Maður sem hatar konur

Það hefur lengi verið ljóst að Donald Trump er ekki í húsum hæfur. Samt tók hann stefnuna á Hvíta húsið og nýtur hvatningar og stuðnings fjölmargra landa sinna sem telja að þar sé réttur maður á réttum stað. Í Hvíta húsið mun Trump ekki ná og því ber að fagna. En um leið sætir það endalausri furðu að maður af hans tagi skuli hafa náð því að verða raunverulegur valkostur í eitt valdamesta embætti í heimi.

Menn eins og Trump fella sig fyrr eða síðar með orðum sínum og gjörðum. Nú er svo komið að áhrifamenn í Repúblikanaflokknum sjá sér ekki fært að horfa aðgerðarlausir á, eins og margir þeirra gerðu of lengi. Þeir hafa stigið fram og fordæmt Trump og lýst því yfir að þeir muni ekki kjósa hann. Ástæðan er birting á gömlum hljóðupptökum þar sem Trump talar fjálglega um sjálfan sig sem óbilandi kvennamann sem klípi í og káfi á konum þegar honum sýnist svo. Hinir háttsettu flokksfélagar Trumps hefðu átt að bindast samtökum mun fyrr. Það er ekki eins og upptakan sýni Trump í nýju ljósi. Ekkert sem þar er sagt ætti að koma á óvart. Þetta er dæmigert karlagrobb að hætti Trumps. Hann er viðskiptajöfur sem lengi hefur haft vont orð á sér og viðhorf hans til kvenna hafa ætíð verið forkastanleg. Þeir sem studdu Trump áttu að vita að hverju þeir gengu og það er einkennilegt ef þeir eru fyrst nú þrumu lostnir og hneykslaðir.

Trump hefur í kosningabaráttunni verið óspar á að tala niður til kvenna og verður þá tíðrætt um útlit þeirra, enda á þeirri skoðun að konur eigi að vera upp á punt. Hann lítur á múslima sem gangandi tímasprengjur og er í nöp við innflytjendur sem hann óttast að fylli landið. Hann er fordómafullur, grófur í tali og rausar endalaust og samhengislaust um eigið ágæti. Mannasiði kann hann enga. Það er sitthvað að þegar maður af þessu tagi eygir möguleika á því að verða forseti Bandaríkjanna og er klappaður upp af stórum hópi fólks sem deilir skoðunum með honum. Í þeim hópi eru konur, sem vonandi fara nú að líta goð sitt öðrum augum en áður. Engin kona með sjálfsvirðingu ætti að styðja Donald Trump.

Menn eins og Trump ýta undir ótta fólks og skapa hjá því öryggisleysi. Þeir ítreka stöðugt að varast eigi útlendinga sem komi frá fjarlægum svæðum eða játi aðra trú en kristni. Þessir menn líta konur hornauga, og dæma þær eingöngu út frá útliti og telja þær alls ekki gjaldgengar hafi þær náð ákveðnum aldri. Þeir hafa fyrst og fremst trú á sjálfum sér og lofsama stöðugt eigið ágæti.

Heimurinn er vissulega hættulegur staður og verður enn hættulegri þegar maður eins og Donald Trump mætir á sviðið og básúnar mannfjandsamlegar skoðanir sínar við gríðarlegan fögnuð stuðningsmanna sinna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.