Slá tvær flugur í einu höggi

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Það er bullandi góðæri á Íslandi. Samfellt hagvaxtarskeið hefur staðið yfir í um sex ár og fátt í kortunum sem gefur til kynna að því muni linna á komandi árum. Verðbólga hefur verið undir markmiði Seðlabankans í hartnær þrjú ár; kaupmáttur launa hefur aldrei verið meiri; atvinnuleysi er hverfandi; þjóðhagslegur sparnaður heldur áfram að aukast; og viðvarandi viðskiptaafgangur hefur skilað sér í því að Ísland verður lánardrottinn við útlönd innan fárra mánaða. Þetta er einstök staða sem á sér fá ef nokkur fordæmi í hagsögu Íslands.

Stærsta spurningin sem íslensk stjórnvöld og Seðlabankinn standa frammi fyrir við þessar aðstæður er hvernig eigi að fást við gengisþróun krónunnar. Verði áframhald á gríðarlegri gengisstyrkingu krónunnar – hún hefur hækkað um meira en 15% gagnvart evru það sem af er þessu ári – gæti slík þróun brátt farið að raska verulega jafnvægi í þjóðarbúskapnum með kunnuglegum afleiðingum. Ólíkt því sem hins vegar átti við í aðdraganda bankahrunsins, þar sem erlend skuldsetning og vaxtamunarviðskipti spákaupmanna stuðlaði að mun hærra gengi krónunnar en innstæða var fyrir, þá eru það undirliggjandi þættir sem drífa áfram gengisstyrkinguna í þetta sinn. Þar ber helst að nefna gjaldeyrisinnstreymi samtímis örum vexti ferðaþjónustunnar, batnandi viðskiptakjör á alþjóðamörkuðum og að undanförnu aukin bein fjárfesting erlendra aðila á Íslandi. Gengisþróunin ræðst því ekki af spákaupmennsku með hættu á snöggu útflæði þegar syrta fer í álinn.

Þegar slíkir kraftar eru að verki er hægara sagt en gert – og ekki endilega æskilegt – að reyna að sporna gegn styrkingu gjaldmiðilsins. Þrátt fyrir að mörgu leyti ákjósanlegar aðstæður til að lækka stýrivexti, eins og margir hagfræðingar hafa kallað eftir, þá virðist peningastefnunefnd Seðlabankans ætla að fara sér afar hægt í þeim efnum enda þótt lækkun vaxta hefði þær jákvæðu afleiðingar að slá á gengishækkun krónunnar. Þess í stað hefur Seðlabankinn einblínt á að standa gegn styrkingu krónunnar með gjaldeyriskaupum í stórum stíl og byggja þannig upp forða sem nemur orðið um 40 prósentum af landsframleiðslu. Þótt nauðsynlegt sé fyrir Ísland að búa yfir stórum óskuldsettum gjaldeyrisforða þá mun Seðlabankinn, meðal annars vegna þess að slíkum forða fylgir mikill vaxtakostnaður, fyrr frekar en síðar þurfa að láta af gjaldeyriskaupum sínum. Rétt markaðsgengi krónunnar mun þá brjótast fram af fullum þunga – og að óbreyttu styrkist gengið umtalsvert.

Íslensk stjórnvöld og Seðlabankinn ættu að skoða alvarlega þann möguleika að lífeyrissjóðir landsins verði skikkaðir til að ráðstafa stórum hluta af hreinu innflæði sínu til fjárfestinga erlendis.

Nú þegar verið er að taka fyrstu skrefin við að losa um höft á Íslendinga er mikið fjármagnsútflæði því ekki lengur áhættuþáttur heldur þvert á móti afar eftirsóknarvert markmið. Ísland er að breytast úr því að vera fjármagnsinnflytjandi, samhliða nánast viðvarandi viðskiptahalla allt frá lokum seinni heimsstyrjaldar, yfir til þess að vera nettó útflytjandi á fjármagni. Hagfræðingurinn Ásgeir Jónsson hefur bent á í þessu samhengi að þetta sé verkefni sem mun að stórum hluta skrifast á lífeyrissjóðina. Sparnaður Íslendinga, fyrst og fremst í gegnum sjóðasöfnunarkerfi lífeyrissjóða, er í dag að langstærstum hluta í krónum. Þannig er hlutfall erlendra eigna sjóðanna aðeins um 22 prósent af ríflega 3.300 milljarða króna hreinni eign þeirra. Þetta hlutfall þarf að hækka verulega á næstu árum og áratugum – helst þannig að erlendar eignir verði um helmingur heildareigna sjóðanna.

Síðla árs 2015 byrjaði Seðlabankinn að veita lífeyrissjóðunum sérstaka undanþáguheimild frá höftum – samtals 80 milljarðar á um tólf mánaða tímabili – til erlendra fjárfestinga. Sjóðirnir voru hins vegar talsvert frá því að fullnýta þá heimild. Hægt er að sýna því skilning að lífeyrissjóðirnir vilji fara sér í engu óðslega við að auka fjárfestingar sínar út fyrir landsteinana við núverandi aðstæður. Efnahagshorfur hér á landi eru mun betri en í okkar helstu nágrannalöndum og útlit er fyrir frekari gengisstyrkingu krónunnar. Forsvarsmenn sjóðanna þurfa engu að síður að horfa til lengri tíma og draga lærdóm af fjármálaáfallinu 2008 sem sýndi fram á nauðsyn þess að stór hluti af sparnaði Íslendinga sé í erlendri mynt.

Íslensk stjórnvöld og Seðlabankinn ættu því að skoða alvarlega þann möguleika að lífeyrissjóðir landsins verði skikkaðir með einum eða öðrum hætti til að ráðstafa stórum hluta af hreinu innflæði sínu til fjárfestinga erlendis. Þannig yrðu að minnsta kosti tvær flugur slegnar í einu höggi. Íslendingar myndu annars vegar ná fram mikilvægri áhættudreifingu á sparnaði sínum sem kemur í veg fyrir kynslóðamisvægi við útgreiðslu lífeyris í framtíðinni og hins vegar aftra því að gjaldeyrisinnstreymi muni ofhita hagkerfið og valda eignabólu sem að lokum framkallar gengishrun þegar loftið tekur að leka úr henni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.