fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
FréttirLeiðari

Forsetafarsinn

Kolbrún Bergþórsdóttir
Miðvikudaginn 30. mars 2016 09:26

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hinn venjulegi Íslendingur þarf að hafa sig allan við ætli hann að muna hverjir hafa þegar boðið sig fram til forseta Íslands. Það sama á við ætli hann að muna hverjir eru að íhuga málið. Sú staða er uppi að galvaskir frambjóðendur virðast ekki þurfa hvatningu fjöldans til að bjóða sig fram. Stuðningur Facebook-hópsins nægir mörgum, öðrum dugar að einn vinur og maki lýsi yfir stuðningi, einn frambjóðandi segist síðan hafa fengið hvatningu úr heilagri ritningu.

Ljóst er að langflestir þeirra frambjóðenda sem þegar hafa stigið fram eiga eftir að reka sig á hinn harða raunveruleika sem er sá að lítil sem engin eftirspurn er eftir þeim. Þeir geta þá huggað sig við að þeir hafi samt komist í fjölmiðla og átt sína fimmtán mínútna frægð. RÚV hefur á síðustu vikum tekið frambjóðendur í stutt viðtal sem er bæði útvarpað og sýnt í sjónvarpsfréttum. Einstaka fjölmiðlar hafa sýnt álíka dugnað en aðrir verið áhugalausari. Í viðtölunum svarar frambjóðandinn kurteislega orðuðum spurningum um það hvaða áherslur hann muni hafa í embætti og hvort hann ætli sér að breyta forsetaembættinu. Frambjóðendur setja sig umsvifalaust í hlutverk landsföður og segjast ætla að brúa gjá milli þings og þjóðar og eiga náið samtal við þjóð sína – og svo framvegis. Þeir sem hlusta og horfa vita mætavel að frambjóðandinn hefur ekki fjöldafylgi á bak við sig og mun ekki verða næsti forseti lýðveldisins. Fréttamaðurinn virðist sömuleiðis gera sér grein fyrir þessu en hann er að vinna vinnuna sína og reynir eftir bestu getu að láta eins og ekkert sé.

Ásóknin í forsetaembættið er orðin að aðhlátursefni manna á meðal – og það má auðvitað segja að það sé bara gott að þjóðin skemmti sér yfir einhverju. Þegar ekki er þverfótað fyrir frambjóðendum má hins vegar velta því fyrir sér hvort ekki sé heppilegra að þeir leggi fram meðmælalista sinn áður en þeir fá ýtarlega umfjöllun í fjölmiðlum. Víst er að einhverjir munu ekki ná að safna tilskildum fjölda og heltast því úr lestinni. Nógir verða samt eftir. Útsending RÚV frá umræðum forsetaframbjóðenda verður örugglega sérstök vegna fjölda frambjóðenda. Þar mun hver frambjóðandi ekki fá margar mínútur til umráða og þungavigtarframbjóðandi fær sama tíma og sá sem nær engan stuðning hefur.

Ýmsir hafa áhyggjur af því að næsti forseti verði kosinn með litlu atkvæðamagni vegna aragrúa frambjóðenda. Um leið ber að hafa í huga að mjög líklegt er að sterkir frambjóðendur muni koma fram á næstu vikum. Á lokasprettinum munu því tveir til þrír berjast um hylli þjóðarinnar. Og þjóðin veit sínu viti. Hún hefur fram að þessu borið gæfu til að velja sér forseta sem hefur verið landi og þjóð til sóma. Valið er hennar og hún mun örugglega velja rétt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“