Áróðurstækni Davíðs

Mynd: Birtingur ehf / Sigtryggur Ari

Vandi íslenskrar umræðuhefðar verður varla betur greindur en með orðum Davíðs Oddssonar um sjálfan sig í bókinni Í hlutverki leiðtogans, eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur. „Ég gerði öll mál tortryggileg og fylgdi þeirri reglu veiðimannsins að maður má ekki einungis kasta flugu sem manni finnst falleg því að maður veit aldrei hvaða flugu laxinn tekur,“ sagði Davíð og játaði síðan: „Ég tók því upp öll mál, jafnvel þó að ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim, og hjólaði í þau...“

Þannig lýsti Davíð störfum sínum í stjórnarandstöðu í borgarstjórn Reykjavíkur. Orð hans gefa einstaka innsýn inn í áróðurstækni, sem eimir enn sterklega af í stjórnmálum dagsins í dag. Til grundvallar er viðhorfið að almenningur sé eins og laxar og starf stjórnmálamannsins sé að láta fólk bíta á agn. Þar með verður það mikilvægara í hlutverki stjórnmálamanns að koma höggi á andstæðinga sína og upphefja sjálfan sig, en að breyta rétt og heiðarlega. Þetta eru eins konar iðnaðarstjórnmál.

Áróðursaðferðum Davíðs og fylgismanna hans mætti skipta í fjóra flokka:

1. Endurtekningin. Að lýsa einhverjum eða einhverju ítrekað í ákveðnu ljósi, þar til laxinn bítur á. „Verklausa ríkisstjórnin,“ er til dæmis ítrekað skrifað í Morgunblaðið þessa mánuðina. Oft er endurtekningin liður í stimpluninni. 2. Stimplunin gengur út á að tengja gagnrýnendur annarlegum hagsmunum. Oft er gagnrýnandi sviptur frjálsum vilja eða eigin skynsemi í stimpluninni, til dæmis sagður vera handbendi Baugs.

3. Alhæfingin er þessu tengd. Hún gengur gjarnan út á að allt sem sá umræddi geri sé slæmt. Aðferð til þess er til dæmis að „taka upp öll mál“ og „gera þau tortryggileg“. Alhæfingin felur gjarnan í sér endurtekningu.

4. Eignunin gengur út á að allir aðrir séu jafnóheiðarlegir og þeir sem beita þessum aðferðum sjálfir. Þeir gera ráð fyrir því að aðrir hugsi eins og þeir og séu á bandi stjórnmálaflokks eða stjórnmálaleiðtoga. Þegar þeir eru spurðir hvers vegna þeir saki aðra um að vera handbendi einhvers málstaðar, þegar þeir eru það sjálfir samkvæmt sömu rökum, svara þeir því til að þeir séu heiðarlegir vegna þess að þeir viðurkenna tengsl sín, en aðrir ekki. Líkt og Davíð svaraði sjálfur í viðtali þegar hann hafði verið ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins eftir að hafa gagnrýnt meint tengsl Fréttablaðsins við Samfylkinguna í áraraðir. „Mér finnst miklu heiðarlegra að vera með flokksskírteinið heldur en vera í hjarta sínu hlynntur flokki...“ Þannig varð hinn óheiðarlegi heiðarlegur en sá heiðarlegi óheiðarlegur í heimsmynd Davíðs.

Segja má að stjórnmálamenn og fylgismenn þeirra geti verið „heilir“ í þessari afstöðu sinni, á þann hátt að þeir trúa því að svona eigi stjórnmálin að virka, því þau geti ekki virkað öðruvísi. Í því birtist einhvers konar nauðhyggju- og tómhyggjuviðhorf gagnvart lýðræðinu, að sá sem beiti slíkum aðferðum muni standa uppi sem sigurvegarinn – landa löxunum.

Það er hins vegar í hagsmunum almennings að sjá í gegnum og uppræta umræðuhefð sem felur í sér að stjórnmálamenn beiti óheiðarlegum aðferðum til að upphefja sjálfa sig.

--

Það var bloggarinn Teitur Atlason sem rifjaði upp ummæli Davíðs úr bók Ásdísar Höllu á bloggsíðu sinni á miðvikudag. Í ummælum við grein Teits glitti í áróðursbrögð sjálfstæðismanna. Fyrstur kom Hannes Hólmsteinn Gissurarson, sem gagnrýndi réttritun Teits og lagði lykkju á leið sína til að nota orðið „Baugspennar“ um „flesta“ blaðamenn DV, á grundvelli þess að þeir hefðu starfað fyrir fjölmiðlafyrirtæki sem eigendur Baugs áttu stóran hlut í. Teitur Atlason er ekki blaðamaður á DV, en Hannes fylgdi þarna rótgróinni umræðuhefð Sjálfstæðisflokks Davíðs og reyndi að gengisfella umræðu á grundvelli þess að hún tengdist Baugi á einhvern hátt.

Tryggvi Þór Herbertsson kom nýr inn á þing í kosningunum árið 2009, sem hluti af endurnýjun Alþingis. Hann lét þau ummæli falla við greinina að Teitur væri „rugludallur“ og að hann stundaði að míga í vatnsból og væri „brunnmígur“. Efnislega sagði hann ekki meira.

Þetta er ekki eina stimplunin í stjórnmálunum undanfarið. Lilja Mósesdóttir var hluti af endurnýjuninni á Alþingi sem knúin var í gegn í kosningunum 2009. Hún sakaði nýlega Jóhann Hauksson, blaðamann á DV, um að vera starfsmaður fjármálaráðuneytis Steingríms J. Sigfússonar, en með aðsetur á DV. Lilja beitir sömu aðferðum í umræðunni og Davíð Oddsson gerði með góðum árangri. Þetta er einföld og árangursrík taktík og þeir sem bíða ekki sannana gætu gert eins og laxinn; gleypt við þessu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.