Þegar lausnin verður vandamál

Mynd: Mynd Heiða Helgadóttir

Tónlistarhúsið Harpa átti að leysa ansi mörg vandamál. Sinfóníuhljómsveit Íslands var orðin langþreytt á því að spila klassíska tóna í bíósal. Frægir popparar vildu stærri og fínni tónleikasali en skemmtistaði og bari í miðbænum. Og Íslenska óperan glímdi við rekstur sem gekk ekki upp í hinu sögufræga Gamla bíói.

Harpa gat leyst vandamál allra á einu bretti. Kostnaðurinn fór reyndar úr böndunum – hækkaði úr tólf milljörðum í 28 milljarða. Og framlög ríkis og borgar dugðu skammt fyrir rekstrinum og þurfti fljótt að hækka. Strax kviknuðu viðvörunarljós.

Íslenska óperan komst svo að því, þegar Töfraflautan var sett upp fyrir tveimur árum, að húsið hafði alls ekki verið hannað með þarfir óperuflutnings í huga. Hliðardyr á sviði svo lágar að ekki er hægt að ýta sviðsmyndum inn og út af sviðinu; ekkert geymslupláss er til staðar og búningahönnuðir þurftu að geyma verðmæta búninga í bílageymslunni.

Stefán Baldursson óperustjóri var í viðtali í DV á mánudaginn. Þar fór hann yfir stöðu Íslensku óperunnar í dag. Hann lýsti því hve vonlaust rekstrardæmi Gamla bíó hafði verið. Þrátt fyrir framlög ríkisins og fullan sal komust ekki nægilega margir áhorfendur fyrir til að sýningar gætu borið sig. Þess vegna var krafan um flutning alltaf svo hávær.

Þrátt fyrir flutninginn í Hörpu, þar sem 1200 manns komast fyrir í salnum, er vandamál Íslensku óperunnar enn óleyst. Nú þarf að takmarka sýningar, þrátt fyrir að uppselt sé á allar sýningar. Útskýring Stefáns var sú að stór hluti framlags ríkisins til Íslensku óperunnar færi nú í húsaleigu.

„Svo er húsaleigan vandamál … í dag fer verulegur hluti af ríkisstyrknum í húsaleigu. Það var ekki raunin í Gamla bíói,“ segir Stefán.

Tilvistarkreppa Íslensku óperunnar heldur því áfram. Að minnsta kosti hentaði Gamla bíó vel til leiksýninga – sem sést bersýnilega á því að Borgarleikhúsið hefur nú leigt húsið fyrir leiksýningar í vetur. Erfiðleikarnir eru ærnir í Hörpu og fjárhagsvandræði Íslensku óperunnar eru þau sömu því stór hluti ríkisstyrksins fer í að borga leigu.

Það er orðið tímabært að gera úttekt á því hvað fór úrskeiðis í hinu mikla Hörpu ævintýri. Kostnaðurinn er löngu orðinn stjórnlaus, fréttir hafa birst af ofurlaunum þeirra sem sátu í hinum ýmsu ráðum og nefndum tengdum Hörpu og lamandi áhrif Hörpu á aðra menningarstarfsemi í borginni eru smám saman að koma í ljós.

Kannski er þetta risavaxna hús líka skýrasta dæmið um hvað gerist þegar finna á eina laus á öllum vandamálum. Stundum verður lausnin sjálf að stærra vandamáli – líkt og dæmið af Íslensku óperunni sýnir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.