fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
FréttirLeiðari

Baráttan um miðjuna

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 26. ágúst 2016 08:18

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjórnmálaflokkar sem vilja ná verulegum árangri verða að höfða til miðjunnar. Geri þeir það ekki fer oft illa fyrir þeim, samanber Samfylkinguna. Hún apaði allt sem hún gat eftir Vinstri-grænum með þeim árangri að hún missti miðjufylgið. Fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, hafði lengi varað við þessari þróun með engum árangri öðrum en þeim að flokkurinn losaði sig snarlega við hann. Vinstra fylgið hefur þó ekki límst við Samfylkinguna, enda eiga vinstrimenn sinn flokk, Vinstri-græna, og gæta sín á því að varast eftirlíkingar. Samfylkingin hefur því ekkert haft upp úr daðri sínu á vinstri vængnum.

Viðreisn gerir sér grein fyrir mikilvægi miðjufylgisins og er líkleg til að ná þar kjósendum á sitt band og sömuleiðis fjölmörgum frjálslyndum hægrimönnum sem finna sig ekki í Sjálfstæðisflokknum. Úr þeim hópi hafa þegar stigið fram tveir sterkir frambjóðendur sem nú eru á lista Viðreisnar, Pawel Bartozsek og Þorsteinn Víglundsson. Báðir eru skynsamir menn og vel meinandi – og þannig fólk þarf þjóðin að eiga á þingi. Þorsteinn, sem kaus að hætta í vel launuðu starfi framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins til að snúa sér að stjórnmálastarfi, sagðist í viðtali á Hringbraut hafa hrifist af Alþýðuflokki Jóns Baldvins Hannibalssonar. Þar talaði Þorsteinn sig inn í hjörtu hægri krata sem voru aldrei velkomnir í Samfylkinguna og hafa því of lengi verið heimilislausir. Þeir munu eflaust margir hreiðra um sig hjá Viðreisn og finnast eins og þeir séu loksins komnir aftur heim.

Viðreisn er líkleg til að taka fylgi frá Sjálfstæðisflokki og sennilega einnig Framsóknarflokki, sem hafa alltaf lagt mikið upp úr því að höfða til miðjunnar. Vandi Sjálfstæðisflokksins er sá að í hugum of margra kjósenda, bæði á hægri væng og miðjunni, starfar flokkurinn eins og varðhundur sérhagsmuna og er því ekki lokkandi valkostur. Framsóknarflokkurinn á í formannsvanda sem ekki er enn ljóst hvernig eða hvort verði leyst úr. Flokkur sem glímir við innanflokksátök er laskað vörumerki. Framsóknarflokkurinn hefur síðan færst til hægri á valdatíma Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og getur því ekki treyst á miðjufylgið í jafn ríkum mæli og áður. Samfylkingin er þegar búin að missa miðjufylgið og Vinstri-græn hafa aldrei kært sig um það og hafa því engu að tapa. Píratar hafa svo tekið furðulega vanhugsaða vinstri sveiflu á síðustu vikum og kunna þar með að hafa fælt frá sér miðjufylgi sem þeim er svo nauðsynlegt ætli þeir að vera fjöldahreyfing. Verði áberandi gott mannval á listum Viðreisnar, þá ætti flokkurinn að standa uppi með pálmann í höndunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Seesaw-deilur Reykjavíkur og Persónuverndar beint í Hæstarétt

Seesaw-deilur Reykjavíkur og Persónuverndar beint í Hæstarétt
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Fulltrúadeildin greiðir loksins atkvæði um hjálparpakka til Úkraínu

Fulltrúadeildin greiðir loksins atkvæði um hjálparpakka til Úkraínu