Lögbrot ráðherra

Mynd: © Bragi Þór Jósefsson © Bragi Þór Jósefsson

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra er uppvís að því að hafa brotið jafnréttislög þegar hann skipaði karl í embætti sýslumanns á Húsavík en sniðgekk konu. Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að Halla Bergþóra Björnsdóttir hafi í fjölmörgum atriðum verið hæfari til að gegna stöðunni. Svavar Pálsson, sem var ráðherranum þóknanlegur, þótti einungis standa Höllu framar í einum þætti af átta sem metnir voru. Ráðherrann vísaði í vörn sinni meðal annars til persónulegra kosta Svavars í rökstuðningi fyrir ráðningunni.

Það sorglega við þetta mál er að Ögmundur ráðherra virðist ekki iðrast að marki né ætla að axla sína ábyrgð með þeim eðlilega hætti að segja af sér. Ögmundur fylgir þarna þeirri spillingarlínu sem forverar hans hafa fylgt. Þegar þeir hafa verið dæmdir fyrir afglöp eða frændhygli hafa þeir yppt öxlum og látið sem ekkert væri. Ríkissjóður hefur þurft að leggja út stórfé fyrir sektum og málskostnaði en hinir dæmdu og spilltu sitja áfram. Viðbrögð Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra, í svipuðu máli voru þau að jafnréttislögin væru barn síns tíma og niðurstaða um brot hans því léttvæg. Þetta eru sömu viðbrögð og annarra ráðherra sem hafa verið sekir fundnir.

Eitt helsta meinið í íslensku samfélagi er að menn taka ekki ábyrgð. „Shit happens“ eru hefðbundin viðbrögð. Þannig láta lögbrjótar af öllu tagi eins og það séu mistök hvernig þeir gengu fram. Og það þurfi ekki frekari umræðu við. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra var á dögunum dæmd fyrir brot á jafnréttislögum. Hennar viðbrögð voru ekki ólík því sem gerðist hjá Birni Bjarnasyni. Hún lét þó í ljósi iðrun með skilyrtri afsökunarbeiðni.

Ögmundur iðrast einskis. Og hann situr sem fastast eins og allir hinir ráðherrarnir sem brutu lög. Þetta er sérstaklega sorglegt í því ljósi að innanríkisráðherra er yfirlýstur baráttumaður fyrir betra siðferði í samfélaginu. Hann er einn þeirra sem hefur verið óþreytandi að benda á þær meinsemdir sem urðu Íslandi að falli. Ef Ögmundur hefði sýnt þann manndóm að segja af sér ráðherraembætti hefði hann verið sjálfum sér samkvæmur. Hann hefði getað sett ný viðmið hvað varðar ábyrgð manna í æðstu stöðum. Leið hans í ráðherrastól á næsta kjörtímabili hefði verið opin. Hann hefði stækkað af ákvörðun sinni. En hann hefur kosið að stinga höfðinu í sandinn og bregðast við eins og hinir spilltu. Lögin má brjóta, af því að þau eru barn síns tíma, er viðhorfið.

Þetta er ömurlegt viðhorf Ögmundur. Þú hefur brugðist þjóðinni og sjálfum þér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.