Hvað kom fyrir Samfylkinguna?

Mynd: Mynd Bragi Þór Jósefsson

Jafnaðarmenn hljóta að spyrja sig að því hvernig það gat gerst að flokkur sem í allnokkurn tíma hafði fjöldafylgi og skilgreindi sig sem turn í íslenskum stjórnmálum skuli hafa hrunið og orðið rústir einar. Samfylkingin er nú örflokkur, með þrjá þingmenn, þar af einn kjördæmakjörinn. Niðurlægingin er algjör.

Eftir skelfilega útreið stóð formaður flokksins, Oddný G. Harðardóttir, yfir rústum síns eigin flokks og sagðist ekki ætla að leita skýringa heldur horfa fram á veginn. Það voru furðuleg viðbrögð en sennilega var áfallið svo mikið að formaðurinn gat ekki hugsað skýrt eftir mesta áfall í sögu flokksins. Vitaskuld þarf flokkurinn að rýna í mistök sín og læra af þeim – en hugsanlega er það orðið of seint. Kjósendur eru á braut.

Trúverðugleiki Samfylkingarinnar er enginn. Mistökin eru svo mörg og margvísleg og sum þeirra nokkurra ára gömul. Því verður ekki neitað að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur glataði trausti stórs hóps kjósenda sem upplifðu sig svikna þegar þeirri ríkisstjórn tókst ekki að uppfylla hið margtuggna loforð sitt um skjaldborg fyrir heimilin. Það er alveg sama hversu vel Samfylkingunni finnst sér hafa tekist upp í þeirri ríkisstjórn, kjósendur gáfu henni falleinkunn.

Síðustu misserin hafa hörð innanflokksátök markað flokkinn. Í þingflokknum virtust menn hreinlega ekki þola hver annan og lengi vel virtist sem helsta baráttumál flokksins væri að losa sig við formanninn, Árna Pál Árnason. Atlaga að honum úr launsátri var ekki til að auka trú almennings á flokki, sem virtist iðnari við bræðravíg en því að koma sér upp sómasamlegri stefnu sem væri landi og þjóð til hagsbóta. Samflokksmenn Árna Páls sáu til þess að hann hrökklaðist frá og nýr formaður, Oddný G. Harðardóttir, var kosinn til að auka fylgi Samfylkingar. Eftir kjör sitt boðaði hún 130 daga áætlun sem átti að auka fylgið. Lítt fréttist síðan af þeirri áætlun en því meir af fjöldaflótta frá flokknum.

Kosningabarátta Samfylkingarinnar var ómarkviss og fálmkennd. Það er ekki nóg að mæta í Kringluna og Smáralind og gefa rauðar rósir. Það þarf að mæta til leiks með stefnumál sem skipta kjósendur máli. Það mistókst. Kjósendur á vinstri væng sáu enga ástæðu til að kjósa Samfylkinguna því þeir höfðu Vinstri græn og hina öflugu Katrínu Jakobsdóttur. Kjósendur á miðjunni hafa enga þörf fyrir Samfylkinguna sem þeim finnst of langt til vinstri og gátu hallað sér að Bjartri framtíð eða Pírötum. Hægri kratar áttu ekki í vandræðum og tóku Viðreisn fagnandi, flokki sem formaður Samfylkingar hafði sagt að enginn jafnaðarmaður myndi kjósa.

Eftir stendur samfylking þriggja þingmanna. Einn þeirra var formaður flokksins og hefur nú sagt af sér. Annað var ekki í boði. Formaðurinn gat ekki vikið sér undan ábyrgð á skelfilegri stöðu flokksins. Enginn veit hvað verður um Samfylkinguna, eða réttara sagt, það sem eftir er af henni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.