Ofríki Pírata

Rétt fyrir kosningar hafa Píratar boðað fulltrúa fjögurra stjórnmálaflokka til stjórnarmyndunarviðræðna um þau málefni sem flokknum eru hugleikin. Hér á landi hefur fram að þessu tíðkast að bíða eftir því að talið hafi verið upp úr kjörkössunum áður en þotið er í stjórnarmyndunarviðræður. Enda eðlilegt að ljóst sé hvaða flokkum þjóðin hefur veitt brautargengi og hverjum hún hefur hafnað. Pírötum finnst greinilega að sú aðferð að bíða eftir niðurstöðum kosninga sé bæði gamaldags og tafsöm.

Einhverjir Píratar virðast hafa áttað sig á því að þarna hafi flokkurinn farið fram af fullmiklu offorsi, þeir eru á flótta frá málinu og vilja kalla viðræðurnar eitthvað annað, eins og Smári McCarthy sem segir þær bara vera „fund um áherslur“ – og þar er vitanlega átt við áherslur Pírata sem ætlast er til að flokkarnir fjórir samþykki að fylgja.

Þótt enn sé ekki búið að kjósa og því engan veginn ljóst hvert raunverulegt fylgi Pírata sé þá vefst ekki fyrir Pírötum að afgreiða sig sem hið sterka og leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum. Í samræmi við það veita þeir útvöldum flokkum áheyrn. Ekki er annað hægt að segja en að þetta lýsi allmiklum gorgeir.

Ekki eru allir fulltrúar þeirra fjögurra flokka, sem Píratar hafa veitt blessun sína, tilbúnir að hlýða kalli þeirra. Þeir vilja starfa á eigin forsendum en ekki samkvæmt vilja Pírata. Samfylkingin tók þó gleðistökk, enda hefur hún síðustu misseri verið alls óvön því að nokkur veiti henni athygli. Flokkur í dauðateygjum á sennilega ekki um annað að ræða en að kasta sér þakklátur í fang þeirra sem sýna honum blíðuhót og vilja jafnvel leiða hann aftur að kjötkötlunum – og það án skilyrða um árangur í kosningum. Verði útkoma Samfylkingar í kosningunum í samræmi við skoðanakannanir þá er það umhugsunarefni hvort flokkur sem er í frjálsu falli eigi erindi í ríkisstjórn.

Áætlun Pírata virðist ekki þaulhugsuð heldur sett fram í ákafa og tilfinningahita og byggist alfarið á forsendum Pírata. Það eru einkennileg vinnubrögð og nánast fáránleg að boða til blaðamannafundar og tilkynna um samstarf við aðra flokka að þeim forspurðum. Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, hefur sagt að þarna hafi verið um klækjastjórnmál að ræða. Hún er örugglega ekki ein um þá skoðun.

Segja má að útspil Pírata sé móðgun við þá fjóra flokka sem Píratar hafa handvalið. Píratar hafa lagt línuna og flokkunum fjórum er ætlað að segja amen eftir efninu. Burtséð frá því þá er algjörlega óraunhæft að þessir fjórir flokkar, undir forystu Pírata, komi sér saman um stjórnar- eða samstarfssáttmála á þeim fáu dögum sem eru til kosninga. Það er ótækt og lýsir virðingarleysi við kjósendur að afgreiða slíkt alvörumál í fljótræði.

Innan skamms mun þjóðin ganga til kosninga. Fylgi flokka er á mikilli hreyfingu og niðurstaðan liggur engan veginn ljós fyrir. Það er hrokafullt af Pírötum að taka sér vald til að mynda ríkisstjórn áður en úrslit kosninga liggja fyrir. Píratar virðast gefa sér að þjóðin fylki sér um þá. Ekki er víst að svo verði.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.