fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
FréttirLeiðari

Að kunna að tapa

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 4. október 2016 09:41

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það skiptir máli hvernig menn taka sigri. Viðbrögð Sigurðar Inga Jóhannssonar við sigri í formannskosningu í Framsóknarflokknum lýstu þroska. Hann bað salinn að klappa fyrir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sem menn gerðu fúslega, og bað fólk síðan að takast í hendur sem tákn um samstöðu. Sigurður Ingi kom þarna fram sem maður sátta – eins og hann hefur reyndar gert frá því hann varð forsætisráðherra. Hann er viðfelldinn maður og tiltölulega óumdeildur.

Það skiptir líka máli hvernig fólk tekur ósigri. Viðbrögð Sigurðar Inga hefði hann tapað kosningunni hefðu örugglega einkennst af auðmýkt og sátt. Hann hafði lýst því yfir og ítrekað lagt áherslu á að hann myndi starfa áfram af heilindum lyti hann í lægra haldi fyrir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

Sigmundur Davíð er annarrar gerðar en Sigurður Ingi. Hann talar ætíð afdráttarlaust, mjög afgerandi og ögrandi, og er ekki maður málamiðlana. Sannarlega býr hann yfir ýmsum góðum kostum, en hann á afar erfitt með að þola mótlæti og tekur yfirleitt gagnrýni sem persónulegri árás. Hann er gefinn fyrir að ræða um svik, fyrirsát og óvinaher. Viðbrögð hans við úrslitum formannskosningarinnar voru ekki stórmannleg og reyndar um margt undarleg. Flestum var ljóst að mjótt gæti orðið á mununum, en svo virðist sem Sigmundur Davíð og stuðningsmenn hans hafi verið of sigurvissir og ekki séð ástæðu til að koma sér upp varaáætlun færu úrslitin öðruvísi en þeir ætluðu.

Stjórnmálamaður sem strunsar út eftir að tapa formannskjöri er hvorki sjálfum sér né flokki sínum til sóma. Hann opinberar sig sem tapsára prímadonnu. Sigmundur Davíð var í einstakri stöðu. Hann hafði tækifæri til að fara upp á svið og halda ræðu þar sem hann viðurkenndi ósigur sinn og óskaði um leið keppinaut sínum til hamingju. Hann hafði tækifæri til að hvetja flokksmenn til að slíðra sverðin og sameinast fyrir kosningar. Hann hefði fengið standandi lófaklapp og sýnt sig sem mann sátta. Tilfinningarnar báru hins vegar Sigmund Davíð ofurliði og hann hvarf á braut og skildi eftir furðu lostna flokksmenn sína.

Það er ekki of seint fyrir Sigmund Davíð að stíga fram og hvetja hinar ólíku fylkingar Framsóknarmanna til sátta. Orð hans hafa vægi innan flokksins og slík hvatning skiptir miklu máli. Taki Sigmundur Davíð hagsmuni flokksins fram yfir eigin hagsmuni mun hann vaxa að virðingu, bæði innan flokks og utan.

Framsóknarflokkurinn hefur skipt um forystu og fyrir vikið fengið mildari og frjálslyndari ásýnd og kann því að höfða til breiðari kjósendahóps en áður. Engan veginn er þó víst að það fylgi skili sér á þeim örfáu vikum sem eru til kosninga.
Það mun taka þó nokkurn tíma fyrir flokksmenn að græða sárin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pétur Einarsson látinn
Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi