Vinnuveitendur á röngum stað

Góðir vinnuveitendur vita hversu mikilvægt það er að traust ríki milli þeirra og starfsmanna. Þeir vakta ekki starfsmenn sína öllum stundum, fullir illra grunsemda um að þeir séu stöðugt að svíkjast um og koma sér undan því að vinna verk sín. Tortrygginn vinnuveitandi sem hefur allt á hornum sér er manneskja á röngum stað.

Vinnuveitandi sem er starfi sínu vaxinn gerir sér grein fyrir því að það kemur fyrir að starfsmenn hans þurfi að fara fyrr úr vinnu til að sækja barn úr leikskóla, verði að vera fjarri vinnu vegna veikinda barnanna eða vegna þess að frí er í leikskólanum. Á öllum vinnustöðum koma upp aðstæður eins og þessar og það er yfirleitt tekið mið af þeim, eins og svo sjálfsagt er að gera. En í þessum málum eins og öðrum kemur í ljós að það er ekki það sama að vera Jón og séra Jón.

Nýlega bárust fréttir af vinnuveitendum sem virðast horfa tortryggnisaugum til erlendra starfsmanna sinna. Þeir gruna erlenda starfsmenn sína um að ljúga til um veikindi barna sinna eða frí í leikskólum til að komast hjá því að vera í vinnunni. Þessir vinnuveitendur hafa haft samband við leikskólastjórnendur og krafist staðfestingu á því að skýring hinna erlendu starfsmanna sé rétt. Orð foreldranna nægja þeim ekki, og svo virðist að það sé vegna þess að þarna er um útlendinga að ræða.

Anna Margrét Ólafsdóttir, leikskólastjóri á Nóaborg, hefur sagst hafa fengið þó nokkur símtöl af þessu tagi og hefur rætt við aðra leikskólastjóra sem segja það sama. Anna Margrét á skilið þakkir fyrir að vekja athygli á þessu fordómafulla viðhorfi einhverra vinnuveitenda. Við skulum sannarlega vona að þessir vinnuveitendur séu ekki mjög margir, en of margir eru þeir samt. Það getur ekki talist í lagi að atvinnurekandi tortryggi starfsmann sinn vegna þess eins að hann fluttist til Íslands frá öðru landi.

Þetta viðhorf er hluti af hugsuninni við og þeir – Íslendingar og útlendingar. Nú er það svo að flestir Íslendingar eiga í ætt sinni einhvern sem kom til landsins sem útlendingur en varð svo hluti af þjóðinni. Ekki vildum við að þessum einstaklingum, kannski ömmu eða langafa, hefði verið mætt af tortryggni og flokkaðir sem annars flokks þegnar og efast um orð þeirra og gjörðir.

Við sjáum áberandi hneigð hér á landi til að tortryggja útlendinga, og alveg sérstaklega ef þeir koma frá framandi löndum, og fordómarnir grassera sem aldrei fyrr ef þeir aðhyllast önnur trúarbrögð en kristni. Slík framkoma við annað fólk er mannfjandsamleg og öllum sem hana iðka til háborinnar skammar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.