fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
FréttirLeiðari

Eitthvað er rotið í Danaveldi

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 29. janúar 2016 13:38

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Danskir stjórnmálamenn eru margir hverjir sárir og svekktir vegna frétta og skopmynda þar sem þeim er líkt við nasista fyrir að hafa komið á lögum sem heimila yfirvöldum að hirða af flóttamönnum verðmæti sem eru umfram 10.000 danskar krónur.

Dönsku stjórnmálamennirnir geta engu um það breytt að þessi lög framkalla ósjálfrátt í huga heimsbyggðarinnar mynd af nasistum sem hrifsuðu til sín eigur gyðinga. Stjórnmálamennirnir sem hér um ræðir segjast ekki ætla að gera upptæka muni sem hafa tilfinningalegt gildi, til dæmis giftingarhringi, og ekki hyggjast þeir setja flóttamenn í útrýmingarbúðir. Sjálfsagt ætlast dönsk stjórnvöld til að umheimurinn virði þetta við þau.

Flóttamennirnir sem hafa streymt til Evrópu lögðu ekki upp í langa skemmtiferð með fullar hendur fjár. Einhverjir kunna þó að vera með verðmæti sem nú má hirða af þeim, jafnvel ættargripi. Hver á að meta tilfinningagildi þessara hluta? Og telst það glæpur ef flóttamaður er með Rolex-úr sem hann gat keypt þegar allt lék í lyndi á hans heimaslóðum?

Þetta fólk yfirgaf heimili sín í von um að fá athvarf meðal Evrópuþjóða sem duglegar hafa verið að tala máli mannréttinda. En fjálglegt tal er eitt, gjörðir eru annað, eins og fjöldi flóttamanna hefur nú komist að.

Danska frumvarpið virðist beinlínis hafa verið sett fram til að letja flóttamenn til að koma til landsins. Auk þess sem taka má verðmæti frá flóttamönnum fela lögin í sér að afar erfitt er fyrir fjölskyldur flóttamanna að sameinast í Danmörku. Það eitt og sér ætti að verða til að flóttamenn hiki við að leita til landsins. Danska þinginu hefur þannig tekist það ætlunarverk sitt að gera Danmörku lítt fýsilegan kost fyrir flóttamenn.

Eitthvað er rotið í Danaveldi. Þarna er um að ræða ógeðfellda gjörð sem misbýður fjölmörgum enda er hún gjörsamlega úr takti við hugmyndir um mannúð og mildi sem Norðurlandaþjóðirnar hafa svo oft talað fyrir. Það vekur ósegjanlega furðu að danska þingið skyldi samþykkja þessi lög með miklum meirihluta atkvæða og að fulltrúar jafnaðarmanna hafi séð ástæðu til að samþykkja frumvarpið. Oft bregðast krosstré … Danir hafa orðið sér verulega til skammar og danskir stjórnmálamenn ættu að taka hina hörðu gagnrýni alvarlega og blygðast sín í stað þess að barma sér opinberlega, eins og þeir hafa gert fyrir framan sjónvarpsmyndavélar.

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra segist hafa verulegar áhyggjur vegna þessarar stöðu í Danaríki. Íslenskir stjórnmálamenn hafa afar oft „verulegar áhyggjur“ sem hverfa svo yfirleitt undraskjótt. Ríkisstjórn Íslands á að sjá sóma sinn í því að koma á framfæri kröftugum mótmælum til danskra stjórnvalda. Nema svo vilji til að íslenska ríkisstjórnin sé hjartanlega sammála þessum áherslum dönsku ríkisstjórnarinnar. Þá er illa komið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“