fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
FréttirLeiðari

Lokahnykkurinn

Ritstjórn DV
Föstudaginn 15. apríl 2016 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Formaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins benti á hið augljósa í vikunni. Fyrir stöðugleika og horfur í efnahagslífinu er jákvætt að sviptingar í íslenskum stjórnmálum hafi ekki orðið til þess, eins og sumir kölluðu samt eftir, að þing yrði rofið og boðað til kosninga „strax“. Þetta á ekki síst við um mikilvægasta óleysta verkefni stjórnvalda – fyrirhugað fjölvalsútboð til að leysa út um 300 milljarða aflandskrónueignir. Þingrof hefði sett tímasetningu og framkvæmd útboðsins í uppnám. Þetta vita allir sem til þekkja.

Það var því furðulegt að heyra stjórnarandstöðuna gera lítið úr þeirri hættu á að slík pólitísk atburðarás myndi valda töfum á útboðinu um ófyrirséðan tíma – og þá um leið að hægt yrði að taka í kjölfarið ný skref í losun hafta. Sumir stjórnarandstöðuþingmenn gengu þó lengra í fjarstæðukenndum málflutningi sínum um aflandskrónuútboðið. Þannig hélt Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, því fram í liðinni viku að „ekkert nýtt“ fælist í fyrirhuguðu uppboði til að leysa út aflandskrónueigendur þar sem Seðlabankinn væri búinn standa að slíkum útboðum allt frá árinu 2011. „Þetta er bara endurtekið verkefni,“ sagði þingmaðurinn.

Þau ummæli, komandi frá fyrrverandi fjármálaráðherra, lýsa í besta falli vandræðalegri vanþekkingu á viðfangsefninu og í versta falli einbeittum ásetningi í að gefa lítið fyrir staðreyndir um þetta risavaxna hagsmunamál sem niðurstaða þarf að nást í svo hægt sé sem fyrst að hefja losun hafta á Íslendinga. Frekari tafir á útboðinu, sem átti upphaflega að fara fram í október á síðasta ári, eru óafsakanlegar og gætu jafnframt orðið kostnaðarsamar fyrir þjóðarbúið.

Ólíkt þeim gjaldeyrisútboðum sem haldin voru í tengslum við umdeilda fjárfestingaleið Seðlabankans á árunum 2011 til 2015 þá munu aflandskrónueigendur í þetta skiptið standa frammi fyrir afarkostum þannig að tryggt sé að böndum verði komið á allar aflandskrónur í einu útboði. Þeir erlendu fjárfestingarsjóðir sem kjósa að losa ekki um krónueignir sínar með verulegu álagi í skiptum fyrir gjaldeyri eða bindingu í ríkisskuldabréfum í krónum eða evrum til langs tíma munu enda með eignir sínar á læstum reikningum sem bera enga eða neikvæða vexti. Þannig verður aflandskrónuvandinn leystur með einni aðgerð og forsendur skapaðar samtímis fyrir skjótri haftalosun á íslensk heimili, fyrirtæki og lífeyrissjóði.

Þau ummæli, komandi frá fyrrverandi fjármálaráðherra, lýsa í besta falli vandræðalegri vanþekkingu á viðfangsefninu.

Þótt engin ástæða sé til að efast um að þessi aðferðafræði sé í samræmi við íslensk lög og alþjóðlegar skuldbindingar þá er ljóst að hún gerir framkvæmd uppboðsins lagalega mun flóknari heldur en þau gjaldeyrisútboð sem Seðlabankinn hefur áður haldið. Þá skiptir sköpum að hvatarnir séu stilltir þannig við framkvæmd uppboðsins að niðurstaðan verði sem hagfelldust fyrir íslenskt þjóðarbú – aflandskrónueigendum verði með öðrum orðum ekki gert kleift að ganga meira á gjaldeyrisforða Seðlabankans en þörf krefur við útgöngu þeirra úr höftum. Að öðrum kosti er hætt við því að svigrúm fyrir erlendar fjárfestingar Íslendinga verði minna en ella.

Stærstur hluti aflandskrónustabbans, eða um 230 milljarðar króna, er í höndum aðeins fjögurra bandarískra fjárfestingarsjóða. Fulltrúar þeirra sjóða hafa ekki farið varhluta af ört batnandi efnahagsstöðu Íslands sem endurspeglast meðal annars í því að óskuldsettur gjaldeyrisforði Seðlabankans er orðinn meiri en 400 milljarðar króna. Þeir telja því fá rök standa til þess að sjóðirnir þurfi að sætta sig við skiptigengi sem verður tugprósentum lægra en skráð gengi krónunnar vilji þeir losna strax úr landi með eignir sínar.

Engin ástæða er aftur á móti fyrir stjórnvöld til að gera neitt með slík sjónarmið. Mikilvægt er að hafa í huga að aflandskrónur eru sérstakur eignaflokkur sem lýtur öðrum lögmálum en venjulegar krónur, sem hafa ríkari heimildir til fjárfestinga hérlendis, og eru því fyrir vikið talsvert ódýrari en aðrar íslenskar krónur. Þannig var gengið í þeim gjaldeyrisútboðum sem Seðlabankinn hélt í tengslum við fjárfestingaleiðina á árunum 2011 til 2015 að meðaltali um 220 krónur gagnvart evru. Afar ólíklegt verður að teljast að aflandskrónueigendur geti vænst þess að fá hagstæðara markaðsgengi kjósi þeir núna að skipta á eignum sínum fyrir erlendan gjaldeyri.

Stjórnvöld hljóta að horfa til þess, rétt eins og gert var gagnvart kröfuhöfum gömlu bankanna, að eigendur aflandskróna njóti ekki bættrar erlendrar stöðu þjóðarbúsins með neinum hætti við útgöngu úr höftum. Þess í stað mun sú góða staða sem hefur orðið til vegna viðvarandi mikils viðskiptaafangs undanfarin ár verða nýtt til að koma til móts við mörg hundruð milljarða króna uppsafnaða erlenda fjárfestingaþörf íslenskra lífeyrissjóða og fyrirtækja. Til að tryggja slíka niðurstöðu í þessu næsta stóra skrefi stjórnvalda við losun hafta þá er nauðsynlegt að reiða sig á trausta pólitíska forystu fremur en brigðula dómgreind embættismanna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Forsetaframbjóðandi greiddi fyrir viðtalið í NBC – Segir verðið trúnaðarmál – „I´m Gonna Win, There You Go“

Forsetaframbjóðandi greiddi fyrir viðtalið í NBC – Segir verðið trúnaðarmál – „I´m Gonna Win, There You Go“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“