fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
FréttirLeiðari

Prestar í nafni kærleikans

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 1. júlí 2016 10:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það var beinlínis átakanlegt að horfa á myndband sem sýndi lögreglumenn draga tvo hælisleitendur út úr Laugarneskirkju en þar höfðu prestar veitt þeim skjól. Þarna reyndi á kirkjugrið sem dugðu ekki og sennilega ekki við því að búast. Mörgum er brugðið við þennan atburð, aðfarir lögreglumanna sýndust harkalegar og einn þeirra sló til manns sem þar var staddur og virtist ekki hafa gert neitt af sér. Varla var sérstök nauðsyn á því.

Kristín Þórunn Tómasdóttir, sóknarprestur í Laugarneskirkju, og Toshiki Toma, prestur innflytjenda, stóðu fyrir því að kirkjan skaut skjólshúsi yfir þessa tvo hælisleitendur. Þetta gerðu þau í von um að fornar venjur um kirkjugrið gætu fengið stjórnvöld til að taka ábyrga og efnislega afstöðu til mála einstakra hælisleitenda.

Það er ljóst að ekki líkaði öllum vel að prestar skyldu ganga fram fyrir skjöldu í að veita hælisleitendum skjól. Einhverjir hafa jafnvel hug á því að segja sig úr Þjóðkirkjunni vegna þessa. Hvað voru prestarnir að gera? Jú, þeir störfuðu þarna í nafni náungakærleiks, sem kirkjunnar þjónar mættu reyndar vera ögn duglegri við að sýna í verki á erfiðum stundum eins og þessum. Það er fjarska auðvelt að elska náungann eins og sjálfan sig á rólegu tímunum en þegar náunginn þarfnast hjálpar á erfiðum tímum þá getur kostað átak að stíga fram og rétta fram hjálparhönd, sérstaklega ef menn eiga á hættu að kalla yfir sig reiði annarra með því.

Það er ljóst að prestarnir tveir hafa vakið mikla athygli á því hversu kaldranalega meðferð hælisleitendur fá of oft hér á landi. Við sem þjóð erum ekki að standa okkur vel í málefnum hælisleitenda, það er eins og við viljum helst sem minnst af þeim vita. Við notum Dyflinnarreglugerðina eins og vottorð fyrir því að þurfa ekki að aðhafast. Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, hefur hvatt til endurskoðunar á Dyflinnarreglugerðinni en ekkert bendir sérstaklega til að svo verði gert. Ef halda á í þessa reglugerð þá er óskandi að hún verði túlkuð á rýmri og mannúðlegri hátt en gert hefur verið.

Í löndum í kringum okkur er útlendingaandúð tekin að vaxa og dafna. Víða í lýðræðisríkjum sækjast öfgafullir stjórnmálamenn eftir að verða þjóðarleiðtogar og safna fylgi þeirra sem trúa svo innilega á skiptinguna „við“ og „hinir“.

Flóttamenn eru ekki óvinir okkar og ekki hættulegar manneskjur. Ef við getum ekki sýnt fólki í neyð náungakærleik þá er ekki mikið í okkur varið sem manneskjur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni