fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
FréttirLeiðari

Þjóðin sér í gegnum bullið

Ritstjórn DV
Föstudaginn 15. janúar 2016 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fátt getur reynst stjórnmálamönnum erfiðara en að gangast við mistökum, heldur kjósa þeir oftar en ekki fremur að berja hausnum við stein og afneita vel þekktum staðreyndum. Við höfum orðið vitni að þessu í vikunni. Slitabú gamla Landsbankans tilkynnti þá að búið að væri að inna af hendi síðustu hlutagreiðsluna til forgangskröfuhafa. Þessi ánægjulega niðurstaða, sem hefur legið fyrir í nokkurn tíma, markar tímamót. Kröfur vegna Icesave-reikninganna hafa núna verið greiddar upp að fullu með eignum úr slitabúinu án þess að króna hafi runnið úr ríkissjóði Íslands.

Ætla mætti að öllum væri núna ljós sá gríðarlegi efnahagslegi ávinningur sem fólst í því að það tókst að koma í veg fyrir þann einbeitta ásetning stjórnvalda að íslenska ríkið gengist í ábyrgð fyrir erlendum skuldum fallins einkabanka að fjárhæð mörg hundruð milljarða. Svo virðist hins vegar ekki vera. Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, sá ástæðu til að skrifa grein um lyktir Icesave-málsins í vikunni. Þar heldur hann því fram að það leiki á því vafi hvort dómstólaleiðin hafi í reynd skilað hagstæðari niðurstöðu fyrir þjóðarbúið en ef farin hefði verið sú leið að samþykkja þann Icesave-samning – Svavarssamkomulagið svonefnda – sem gerður var við Breta og Hollendinga sumarið 2009. Óleyst Icesave-deila hafi, að hans mati, tafið efnahagslega endurreisn Íslands og valdið því að samdráttur í landsframleiðslu á árunum 2009 og 2010 varð meiri en ella. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur tekið undir þennan dæmalausa málflutning Steingríms. Þeir hafa rangt fyrir sér.

Förum yfir nokkrar staðreyndir. Þrátt fyrir að hagvöxtur hefði hafist einhverjum mánuðum fyrr með því að gangast undir hina glórulausu Svavarssamninga – afstaða sem raunar má stórlega efast um – þá skiptir slíkt engu máli þegar höfð er í huga sú alvarlega gjaldeyrisstaða sem ríkið hefði verið sett í. Samkvæmt samkomulaginu hefði íslenska ríkið borið ábyrgð á höfuðstólnum og afborganir og vaxtagreiðslur til Breta og Hollendinga áttu að greiðast á tímabilinu 2016 til 2023. Þótt eignir gamla Landsbankans hefðu dugað fyrir öllum höfuðstól lánsins, sem ekki var útlit fyrir á þeim tíma, þá væri áfallinn vaxtakostnaður ríkissjóðs vegna samninganna engu að síður í dag orðinn ríflega 200 milljarðar í erlendum gjaldeyri.

Þegar þáverandi stjórnvöld – og Seðlabanki Íslands – færðu fráleit rök fyrir því að þjóðin ætti að taka á sig ábyrgð vegna Icesave-samninganna árið 2009 var meðal annars vísað til þess að tölur um hreina erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins, sem mikil óvissa ríkti um á þeim tíma, sýndu þá að hún væri sögulega lág. Seðlabankinn sagði þannig í júlí sama ár að þjóðarbúið væri „fyllilega fært um að standa undir Icesave-samningunum. […] Menn ættu að hafa gott borð fyrir báru í gjaldeyrisvarasjóði allt tímabilið“. Þær tölur reyndust skömmu síðar vera rangar og erlenda skuldastaðan mun dekkri en áður var talið. Fyrirsjáanlegur viðskiptaafgangur myndi því ekki duga til að fjármagna samningsbundnar afborganir erlendra lána einkaaðila – og því síður að losa út krónueignir erlendra kröfuhafa slitabúanna. Þessi staða hefði augljóslega versnað til muna ef ríkið hefði verið sett í ábyrgð fyrir Icesave-kröfum gamla Landsbankans.

Ein stærstu einstöku mistökin sem gerð voru í kjölfar bankahrunsins voru hvernig staðið var að endurreisn Landsbankans. Yfir 350 milljarða gjaldeyrisskuld var sett á herðar bankans sem átti að greiðast upp á árunum 2009 til 2014. Bratt endurgreiðsluferli skuldanna, á sama tíma og alþjóðlegir fjármagnsmarkaðir voru lokaðir íslenskum bönkum, var því eitt helsta vandamálið í tengslum við losun hafta. Í krafti fjármagnshafta stöðvuðu stjórnvöld hins vegar frekari greiðslur til forgangskröfuhafa og tókst þannig að knýja fram nauðsynlegar skilmálabreytingar á skuldabréfunum sem samrýmdust gjaldeyrisjöfnuði þjóðarbúsins. Fullyrða má að slíkar aðstæður hefðu ekki verið fyrir hendi ef fallist hefði verið á Icesave-samkomulagið og ríkisábyrgð á skuldum Landsbankans. Að koma fram með áætlun um losun hafta, með Breta og Hollendinga sem kröfuhafa á íslenska ríkið í erlendum gjaldeyri, hefði gert það verkefni mun erfiðara.

Þeir Icesave-samningar sem stjórnvöld reyndu að knýja í gegn sumarið 2009, undir forystu fyrrverandi stjórnmálamanns sem var fullkomlega vanhæfur til að takast á við verkefnið, voru atlaga að efnahagslegu sjálfstæði Íslands. Það verður því að teljast með ólíkindum að þeir sem stóðu að baki þessum áformum skuli nú stíga fram og reyna að telja fólki trú um að þeir samningar hafi eftir allt saman ekki verið það slæmir. Þjóðin sér hins vegar í gegnum bullið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu