Hvernig gat þetta gerst?

Bandaríkjamenn hafa löngum haft á orði að hvaða landi þeirra sem er geti orðið forseti Bandaríkjanna. Þetta hefur nú sannast. Maður sem hefur ekki nokkra burði til að takast á við embættið og höfðaði til lægstu hvata kjósenda hlaut brautargengi og er á leið í Hvíta húsið. Um allan heim spyr fólk: Hvernig gat þetta gerst?

Donald Trump mun seint verða talinn sómi Bandaríkjanna. Kvenfyrirlitning hans er alkunn, sömuleiðis andúð hans á innflytjendum, múslimum og raunar flestum minnihlutahópum. Í kosningabaráttu sinni ól hann á hatri og tortryggni. Það eru ekki miklar líkur á að maður eins og hann verði til friðs í embætti Bandaríkjaforseta. Heimurinn er orðinn enn hættulegri en hann var.

Engin von er til þess að sátt verði um Donald Trump í Bandaríkjunum. Stór hópur þjóðarinnar mun aldrei sætta sig við að einstaklingur jafn fullur af mannfyrirlitningu og Donald Trump sitji í Hvíta húsinu. Bandaríska þjóðin á heldur ekki að sætta sig við það. Hún á svo miklu betra skilið. Þjóðir heims geta ekki heldur klappað upp Donald Trump sem glæstan fulltrúa Bandaríkjanna. Þær eiga einnig betra skilið. Það virðist samdóma álit umheimsins að það sé hneisa að slíkur ruddi taki sér bústað í Hvíta húsinu.

Jafn einkennilegt og það er, þá laðaði Trump til sín fjöldafylgi. Þeir sem berjast í bökkum kusu auðjöfurinn og það gerði sömuleiðis millistéttin. Þrátt fyrir öll sín andstyggilegu orð í garð kvenna og misgjörðir í þeirra garð kusu konur Trump í þó nokkrum mæli og sömuleiðis innflytjendur og blökkumenn. Nú er keppst við að finna skýringar á fylgi og sigri Trumps og þær eru víst allnokkrar. Ótal skýringar breyta samt engu um þá staðreynd að orð og æði Trumps er með þeim hætti að hann er fullkomlega óhæfur til að gegna valdamiklu embætti Bandaríkjaforseta. Þetta hefði kjósendum átt að vera ljóst.

Hillary Clinton situr eftir með sárt ennið. Í augum fjölmargra Bandaríkjamanna hefði kjör hennar í forsetaembætti verið ávísun á kyrrstöðu. Hillary Clinton hefur orðið fyrir afar ómaklegri gagnrýni og tilefnislausum en heiftarlegum árásum. Vissulega tilheyrir hún elítunni í Washington og það hefur sannarlega verið henni fótakefli að eiginmaður hennar var forseti. Stór hópur kjósenda er skiljanlega ekki hrifinn af því að forsetaembættið verði eign fjölskyldna hvort sem þær heita Bush eða Clinton. Vissulega má einnig gagnrýna ýmsar ákvarðanir í utanríkisráðherratíð hennar. Hinu verður ekki á móti mælt að Clinton er afar fær stjórnmálamaður, þolin og vinnusöm og talsmaður ýmissa góðra málefna. Það er fáránlegt að tala um hana eins og hún sé spillingin holdi klædd. Það er sárt að jafn hæfur einstaklingur og hún er hafi tapað fyrir orðljótum fauta sem hefur ekkert fram að færa annað en niðurrif og mannfjandsamleg viðhorf. Hann er líklegur til að eyðileggja góð verk sem unnin hafa verið í tíð Obama-stjórnarinnar, eins og í loftslagsmálum og heilbrigðismálum. Kjör hans boðar ekkert gott.

Donald Trump verður ekki forseti sem umheimurinn ber virðingu fyrir. Hann verður ekki forseti til að sætta þjóð sem nú er í sárum. Eins og Íslendingur sem hefur búið í áratugi í Bandaríkjunum sagði svo réttilega: „Hér búa tvær þjóðir og eiga svo til ekkert sameiginlegt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.