fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
FréttirLeiðari

Loforð stjórnmálamanna

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 31. maí 2016 09:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það teljast ekki meðmæli með einstaklingi svíki hann loforð sem hann hefur gefið. Oft er eins og annað gildi um loforð stjórnmálamanna. Þeir eru gjarnir á að lofa hinu og þessu en þegar komið er að efndum bera þeir of oft fyrir sig að forsendur hafi breyst og því sé öllum í hag að loforðið verði ekki efnt. Röksemdafærsla í þessa átt heyrist nú frá ýmsum stjórnarliðum, sérstaklega þingmönnum Framsóknarflokksins, sem segja að ýmis stór mál sem ganga þurfi frá séu svo mikilvæg að ekki sé æskilegt að gengið sé til þingkosninga í haust. Þessir stjórnarþingmenn tala eins og þeir séu að gera þjóðinni stórgreiða með að heykjast á því að efna loforð sem flokksleiðtogar þeirra gáfu. Þingmennirnir telja sig vera að hafa vit fyrir þjóðinni, en gleyma því um leið að þeir starfa í umboði þjóðarinnar sem vill kosningar sem allra fyrst.

Ríkisstjórn Íslands getur vissulega státað af allnokkrum árangri, sérstaklega í efnahagsmálum. Hér ríkir efnahagslegur stöðugleiki og reyndar það mikill að verðbólga er nær engin – og er það óneitanlega þægileg tilbreyting fyrir landsmenn sem of lengi höfðu mikil kynni af því óskemmtilega fyrirbæri. Góð efnahagsstjórn er hið sterka tromp stjórnarflokkanna. Sjálfstæðisflokkurinn er óragari en Framsóknarflokkurinn við að leggja verk sín í dóm kjósenda með haustinu, enda eru skoðanakannanir þeim flokki í hag. Það er að vissu leyti skiljanlegt að framsóknarmenn vilji vinna tíma og fresta kosningum, en það hlýtur að kalla á neikvæð viðbrögð kjósenda. Það er einfaldlega einu sinni svo að núverandi forsætisráðherra, framsóknarmaðurinn Sigurður Ingi Jóhannsson, gaf, ásamt formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni, loforð um kosningar í haust.

Stutt og snaggaraleg kosningabarátta ætti ekki að vefjast fyrir stjórnmálaflokkum, sérstaklega ekki ef þeir telja sig hafa unnið vel. Þá ættu þeir einmitt að geta glaðbeittir lagt störf sín í dóm kjósenda. Framsóknarmenn eru hikandi, kannski eru það skoðanakannanir sem sýna dvínandi fylgi sem gera þá svo órólega. Þeir ættu reyndar að vita að skoðanakannanir jafngilda ekki kosningaúrslitum. Píratar átta sig vel á þessu og forvarsmenn flokksins hafa sagt að þeir búist ekki við að ná þeim yfirburðaárangri sem skoðanakannanir boða. Meira að segja Samfylkingin, sem er í dauðateygjunum, er reiðubúin að ganga til kosninga sem geta bundið enda á tilvist hennar. Kannski hugsa menn þar á bæ að illu sé best af lokið.

Almenningur ber ekki traust til Alþingis. Þingmenn eiga ekki að starfa á þann hátt að enn dragi úr því trausti. Einmitt það eru þeir að gera þegar þeir gefa í skyn, eða segja beinum orðum, að engin ástæða sé til að efna loforðið sem gefið var um kosningar í haust.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“