fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
FréttirLeiðari

Pólitískur ólgusjór

Ritstjórn DV
Föstudaginn 13. maí 2016 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Staðan í íslenskum stjórnmálum er hreint út sagt illlæsileg. Byrjum á stöðumati á flokkunum.

Framsókn tók á sig brotsjó og formanninn tók út. Maður fyrir borð. Það er ekki endilega það versta sem gat komið fyrir. Það var farið að kenna þreytu í garð Sigmundar Davíðs. Brotthvarf hans gefur flokknum tækifæri til endurnýjunar. Fylgið er hins vegar hrunið og flokkurinn stendur frammi fyrir þeirri hættu að fara undir lífsmark, sem er fimm prósent.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk líka á sig brotsjó. Þar tók engan út. Allir hanga á dekkinu, laskaðir og marðir og virðast vera að jafna sig. Í viðtali í DV í fyrra sagði formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, að flokkurinn þyrfti að uppfæra sig. Það hefur lítið bólað á því. Enn er þó tækifæri til þess. Einstaka nátttröll sem hafa steinrunnið í flokknum ættu að þekkja sinn vitjunartíma. En flokkurinn sækir á í skoðanakönnunum og mælist nú með mest fylgi allra flokka.

Samfylkingin er sjúklingur, varla með lífsmarki, svo vitnað sé í orð fráfarandi formanns. Í viðtali í dag við Kolbrúnu Bergþórsdóttur fer Árni Páll yfir stöðuna. Hann segir í raun að flokkurinn sé handónýtur og endurnýja þurfi upp í rjáfur. Það verður ekki og vængbrotin Samfylking mun ekki hefja sig til flugs. Raunar hefur formannsefni tilkynnt að hann telji nauðsynlegt að leggja flokkinn niður og byrja upp á nýtt.

Vinstri græn hafa verið að taka flugið. Þar er einkar geðþekkur og alþýðlegur formaður á fleti og þjóðin kann að samsama sig Katrínu Jakobsdóttur. VG er einn af þremur flokkum sem er að mælast af þeirri stærðargráðu að skipta máli.

Björt framtíð er það ekki lengur.

Píratar eru ekki lattelepjandi lopatreflar í Reykjavík. Þeir eru Íslendingar um allt land sem eru ósáttir við stöðuna. Eins og sjá má glögglega í fréttaskýringu í DV í dag eru Píratar á siglingu og hafa forystu í öllum kjördæmum. Sá byr er þó hverfull og sjóræningjaskipið gæti hæglega setið fast í tempraða beltinu. Það veit þó enginn og ólíkindatólin gætu hæglega fengið það brautargengi sem þjóðin er sífellt að lofa.

Aðrir og óstofnaðir flokkar gætu gert usla. En eins og staðan er í dag, og sérstaklega ef horft er til skoðanakönnunar Fréttablaðsins sem birtist í gær, þá eru líkur á að tveir af þremur flokkum myndi næstu ríkisstjórn; Sjálfstæðisflokkur, Píratar og Vinstri græn.

Ríkisstjórnin mun njóta góðra verka í kosningunum, en áralangur glundroði frá hruni mun verða vatn á myllu breytinga. Átökin um kjósendur munu fara fram á miðjunni. Samfylkingin brenndi sig á því að fara of langt til vinstri. Árni Páll hefur áttað sig á þessu en það gæti verið of seint að ætla að endurheimta það fylgi. Á móti kemur að margoft hefur sannast undanfarnar vikur að vika er sem eilífð í pólitík.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Maður féll niður um sjö tröppur á skemmtistað – Bíl rænt og eiganda ógnað með skotvopni

Maður féll niður um sjö tröppur á skemmtistað – Bíl rænt og eiganda ógnað með skotvopni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Forsetaefnasúpa Íslands vekur athygli og furðu erlendis – Bauð sig óvart fram því hún sér illa – „Ég var ekki með gleraugun á mér“

Forsetaefnasúpa Íslands vekur athygli og furðu erlendis – Bauð sig óvart fram því hún sér illa – „Ég var ekki með gleraugun á mér“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Maður gengur berserksgang í Langholtshverfi – Skemmir bíla og girðir niður um sig

Maður gengur berserksgang í Langholtshverfi – Skemmir bíla og girðir niður um sig
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Aðalsteinn lagði Moggabloggarann Pál í héraði – Átta ummæli dæmd dauð og ómerk og dagsektir yfirvofandi

Aðalsteinn lagði Moggabloggarann Pál í héraði – Átta ummæli dæmd dauð og ómerk og dagsektir yfirvofandi