fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
FréttirLeiðari

Glórulaus hugmynd

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 26. júlí 2016 07:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjórnmálamenn hafa undanfarið verið iðnir við að ræða um að efla þurfi heilbrigðiskerfið. Það kann að hvarfla að einhverjum að þeim sé málið hugleikið þessa stundina vegna þess að senn líður að kosningum. Kjósendum er annt um málaflokkinn alla daga, allt árið, öll ár og eru líklegir til að greiða atkvæði sitt þeim flokkum sem boða uppbyggjandi aðgerðir í heilbrigðismálum. Við skulum samt vona að stjórnmálamennirnir séu ekki einungis á atkvæðaveiðum þegar þeir ræða um nauðsyn þess að styrkja heilbrigðiskerfið heldur meini það sem þeir segja. Ljóst er að aðgerða er þörf. Það þarf ekki einungis að setja meiri fjármuni í málaflokkinn heldur þarf að búa til skynsamlega áætlun um það hvernig beri að efla heilbrigðiskerfið. Það hefur látið á sjá á undanförnum árum og um leið var eins og stjórnmálamönnunum stæði á sama. Það er lofsvert ef þeir eru nú loks farnir að átta sig. Batnandi mönnum er best að lifa.

Á sama tíma og ljóst er að átaks er þörf til að efla heilbrigðiskerfið þá vaknar þjóðin upp við það einn góðan veðurdag að tilkynnt er um að erlent félag ætli að reisa risastóra, einkarekna heilbrigðisstofnun og hótel í Mosfellsbæ sem sinna eigi ríkum útlendingum sem ferðast langa leið til landsins til að komast á lúxusspítala. Heilbrigðismálaráðherra frétti af málinu í fjölmiðlum og hreifst ekki af hugmyndinni, fremur en aðrir landsmenn. Það er furðulegt að hugmynd eins og þessi sé komin svo langt að bæjarráð Mosfellsbæjar hafi heimilað bæjarstjóranum að undirrita samning um úthlutun lóðar undir bygginguna.

Það er ekki furða að margir hafi orðið hvumsa við þessar fréttir. Þetta hljómar eins og ein af þeim mörgu glórulausu hugmyndum sem menn fengu á góðæristímanum. Þá var ekki eins og menn byggju í litlu landi heldur breiddu þeir út faðminn og ákváðu að byggja sem flesta loftkastala. Spítali, fjármagnaður og rekinn af útlendingum fyrir ríka útlendinga er ekki nokkuð sem íslenska þjóðin þarf á að halda og mun síst styrkja íslenskt heilbrigðiskerfi. Starfsemin er fyrst og fremst hugsuð fyrir útlendinga en búast má við að ríkir Íslendingar geti einnig leitað þangað. Þannig verður til tvöfalt heilbrigðiskerfi, nokkuð sem þjóðin er ekki beinlínis að biðja um.

Kári Stefánsson hefur sagt að þessi spítali gæti rústað heilbrigðiskerfinu því svo gæti farið að fjölmargir íslenskir heilbrigðisstarfsmenn myndu ráða sig þar í vinnu á sama tíma og erfitt er að manna stöður á íslenskum heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum. Hann skorar á heilbrigðisráðherra að koma í veg fyrir að hugmyndinni verði hrint í framkvæmd.

Kári hefur rétt fyrir sér, það verður að stöðva þessi ósköp!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu