fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
FréttirLeiðari

Takk, en nei takk

Ritstjórn DV
Föstudaginn 10. júní 2016 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Reynsla Íslands upp úr síðustu aldamótum af fullkomlega óheftum fjármagnshreyfingum milli landa reyndist afar dýrkeypt. Gríðarlegt innflæði gjaldeyris vegna kaupa erlendra skammtímafjárfesta á íslenskum ríkisverðbréfum var ein helsta ástæða innstæðulausrar gengisstyrkingar krónunnar sem aftur kynti undir ósjálfbæra skuldsetningu þjóðarbúsins. Niðurstaðan varð að lokum allsherjar bankahrun og í kjölfarið setning fjármagnshafta til að aftra því að 600 milljarða krónueign erlendra fjárfestingarsjóða myndi leita úr landi með tilheyrandi gengishruni og lífskjaraskerðingu almennings.

Átta árum síðar hafa íslensk stjórnvöld kynnt til sögunnar nýtt stjórntæki í þeim tilgangi að koma í veg að slík atburðarás endurtaki sig. Seðlabanki Íslands fær heimild til að ákvarða hverju sinni sérstaka bindiskyldu á fjármagnsinnstreymi og hefur bankinn nú þegar ákveðið að erlendir aðilar sem fjárfesta í ríkisverðbréfum eða innlánum verði að lúta því að 40% af fjárfestingunni séu bundin í eitt ár á vaxtalausum reikningi. Seðlabankinn getur gengið enn lengra – bundið 75% af fjárfestingunni til allt að fimm ára – telji hann slíkt brýnt til að spyrna enn frekar við fótum. Þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi um nokkra hríð boðað slíkt fjárstreymistæki þá hefur tímasetning og umfang þessara aðgerða komið markaðsaðilum á óvart. Það sætir furðu. Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisbréfa hefur hækkað um meira en 50 punkta og þá hefur gengi hlutabréfa gefið nokkuð eftir.

Þessi stefnumörkun stjórnvalda, þótt hún sé vitaskuld ekki gallalaus, er hins vegar í senn nauðsynleg og skynsamleg. Þrátt fyrir að vaxtamunarviðskipti hafi fram til þessa verið fremur hófleg – erlendir aðilar hafa keypt ríkisskuldabréf fyrir um 80 milljarða frá því um mitt síðasta ár – þá var viðbúið að þau myndu að óbreyttu færast í vöxt á komandi misserum samfara losun hafta og hækkun á lánshæfismati ríkisins. Þegar litið er til þess að vaxtamunur Íslands við Bandaríkin og evrusvæðið er í kringum 6%, meiri en þekktist í aðdraganda bankahrunsins 2008, og að hagsveiflan hérlendis er á allt öðrum og betri stað en í okkar helstu viðskiptalöndum er ljóst að fyrir erlenda fjárfestingarsjóði er hægt að hafa mikinn ávinning af því að fjárfesta í íslenskum vöxtum. Þá er hættan á gengisfalli krónunnar nánast hverfandi vegna gríðarlegs óskuldsetts gjaldeyrisforða Seðlabankans. Það er því áhættuminna en ella fyrir slíka fjárfesta að koma til landsins í leit að skammtímaávöxtun.

Ábati raunhagkerfisins af slíku innflæði, sem er í eðli sínu afar kvikt, er í besta falli takmarkaður og áhrifin í versta falli stórskaðleg.

Það er ekkert launungarmál að stjórnvöld töldu afar mikilvægt að Seðlabankinn yrði tilbúinn með í vopnabúri sínu stjórntæki til að stemma stigu við innflæði gjaldeyris áður en kæmi að útboði bankans til að leysa út allt að 320 milljarða aflandskrónueignir. Í hópi þeirra sem hafa verið hvað stórtækastir í vaxtamunarviðskiptum að undanförnu eru einmitt sjóðir sem eru jafnframt umsvifamestu eigendur aflandskróna. Hafa sjóðirnir látið að því liggja að þeir ætli ekki að fallast á skilyrði Seðlabankans í útboðinu heldur fremur að enda með fjármuni sína á læstum vaxtalausum reikningum og láta reyna á rétt sinn fyrir dómstólum. Vitað var að þeir höfðu uppi áform á næstunni um tugmilljarða fjárfestingu í ríkisbréfum í því skyni að styrkja samningsstöðu sína í slíkum lagalegum ágreiningi. Skilaboð íslenskra stjórnvalda gagnvart þess konar fjármagnsflæði til landsins eru núna hins vegar orðin skýr: Takk, en nei takk.

Þótt ekki sé um það deilt að æskilegt er að stefna að sem mestu frelsi í fjármagnsflæði milli landa þá geta verið á því takmarkanir. Þannig er fráleitt að halda því fram að bindiskylda á gjaldeyrisinnstreymi, sem er líkt og hvert annað hagstjórnartæki, sé ígildi einhvers konar fjármagnshafta. Staðreyndin er sú að ábati raunhagkerfisins af slíku innflæði, sem er í eðli sínu afar kvikt, er í besta falli takmarkaður og áhrifin í versta falli stórskaðleg þegar loftið tekur að leka úr bólunni og fjárfestar flýja í skyndi með fé sitt. Og það gerist alltaf að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“