísland þar sem fólk vinnur saman í sátt og samlyndi.

Þessi tætingslegi flokkur talar digurbarkalega um að fella gömul og úr sér gengin kerfi, grafa spillingaröflin, vinna gegn sérhagsmunum og skapa nýtt upplýst samfélag. Um daginn sýndi sig hins vegar að þingmönnum Pírata reynist illmögulegt að taka afstöðu í málum sem varða þjóðarhag. Þannig hefur Birgitta Jónsdóttir lýst því yfir að hún hafi ekki haft forsendur til að taka afstöðu til hins umdeilda búvörusamnings. Hún var fjarverandi þegar greidd voru atkvæði á Alþingi um samninginn og tveir Píratar sem voru í þingsalnum sátu hjá. Einkennilegt er að Píratar sem stöðugt gjamma um það að bylta þurfi gömlum kerfum skuli ekki geta tekið afstöðu í máli sem snýst einmitt um að festa slíkt kerfi í sessi. Máttlausar afsakanir um manneklu duga Pírötum ekki í þessu máli. Á Alþingi eiga þingmenn ekki að firra sig ábyrgð, skýla sér með fjarvist eða máttlausum orðum um að þeir hafi ekki forsendur til að mynda sér skoðun. Það er skylda þingmanna að kynna sér mikilvæg mál og taka afstöðu til þeirra. Þessu ættu Píratar, líkt og aðrir þingmenn, að gera sér grein fyrir.

Jafnvíst og það er að forysta Framsóknarflokksins styður búvörusamninginn þá er jafn ljóst að ef einhver flokkur hefði átt að berjast gegn honum þá eru það Píratar. Það er að segja svo lengi sem Pírötum er einhver alvara með herópum um að bylta gömlum kerfum og skapa nýtt Ísland.

Píratar falla á hverju prófinu á fætur öðru en þjóðin lætur eins og hún taki ekki eftir því. Enn mælast Píratar með mikið fylgi í skoðanakönnunum, þrátt fyrir að hafa lítið sem ekkert fram að færa, annað en innantóma frasa. Slíkur flokkur mun síst af öllu valda því að vera leiðandi afl í ríkisstjórn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.