fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
FréttirLeiðari

Skylda stjórnmálamanna

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 15. nóvember 2016 07:56

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það var ósköp neyðarlegt að verða vitni að því þegar Píratar ofmetnuðust vegna velgengni sinnar í skoðanakönnunum og settu af stað stjórnarmyndunarviðræður fyrir kosningar. Afleiðingarnar urðu þær að kjósendur fylltust margir skelfingu við tilhugsunina um Pírata í helstu ráðherraembættum, vildu gera þá umboðslausa og kusu samkvæmt því. Af þessu ættu stjórnmálamenn að læra að það er heppilegra að búið sé að telja upp úr kjörkössunum áður en farið er að mynda ríkisstjórn.

Stjórnmálamenn tala aldrei meira en í aðdraganda kosninga og gá því ekki alltaf að sér. Þannig fóru þeir sumir að útiloka samstarf við flokka, áður en kosið var og einnig eftir að úrslit voru ljós. Þetta er vítavert ábyrgðarleysi. Þjóðin kýs og stjórnmálamenn verða að taka mið af vali hennar. Kosningaúrslitin sýndu að þjóðin kærir sig ekki um ríkisstjórn undir forystu Pírata og hún virðist heldur ekki kæra sig um hreina vinstri stjórn. Jafn erfitt og sumum finnst að sætta sig við það þá fengu hin borgaralegu öfl brautargengi í kosningunum. Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn, Björt framtíð og Framsóknarflokkur fengu 40 þingmenn af 63 þingmönnum, sem er dágóður meirihluti. Ýmsum kann að mislíka þessi úrslit stórlega, en það breytir því ekki að þau eru staðreyndin.

Það er sjálfsögð krafa að forystumenn flokka setjist saman eftir kosningar og reyni að mynda starfhæfa stjórn. Vinstri menn vilja ekki ræða við Sjálfstæðismenn og eru æfir vegna þess að fulltrúar annarra flokka setjast niður með Bjarna Benediktssyni og ræða hvort flötur sé á samstarfi. Þessi háværi hópur vinstri manna (og Píratar flokkast þar á meðal) hefur ausið óbótaskömmum yfir þann mæta stjórnmálamann Óttar Proppé og talað eins og hann hafi svikið heilagan málstað. Þetta fólk veit nákvæmlega ekkert um málefnavinnu á fundunum, en það kemur ekki í veg fyrir að það æpi og góli sem mest það getur um svik.

Björt framtíð er miðjuflokkur og það er í eðli slíkra flokka að láta málefni ráða og geta bæði starfað til vinstri og hægri. Það var sjálfsagt hjá Bjartri framtíð að mæta við borðið og ræða málefni og skoða hvort málamiðlun verði náð í samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn. Stjórnmálaflokkar hljóta að vilja hafa áhrif, af hverju ætti þeir annars að marka sér stefnu? En það er líka þannig að í ríkisstjórnarsamstarfi flokka þarf að ná málamiðlun. Í fimm flokka ríkisstjórn sem áðurnefndir hávaðaseggir virðast þrá svo mjög, myndi sannarlega reyna á málamiðlun og þá væri það ekki endilega sá sem gaggaði hæst sem fengi málum sínum framgengt.

Menn ættu að anda rólega og leyfa forystumönnum Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar að ræða málin. Engan veginn er víst að samkomulag náist. En ef menn hafa lýðræðisást í heiðri, sem við vonum að flestir geri, þá er ekki vænlegt að saka stjórnmálamenn um illar hvatir þegar þeir eru að sinna þeirri sjálfsögðu skyldu sinni að setjast niður eftir kosningar og kanna málefnagrundvöll.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt