Netkosningunni lauk kl. 13 í dag, þriðjudag! Vinningshafinn mun verða viðurkenndur á morgun í Iðnó, kl 17. Deila á Facebook


16 elskendur – Sýning ársins

Leiklist

Sviðslistahópurinn 16 elskendur stóð fyrir einni djörfustu leikhústilraun ársins undir heitinu Sýning ársins. Grunnur sýningarinnar var könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir hópinn þar sem hugur og afstaða Íslendinga til leiklistar var skoðuð. Íslensk leiklist hefur liðið fyrir það hve litlum tíma og orku er varið í rannsóknir á sviðslistum. Sýning ársins var bæði djörf leikhústilraun en einnig mikilvægt innlegg í fræðimennsku og skráningu á íslenskri leiklist.
Smelltu til að kjósa:

Amma Lo-Fi

Kvikmyndir

Orri Jónsson, Kristín Björk Kristjánsdóttir, Ingibjörg Birgisdóttir Amma Lo-fi er portrett af Sigríði Níelsdóttur sem fór að taka upp og gefa út sína eigin tónlist á áttræðisaldri. Hún fer óhefðbundnar leiðir í tónsmíðum sínum og notar sem dæmi Casio-hljómborð í bland við ýmis eldhúsáhöld, leikföng og hljóð gæludýra. Myndin var að mestu skotin á súper 8 og 16 mm filmu og nær yfir sjö ára tímabil í lífi Sigríðar. Einstök heimildamynd þriggja tónlistarmanna um einstaka konu og listamann. Amma Lo-fi hefur verið sýnd víða um heim og hlotið frábærar móttökur.
Smelltu til að kjósa:

Andrea Maack

Hönnun

Ilmur Andreu Maack er þróaður í samvinnu við franskt ilmvatnsgerðarfólk út frá myndlistarverkum hennar. Á örfáum árum hefur Andreu og samstarfsfólki hennar tekist að byggja upp sannfærandi vörumerki þar sem hugað er að heildarumgjörð og framsetningu. Allir þættir framleiðslunnar eru afar vandaðir og unnið með hágæða hráefni. Vörumerkið er nú komið í alþjóðlega dreifingu og hefur tekist að komast inn í virtustu ilmvatnsverslanir Evrópu og víðar. Andreu Maack hefur tekist á áhugaverðan hátt nýta myndlistarbakgrunn sinn til að skapa vöru sem nýtur bæði virðingar og vekur áhuga í hinu alþjóðlega samhengi.
Smelltu til að kjósa:

Angeli Novi- Steinunn Guðlaugsdóttir og Ólafur Páll Sigurðsson

Myndlist

Angeli Novi er yfirskrift að samstarfi Steinunnar Gunnlaugsdóttur myndlistar­manns og Ólafs Páls Sigurðssonar sem meira hefur undanfarin ár unnið að kvikmyndagerð. Þau eru hins vegar bæði mjög virk í pólitísku starfi – eru það sem oft er kallað „aktívistar“. Með sýningu sinni í Nýlistasafninu í haust tókst þeim það sem engum öðrum á myndlistarsviðinu hefur tekist, að búa til verk sem á íhugulan hátt taka á því efnahagslega og pólitíska hruni sem hér varð árið 2008. Sýningin var beitt og að mörgu leyti erfið – eins og góð pólitísk myndlist hlýtur alltaf að vera – en hvergi var heldur gefið eftir þegar kom að fagurfræðilegri hugsun eða táknrænni úrvinnslu verkanna.
Smelltu til að kjósa:

Appelsínur frá Abkasíu, Jón Ólafsson

Fræði

Höfundur segir söguna um Veru Hertzsch og dóttur hennar, afdrif þeirra og örlög í sovéska gúlaginu. Jón Ólafsson heimspekingur fer nákvæmar í sögu hennar en áður hefur verið gert, rekur hana eftir vandfundnum heimildum og minningum kvenna sem sátu í sömu fangabúðum og mægðurnar en lifðu af. Jón þekkir og kynni Íslendinga af Sovétríkjum Stalíns gjörla af fyrri skrifum sínum og ekki síður uppgjörið við þau kynni en þar er meðal annars að finna ástæður þess að Vera Hertzsch varð þjóðþekkt á Íslandi löngu eftir að hún hvarf í gúlagið. Sérlega áhugaverð mannkynssaga, Sovétssaga, Íslandssaga og einstaklingssaga í einni og sömu bókinni.
Smelltu til að kjósa:

Ásgeir Trausti

Tónlist

Ásgeir Trausti er ungur tónlistarmaður sem kom fyrst fram á sjónarsviðið í sjónvarpsþættinum Hljómskálanum vorið 2012. Þar söng hann lagið Sumargestur sem fangaði vorstemninguna og um leið huga þjóðarinnar. Ásgeir Trausti fylgdi vinsældum þess lags eftir með smáskífunni Leyndarmál sem náði gífurlegri hylli og kom honum endanlega á kortið sem einum efnilegasta tónlistarmanni landsins. Ásgeir Trausti lærði klassískan gítarleik og tónlistin hefur lengi leikið stórt hlutverk í hans lífi. En það var ekki fyrr en hann bankaði upp á hjá Guðmundi Kristni Jónssyni (Kidda Hjálmi), upptökustjóra í Hljóðrita, að hjólin fóru virkilega að snúast. Hljóðprufur sem hann hafði í sínum fórum lofuðu svo góðu að ráðist var í upptökur undir eins. Sú vinna hefur nú skilað sér í fyrstu breiðskífu Ásgeirs Trausta, Dýrð í dauðaþögn. Tónlistinni má lýsa sem töfrandi blöndu af þjóðlagapoppi og raftónlist þar sem fallegar laglínur, gítarplokk og há og falleg rödd Ásgeirs gegna lykilhlutverki.
Smelltu til að kjósa:

Ást í meinum, Rúnar Helgi Vignisson

Bókmenntir

Ást í meinum geymir fimmtán sögur eftir Rúnar Helga Vignisson, sem er einn snjallasti sagnahöfundur landsins. Mannleg samskipti (eða skortur á þeim) eru hinn rauði þráður í sögum Rúnars Helga, og hann á ótrúlega létt með að draga upp í örfáum orðum persónur sem spretta ljóslifandi upp af síðunum. Þær persónur eru iðulega staddar í einhvers konar öngstræti eða ógöngum, þurfa að takast á við ást og angist, fantasíur og fóbíur, efasemdir og eftirsjá. Rúnar Helgi skrifar einstaklega fallegan stíl, sem iðulega brestur í svellandi húmor, en stílgaldurinn liggur ekki síður í hinu ósagða – því sem lesandinn bætir við þessar eftirminnilegu sögur.
Smelltu til að kjósa:

ð ævisaga

Hönnun

Grafísku hönnuðirnir Anton Kaldal Ágústsson, Gunnar Vilhjálmsson og Steinar Ingi Farestveit rannsökuðu um árabil hver um sig ákveðin tímabil í þróunarsögu bókstafsins ð með tilliti til nútíma leturhönnunar. Þessar rannsóknir liggja til grundvallar einni óvæntustu bók síðasta árs, ævisögunnar um ð, sem sagnfræðingurinn Stefán Pálsson ritaði og tókst að gera að áhugaverðri og spennandi lesningu og Crymogea gaf út. Öll umgjörð og framsetning bókarinnar er til fyrirmyndar, þar sem vönduð vinnubrögð og næmni hönnuðanna skilar sér. Bókin er sett fram á aðgengilegan og áhugaverðan hátt og höfðar þannig bæði til almennings og fagfólks og mun eflaust verða notuð sem námsgagn í framtíðinni. Ævisaga ð-sins komst öllum að óvörum á metsölulista fyrir jólin, opnaði umræðu og jók skilning almennings á leturgerð.
Smelltu til að kjósa:

Egill Heiðar Anton Pálsson

Leiklist

Egill Heiðar hefur leikstýrt og sett upp fjölda sýninga í Danmörku og Þýskalandi. Í haust sneri hann heim og setti upp leikritið Leigumorðingjann hjá Leikfélagi Akureyrar. Sú sýning var framsækin og full af húmor og sýndi allar sterkustu hliðar Egils sem leikstjóra. Egill Heiðar hélt svo til höfuðborgarinnar og leikstýrði í Nemandaleikhúsinu eftirminnilegri og athyglisverðri leiksýningu sem hann byggði á tveimur verka sænska leikskáldsins Augusts Strindberg, Fröken Júlíu og Leikið að eldi.
Smelltu til að kjósa:

Finnur Arnar Arnarson

Leiklist

Finnur Arnar Arnarson er tilnefndur fyrir sviðsmyndir sínar í leikritinu Jónsmessunótt eftir Hávar Sigurjónsson og Fyrirheitna landinu eftir Jez Buttersworth í leikstjórn Guðjóns Pedersen. Báðar þessar sviðsmyndir sína styrkleika Finns Arnars sem leikmyndahöfundar. Hann hefur einstakt næmi fyrir hugmyndaheimi þeirra leikverka sem hann vinnur við og er fundvís á frumlegar lausnir. Áðurnefndar leikmyndir Finns Arnar bera þessu órækt vitni í sjónrænni útfærslu sinni, ekki síst leikmyndin í Jónsmessunótt.
Smelltu til að kjósa:

Framestore

Kvikmyndir

Framestore hefur byggt upp sérfræðiþekkingu í tölvubrellum, tölvukvikun og öðrum framkvæmdum sem tengjast vinnslu kvikmynda. Fyrirtækið hefur byggt upp sérfræðigrunn hér á landi og víðar, hlúð að hugviti, ráðist í nýja tækni, skapað tækifæri til frekari kvikmyndaframleiðslu og vakið á henni athygli á Íslandi sem og utan landsteinanna.
Smelltu til að kjósa:

Gálgaklettur - Ólafur Gíslason

Myndlist

Gálgaklettur var umfangsmikil sýning í Vestursal Kjarvalsstaða þar sem Ólafur Gíslason dró saman í eina heild heimspekilegar hugmyndir sínar út frá starfi Jóhannesar Kjarval og ýmissa annarra íslenskra listamanna. Kjarval þekkja allir en færri vissu kannski að að hann fór aftur og aftur á sama stað, í Álftaneshrauni, þar sem hann setti upp trönur sínar og málaði sama klettinn – Gálgaklett – aftur og aftur, ár eftir ár. Sumir hafa kannski talið þetta einhvers konar þráhyggju en á sýningunni og í fyrirlestrum henni tengdri sýndi Ólafur fram á það hvernig einmitt þessi endurtekning – þessi löngu átök við sama efni – geta verið uppspretta nýsköpunar.
Smelltu til að kjósa:

Halldóra Geirharðsdóttir

Leiklist

Halldóra Geirharðsdóttir er hæfileikarík og fjölhæf leikkona sem ræður við mörg stílbrigði leiklistar, jafnt skapgerðarhlutverk sem gaman- og trúðsleik. Hún sýndi stjörnuleik í Beðið eftir Godot í sýningu leikhópsins Pörupilta í Borgarleikhúsinu á s.l. vori og stal senunni í hlutverki bakveikrar nágrannakonu í Gullregni Ragnars Bragasonar. Hún hefur um nokkurt skeið leikið í fastri jólasýningu Borgarleikhússins Jesú litla og nú síðast heimsótti hún aftur á leiksviðið í Ormstungu ásamt Benedikt Erlingssyni. Öll þessi hlutverk sýna þá miklu breidd og næmi sem Halldóra býr yfir sem leikkona og listamaður.
Smelltu til að kjósa:

Heba Þórisdóttir

Kvikmyndir

Íslenski förðunarmeistarinn Heba Þórisdóttir hefur búið og starfað í Los Angeles um áraraðir. Hún er tilnefnd fyrir umsjón með förðun í Óskarsverðlaunakvikmyndinni Django Unchained eftir Quentin Tarantino. Í gegnum árin hefur hún unnið mikið með Tarantino og má þar nefna bæði þríleikinn Kill Bill og Inglorious Basterds. Auk þess ber að nefna The Avengers í leikstjórn Joss Whedon þar sem hún sá um förðun Scarlett Johansson. Einnig gamanmyndina Bridesmaids og The Curious Case of Benjamin þar sem hún hafði umsjón með förðunardeild. Ferillinn er langur og Heba er að sögn samstarfsfólks einstakur fagmaður, jarðbundin og drífandi. Gaman er að segja frá að þegar Heba var að stíga sín fyrstu skref í iðnaðinum í Los Angeles starfaði hún við förðun í sjónvarpsþáttunum Beverly Hills 90210 og hinum ógleymanlegu Twin Peaks eftir David Lynch.
Smelltu til að kjósa:

Hið íslenska „crew“

Kvikmyndir

Tiltekur alla þá sem vinna við kvikmyndagerð á Íslandi. Fólkið á gólfinu alveg til þeirra sem búa til aðstæður til að kvikmyndaverkefni skapist. Glöggt hefur komið í ljós hvort sem um ræðir auglýsingagerð, kvikmyndir eða þar sem tökulið kemur saman að þar hefur myndast gríðarlega sterkur grunnur. Þessi hópur vinnur oftar en ekki við erfiðar aðstæður og hefur fengið lof frá stærstu framleiðslufyrirtækjum heims sem hér hafa komið og notið liðsinnis íslensks tökuliðs. Hver hlekkur skiptir máli til að vélin geti virkað.
Smelltu til að kjósa:

HönnunarMars

Hönnun

Hönnunarmiðstöð hefur staðið fyrir HönnunarMars síðan árið 2009 og fer hátíðin því nú fram í fimmta skipti. HönnunarMars er bæði hátíð almennings og allra þeirra fagaðila sem heyra undir Hönnunarmiðstöð. Hún hefur eflst ár frá ári og svo sannarlega aukið skilning Íslendinga á því hvað hönnun er og hlutverki hennar í samfélaginu. Enda spannar hátíðin vítt svið, allt frá helstu hönnuðum þjóðarinnar til nýútskrifaðra hönnuða sem eru stíga sín fyrstu skref. Fjöldi fólks sækir viðburði hátíðarinnar sem er orðin mikilvægur þáttur í menningarlífi Reykjavíkurborgar. HönnunarMars hefur lagt áherslu á að efla tengsl sín við alþjóðlegt samhengi og má þá helst nefna fyrirlestradaginn DesignTalk og kaupstefnuna DesignMatch sem hafa eflt hátíðina enn frekar og þá sérstaklega fyrir fagfólk. Aðstandendur HönnunarMars hafa unnið af mikilli hugsjón og seiglu og hefur þeim tekist að skapa hátíð sem hefur reynst lyftistöng fyrir íslenska hönnun.
Smelltu til að kjósa:

Já elskan

Danslist

Tilnefnt er dansverkið Já elskan eftir Steinunni Ketilsdóttur. Verkið fjallar um fjölskyldur og ólíkar leiðir fjölskyldumeðlima til að takast á við lífið með öllu því sem að höndum ber. Já elskan er samtímadansverk sem er aðgengilegt án þess að vera einfalt. Í verkinu er ýmislegt gefið í skyn en ekkert er sagt berum orðum eða gert of áberandi. Mikil breidd var í sýningarhópnum bæði í aldri og bakgrunni, lífleg samvinna þeirra á milli skein í gegn og var styrkur í verkinu. Í þessu verki fetar Steinunn nýjar slóðir sem danshöfundur bæði í efnisvali og allri útfærslu og kemur fram með sterka höfundarrödd.
Smelltu til að kjósa:

Kaffihús í Lystigarði Akureyrar-Kollgáta

Arkitektúr

Kaffihúsið er í Lystigarði Akureyrar og hefur verið á skipulagi garðsins um árabil eða allt frá stofnun hans fyrir 80 árum. Húsið er reist á vegum Akureyrarbæjar og er gjöf hans í tilefni þessa afmælis. Það er vandasamt verk að koma fyrir nýbyggingu í þessu gróna umhverfi. Það hefur höfundum verksins þó tekist vel. Húsið stendur áreynslulaust upp við aðalstíginn sem liggur í gegnum garðinn, umkringt gömlum og nýjum gróðri, grasflötum og útilistaverkum. Byggingin nær góðu samtali við umhverfi sitt en galdurinn er m.a. fólginn í þeim góðu hlutföllum sem hún er byggð á, efnisnotkuninni og gegnsæinu. Sóttur er innblástur úr gömlu timburhúsunum sem standa fyrir í garðinum með sínum litlu bíslögum. Byggingarefni eru rammíslensk, sjónsteypa, báruál og lerkiviður. Það sem vekur óneitanlega mesta athygli eru opnir, glerjaðir gaflar sem brotnir eru upp með gluggapóstum sem minna á trjástofna. Þeir skapa heild og samspil milli þess manngerða og þess náttúrulega.
Smelltu til að kjósa:

Kolefnishringrásin, Sigurður Reynir Gíslason

Fræði

Hringrás kolefnis á jörðinni er flókin, og skaðvaldurinn í hringrásinni, koltvíoxíð, er ósýnilegur og lyktarlaus. Sigurður Reynir Gíslason jarðefnafræðingur segir frá hringrás þessari, eins og hún er nú og allt aftur að árdögum. Hringrás kolefnis hér á landi gerir hann og sérstök skil. Áhrifum mannsins á kolefnishringrásina er lýst og mögulegum viðbrögðum við henni. Bókin er nauðsynlegt innlegg í umræðu manna um hnattrænar umhverfisbreytingar af völdum sömu manna.
Smelltu til að kjósa:

Kunstschlager

Myndlist

Kunstschlager er samstarfsvettvangur ungra myndlistarmanna – listamannarekið gallerí við norðurenda Rauðarárstígsins í Reykjavík. Þar hefur nú um nokkurra missera skeið verið haldið úti öflugri sýningaröð, auk þess sem aðstandendur gallerísins hafa haft verk sín til sýnis og sölu. Þetta látlausa gallerí í hornrými þar sem áður var kvenfataverslun er nýjasta vitnið um þann kraft sem ungir myndlistamenn á Íslandi hafa lengi haft til að búa sér sjálfir til vettvang til að sýna list sína og miðla hugmyndum sínum til almennings. Sýningarstaðir sem þannig var stofnað til hafa verið leiðandi í íslenskri myndlist í meira en sjötíu ár: Listamannaskálinn, SÚM, Suðurgata 7, Nýlistasafnið, Kling og Bang. Kunstschlager gengur inn í þessa sögu.
Smelltu til að kjósa:

Leikskólinn Akrar-Einrúm og Arkiteó

Arkitektúr

Staðsetning Akra er mikil áskorun þar sem þétt íbúðahverfi, sem enn er í byggingu, umlykur leikskólann. Skipulag hverfisins ákveður grunnform skólans og leiksvæðisins. Stöllun útisvæðisins gefur mýkt og skapar gott flæði milli þess innra og þess ytra. Skærgulir gluggarnir í grárri sjónsteypunni eru óneitanlega áberandi en að öðru leyti er gluggasetningin nokkuð hefðbundin. Á móti er suðurhlið hússins mun opnari með stærri gluggaflötum. Yfir stórri verönd hangir jafn stórt þakskyggni sem gerir börnunum kleift að leika sér úti hvernig sem viðrar. Sjónsteypa er meginbyggingarefnið að utan en hún er fallega brotin upp með harðviði í yfirhengdu þakskyggni og verönd.
Smelltu til að kjósa:

Litlar og nettar

Danslist

Berglind Pétursdóttir og Ásrún Magnúsdóttir skipa tvíeykið Litlar og nettar sem tilnefnt er fyrir dansverkið Dúnn. Tilvist mannsins og sólarinnar er umfjöllunarefni verksins sem er einstaklega skemmtilegt og hnyttið stefnumót dans, myndlistar og tónlistar. Litlar og nettar eru nú í upphafi feril síns sem danshöfundar og dansarar en Dúnn er þeirra fyrsta verk eftir útskrift úr Listaháskóla Íslands. Höfundarnir eru einstaklega hugmyndaríkir og óhræddir við að nýta sér hvers konar miðla við útfærslu hugmynda og framsetningu. Þeir skapa furðulegan heim þar sem óútskýranlegar athafnir virðast hafa fullkominn tilgang. Í verkinu stíga Litlar og nettar á svið án allra málamiðlana og áhorfandinn hrífst með.
Smelltu til að kjósa:

Lovísa Ósk Gunnarsdóttir

Danslist

Lovísa er tilnefnd fyrir dans sinn í verkinu Já elskan eftir Steinunni Ketilsdóttur. Verkið fjallar um fjölskyldur og ólíkar leiðir fjölskyldumeðlima til að takast á við lífið með öllu því sem að höndum ber. Lovísa er sterkur og fjölhæfur danslistamaður með mikla tæknilega færni og breitt túlkunarsvið. Í verkinu kemur hún fram sem þroskaður listamaður sem hefur miklu að miðla. Meðal minnistæðra atvika í verkinu er atriðið þar sem hún gengur upp og niður sviðið og til skiptist setur upp og tekur niður hina félagslegu grímu. Í öðru atriði keppast aðrir flytjendur verksins við að halda uppi höfði Lovísu og þar með reisn fjölskyldunnar. Atriðið er átakamikið og sýnir Lovísa samdönsurum sínum í verkinu einstakt traust. Sama traust einkennir einlæga sviðstilveru Lovísu sem í opnu samtali við áhorfandann kemst inn fyrir skelina og snertir hjarta hans.
Smelltu til að kjósa:

Lunch Beat Reykjavík

Danslist

Lunch Beat er tilnefnt fyrir að skapa vettvang fyrir stefnumót almennings við dansinn á forsendum gleði og skemmtilegrar samveru. Lunch Beat er hádegisdiskó sem Choreography Reykjavík skipuleggur á mismunandi stöðum einu sinni til tvisvar í mánuði. Þar er boðið upp á dúndrandi tónlist, ódýran hádegismat og trylltan dans. Lunch Beat tekur dansinn af sínum háa stalli og gerir hann að aðgengilegu félagslegu afli í hversdags lífinu. Boðskapurinn er allir geta dansað hvar sem er, hvenær sem er, með hverjum sem er, í hvaða tilgangi sem er.
Smelltu til að kjósa:

Macbeth

Leiklist

Macbeth í uppsetningu ástralska leikstjórans Benedicts Andrews var leiklistarviðburður, óhefðbundinn og ögrandi í senn. Sýningunni mætti lýsa sem sviðsgjörningi sem byggði á styttri útgáfu á leikriti Shakespeares, stórkostleg veisla fyrir augað og önnur skynfæri. Öll ytri umgjörð og útlit sýningarinnar ásamt leik, lýsingu og tónlist skiluðu áhrifamikilli leiksýningu sem tvímælalaust reyndi meira á skynjun en skilning áhorfenda.
Smelltu til að kjósa:

Moses Hightower

Tónlist

Moses Hightower skipa þeir Andri Ólafsson sem syngur og spilar á bassa, Daníel Friðrik Böðvarsson gítarleikari, Magnús Trygvason Eliassen trymbill og Steingrímur Karl Teague sem syngur og spilar á hljómborð. 

Hljómsveitin var stofnuð árið 2007 og kom fyrst um sinn fram sem undirleikshljómsveit Dísu (Bryndísar Jakobsdóttur). Þegar fram liðu stundir heyrðist á öldum ljósvakans lagið Búum til börn, sem varð í júlí 2010 titillag fyrstu plötu sveitarinnar. Platan inniheldur 10 frumsamin lög með íslenskum textum, og var gefin út af hljómsveitinni sjálfri. Önnur plata sveitarinnar, Önnur Mósebók, kom út hjá Record Records í ágúst 2012. Tekin upp á „analog tape“ hjá Magnúsi Öder í Orgelsmiðjunni. En Magnús vann einnig með sveitinni að fyrstu plötunni. Báðar hafa þær fengið framúrskarandi góða dóma og selst vel. Sveitin hlaut fjölda tilnefninga til Íslensku tónlistarverðlaunanna m.a. fyrir hljómplötu ársins og lag ársins. Andri Ólafsson hlaut tilnefningu sem söngvari ársins. Sveitin hlaut verðlaunin sem lagahöfundar ársins og þeir Andri Ólafsson og Steingrímur Teague hlutu verðlaun sem textahöfundar ársins.
Smelltu til að kjósa:

Ostwald Helgason

Hönnun

Hönnunartvíeykið Ostwald Helgason er nú tilnefnt annað árið í röð. Enda hefur árið einkennst af ævintýralegum uppgangi hjá þeim Ingvari Helgasyni og Susanne Ostwald frá því að þau frumsýndu fatalínu sína á tískuvikunni í New York í byrjun árs 2012. Þau leita innblásturs víða og meðal þess sem hafði áhrif á nýjustu línu þeirra eru söngleikurinn Litla hryllingsbúðin og náttúruunnandinn og hönnuðurinn William Morris. Þeim tekst að flétta saman húmor og fágun á skapandi hátt í hönnun sinni og umfram allt að skapa klæðilegan fatnað fyrir alþjóðlegan markað. Ingvar og Susanne hafa ýmist verið kölluð óvæntar stjörnur eða nýliðar ársins af öllum virtustu tískumiðlunum.
Smelltu til að kjósa:

Ósjálfrátt, Auður Jónsdóttir

Bókmenntir

Ósjálfrátt er skáldsaga þar sem veruleiki og skáldskapur haldast í hendur. Hér er á ferðinni þroskasaga ungrar konu, Eyju, sem fer óhefðbundnar leiðir í lífinu og gerir upp við fjölskyldu sína og fortíð. Sagt er frá skáldkonu í mótun, þörfinni fyrir að skrifa og hvernig skáld verður til. Hér er á ferðinni einkar áhugaverð og óvenjuleg þroskasaga en hana skreyta og undirstrika margar litríkar persónur. Verkið er allt í senn gáskasaga og harmleikur, fjölskyldusaga og þroskasaga einstaklings. Frásagnarhátturinn er áreynslulaus og hlýr en með þungri undiröldu og endurspeglar ringulreiðina í huga aðalpersónunnar. Vel samið verk og einkar margbrotið.
Smelltu til að kjósa:

Óskar Þór Axelsson

Kvikmyndir

Fyrir vel heppnaða fyrstu mynd leikstjóra. Óskar sýndi afbragðs hæfileika í vinnu með leikurum. Umgjörð myndarinnar og stíll var unninn á fagmannlegan hátt og sagan myndaði heilsteypt verk. Sterk persónusköpun myndaði rétt andrúmsloft og ýtti undir upplifun áhorfandans á sögunni.
Smelltu til að kjósa:

Ragnheiður Jónsdóttir

Myndlist

Ragnheiður Jónsdóttir á sér langan feril í myndlist og hefur lifað og stundum verið leiðandi í þeim miklu umbrotum sem orðið hafa í íslenskri myndlist síðustu áratugi. Hún var leiðandi listamaður í þeirri miklu grafíkvakningu sem setti svo sterkan svip á íslenska myndlist á áttunda áratugnum. Sumar myndir hennar frá þeim tíma eru orðnar að eins konar þjóðareign – táknmyndir kvennabaráttu og nýrrar samfélagshugsunar. Seinna sneri Ragnheiður sér að teikningu og hafa sýningar hennar síðustu tvo áratugi opnað nýja sýn á möguleika þess miðils – látlausasta myndlistarmiðilsins. Á síðasta ári hélt Ragnheiður sýningu á nýjustu verkum sínum í Listasafni ASÍ en á sama tíma var sett upp stór yfirlitssýning á verkum hennar í vestursal Kjarvalsstaða.
Smelltu til að kjósa:

Retro Stefson

Tónlist

Meðlimir Retro Stefson eru ekki gamlir í árum talið en sveitin hefur verið að slípa sinn hljóm árum saman. Fyrsta plata sveitarinnar, Montana, kom út 2008 og hefur sveitin varla lagt frá sér hljóðfærin síðan. Retro Stefson er fyrir löngu orðið eitt allra skemmtilegasta tónleikaband okkar íslendinga og það eru fáir sem standast dansinn á tónleikum. Kimbabwe, önnur plata Retro Stefson, kom út 2010 og var sveitin dugleg að fylgja eftir plötunni með tónleikahaldi hér heima og erlendis. Þriðja plata Retro Stefson kom út í fyrra og ber nafn sveitarinnar. Platan hefur hlotið gríðarlega góða dóma og fengið frábærar viðtökur og má sjá og heyra leikskólabörn víðsvegar um landið syngja lög af plötunni sem er frábær mælikvarði á vinsældir. Unnsteinn Manuel Stefánsson var tilnefndur sem lagahöfundur ársins og söngvari ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum. Platan Retro Stefson var tilnefnd sem hljómplata ársins og hlaut lagið Glow verðlaun sem lag ársins og sveitin sjálf hlaut verðlaun sem tónlistarflytjandi ársins. Frábært ár hjá ungri sveit sem á nóg inni.
Smelltu til að kjósa:

Reykholt, Guðrún Sveinbjarnardóttir

Fræði

Í „Reykholt Archaeological Investigations at a High Status Farm in Western Iceland“ eru kaflar eftir 20 innlenda og erlenda sérfræðinga sem komu að rannsókninni. Fyrstu fornleifarannsóknir voru gerðar á bæjarstæðinu í Reykholti á árunum 1987–1989, og aftur 1997–2003. Rannsóknirnar benda til að búið hafi verið á bænum frá því snemma á 11. öld og fram undir miðja 20. öld. Fyrstu híbýlin voru hefðbundin langhús úr torfi, en á 12. og 13. öld eru stakar timburbyggingar á staðnum, óþekktar annars staðar á Íslandi en líkar byggingum til dæmis í Noregi en samkvæmt rituðum samtímaheimildum voru byggingar í Reykholti einstakar og ólíkar öðrum íslenskum á sama tíma. Einnig virðist korn hafa verið ræktað í Reykholti og þaðan stunduð verslun við útlönd. Glæsileg mannvirkin vitna um mikilvæga stöðu Reykholts á miðöldum. Á svæðinu fundust og skýrar vísbendingar um notkun jarðhita allt frá miðöldum og er það í fyrsta sinn að slíkar minjar finnast á Íslandi. Yfirgripsmikil, nákvæm og einkar fróðleg skýrsla um miklar, þverfaglegar rannsóknir á merkum sögustað á Íslandi.
Smelltu til að kjósa:

Reykjavík Letterpress

Hönnun

Hildur Sigurðardóttir og Ólöf Birna Garðarsdóttir stofnuðu hönnunarstofuna Reykjavík Letterpress árið 2010. Sérstaða stofunnar er svokölluð letterpressprentun sem byggir á aldargamalli aðferð. Hildur og Ólöf stunda prentun af mikilli ástríðu og nota allt frá handknúinni þrykkvél frá árinu 1893 til Heidelberg-prentvélar af gamla skólanum. Þær vinna með gamalt handverk sem var á undanhaldi og upphefja það á nútímalegan og skemmtilegan hátt. Þessi prentaðferð krefst natni og alúðar sem skilar sér á fallegan hátt í verkum þeirra. Þessi litla stofa er fersk viðbót í prentiðnaðinn á Íslandi og hafa þær á þessum fáu árum byggt upp dyggan kúnnahóp sem nýtir sér þjónustu þeirra.
Smelltu til að kjósa:

Reykjavíkurnætur, Arnaldur Indriðason

Bókmenntir

Í Reykjavíkurnóttum hverfur Arnaldur Indriðason með lesendur 40 ár aftur í tímann, og færir okkur nöturlega lýsingu undirheimum Reykjavíkur og lífi og örlögum útigangsfólks. Arnaldur heldur áfram að bæta við púslum í myndina af Erlendi, sem fyrir löngu er orðinn heimilisvinur flestra Íslendinga. Árið 1973 er Erlendur ung umferðarlögga, sem rannsakar upp á eigin spýtur (af mikilli þrákelkni) dauða róna sem drukknaði í mógröf. Reykjavíkurnætur er án efa einhver albesta bók Arnaldar, skrifuð af miklu öryggi og þekkingu svo horfinn heimur lifnar við í höndum höfundar sem fært hefur íslensku spennusöguna upp á nýtt plan.
Smelltu til að kjósa:

Siglingin um síkin, Álfrún Gunnlaugsdóttir

Bókmenntir

Verkið fjallar um eldri konu sem er orðin hornreka í borðstofuhorninu hjá syni sínum í í lífinu sjálfu. Sjónarhornið er hjá aðalpersónunni allan tímann en hún glímir við minnisglöp af einhverju tagi. Stokkið er til og frá í tíma, til æsku hennar, hjúskaparára og fjallað um nútímann en smám saman verður þetta ruglingslegra í takt við þróun sjúkdóms hennar. Lesandinn glímir þannig við sömu tilfinningar og ringulreið og aðalpersónan. Bókin er afar vel stíluð, vel fram sett og skemmtileg. Höfundi tekst fanta vel að leiða lesandann inn í heim gömlu konunnar, skemmta honum og vekja upp óöryggi hans í takt við líf aðalpersónunnar.
Smelltu til að kjósa:

Sigurður Guðjónsson

Myndlist

Sigurður Guðjónsson hefur sérstaka sýn og hefur fyrir löngu markað sér sess sem einn af okkar helstu vídeólistamönnum. Þessi miðill – myndlistarverk á myndbands- eða kvikmyndaformi – á sér orðið nokkuð langa sögu á Íslandi þótt hún hafi lítið verið skráð fyrr en Harpa Þórsdóttir lagði á sig mikla grunnvinnu við að taka saman heilmildir fyrir listasöguútgáfuna síðustu. Myndheimur Sigurðar er dökkur og getur kannski við fyrstu sýn virst þungur en með því að beina sjónum sínum (og linsum) að einföldum hlutum tekst honum að vekja upp tilfinningu fyrir fegurðinni þar sem við síst myndum vænta hennar.
Smelltu til að kjósa:

Sjóræninginn, Jón Gnarr

Bókmenntir

Í Sjóræningjanum nýtir Jón Gnarr sér frelsi skáldskaparins til að segja okkur uppvaxtarsögu, sem hófst með Indjánanum (2006). Hér er sögumaður kominn á unglingsár og tilveran er öll heldur hráslagaleg – í skólanum er hann fórnarlamb hrekkjusvínanna og meðal fjölskyldunnar er hann eins og geimvera. Hann leitar athvarfs í músík og anarkisma, eignast vini meðal hinna smáðu og finnur sig í pönkinu, sem í kringum 1980 var ávísun á fruss og fyrirlitningu. Þetta eru fyrstu endurminningar alvöru íslensks pönkara (þeir voru aldrei margir) en jafnframt frábær lýsing á íslensku samfélagi áttunda áratugarins. Bók sem nístir, kætir, fræðir.
Smelltu til að kjósa:

Skálmöld

Tónlist

Hljómsveitin Skálmöld var stofnuð á haustmánuðum árið 2009. Sveitin spilar melódískt þungarokk í víkingastíl og sækir innblástur í sagnaarfinn og goðafræðina. Hefðbundinni bragfræði er gert hátt undir höfði og vandað er til verka. Meðlimir hafa verið lengi að í íslenskri tónlist og hafa verið viðloðandi hljómsveitir á borð við Ampop, Hraun, Klamidíu X, Innvortis og Ljótu hálfvitana, en hér heyrast þó þyngri tónar en frá fyrri böndum. Fyrsta plata Skálmaldar, Baldur, kom út árið 2010 og rekur sögu víkings, allt frá því áður en hann missir allt sitt í árás – fjölskyldu, bú og land – til dauða og reyndar enn lengra. Eftir þessar raunir hefur hann aðeins eitt markmið, að hefna fyrir vígin og voðaverkin og fylgjum við honum eftir í þeim aðgerðum. Hvert lag plötunnar er því ómissandi hluti sögunnar og textarnir mjög svo mikilvægir. Baldur, hefur selst í mörg þúsund eintökum hérlendis og er að öllum líkindum söluhæsta þungarokksplata Íslands frá upphafi.
Smelltu til að kjósa:

Skýjaborg

Danslist

Dansverkið Skýjaborg er tilnefnt fyrir að bjóða ungum börnum upp á hágæða list og vera þannig mikilvægt innlegg til barnamenningar. Verkið er dansverk fyrir aldurshópinn 6 mánaða til 3 ára og fjallar um tvær sérstakar veðraverur sem vakna upp á ókunnum stað. Að verkinu stendur einvala lið listamanna með danshöfundinn Tinnu Grétarsdóttur fremsta í flokki. Mikill metnaður og fagmennska einkennir alla þætti verksins í hvívetna hvort sem um ræðir dansinn, tónsköpunina eða sjónræna umgjörð. Allar listgreinarnar unnu gríðarlega vel saman og náðu að skapa forvitnilegan heim sem heillaði börn og foreldra frá upphafi til enda.
Smelltu til að kjósa:

Stöðin í Borgarnesi-Krads arkitektar

Arkitektúr

Um er að ræða fyrstu Stöðina í röð nýrra áningarstaða Skeljungs við Hringveginn. Hún stendur á áberandi stað við innkomuna í Borgarnes, umkringd öðrum bensínstöðvum og stórverslunum. Það sem gerir Stöðina augljóslega að betri dæmum um slíkan arkitektúr eru fyrirheitin um nýjan og metnaðarfullan tón í byggingarstíl þar sem sjónsteypa og rennilegt formið mýkir upp annars hart umhverfið. Formið á reyndar líka mjög vel við túlkun á hinum ameríska „diner“ sem höfundar vitna sjálfir til. Stöðin reynir ekki að vera neitt annað en hún er, en með efnisnotkun og í einfaldleika tekst henni að skapa sér sérstöðu. Stór, bogadregin gluggahliðin nýtir sér útsýnið og dregur að stórbrotna fjallasýnina fyrir viðskiptavinina að njóta. Fyrirkomulag Stöðvarinnar er bæði úthugsað og heilsteypt.
Smelltu til að kjósa:

Suðurglugginn, Gyrðir Elíasson

Bókmenntir

Hér segir frá rithöfundi sem leitar athvarfs á landsbyggðinni til að skrifa skáldsögu. Það reynist þrautin þyngri, enda hefur sögumaður Gyrðis óljósar hugmyndir um persónur sínar og efnivið, svo mjög reyndar að textinn loðir varla við pappírinn. Hér er að sönnu fjallað um glímu skálds við kenjótta sköpunargáfu og um „hlutskipti listamannsins“ en aðrar spurningar og ekki síður áleitnar herja á sögumann í þessari meistaralegu skáldsögu. Margrómuð stílsnilld Gyrðis hefur tæpast risið hærra, en auk þess er Suðurglugginn leiftrandi fyndin, kaldhæðin og skemmtileg skáldsaga, stútfull af visku og hárbeittum athugasemdum um veröld sem við ættum víst öll að taka til endurskoðunar.
Smelltu til að kjósa:

Sögur úr Vesturheimi

Fræði

Veturinn 1972–1973 dvöldu Hallfreður Örn Eiríksson og Olga María Franzdóttir á Nýja Íslandi og í byggðum Vestur-Íslendinga í Kanada og Bandaríkjunum. Þar söfnuðu þau sögum og kvæðum sem fólk hafði sér til skemmtunar og flutti munnlega inn á segulband þeirra hjóna. Upptökurnar eru varðveittar á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og bjó Gísli Sigurðsson þær til útgáfu. Í formála bendir hann á ógrynni heimilda sem þar er að finna um vesturfarana, aðstæður þeirra í nýju landi, tungumálið og þróun þess, siði, venjur, trú, háttu, kveðskap, sögur, sagnir, menn og málefni, svo nokkuð sé nefnt. Gísli Sigurðsson bjó til prentunar. Hallfreður Örn Eiríksson og Olga María Franzdóttir söfnuðu.
Smelltu til að kjósa:

Upp með fánann! - Gunnar Þór Bjarnason

Fræði

Hér er fjallað um sögulegar og örlagaríkar alþingiskosningarnar 1908. Aðalmál kosninganna var samningur milli Dana og Íslendinga um samband landanna innan danska konungsríkisins, Uppkastið. Hannes Hafstein ráðherra sat ásamt sex öðrum Íslendingum og 13 Dönum í samningsnefndinni og fór um allt land fyrir kosningar til að mæla fyrir samningnum, enda taldi hann um sanngjarna málamiðlun og framfaraspor að ræða. Margir stjórnarandstæðingar studdu Uppkastið, þar á meðal Valtýr Guðmundsson. Andstæðingar Uppkastsins, til dæmis Björn Jónsson ritstjóri og Bjarni Jónsson frá Vogi, fóru mikinn og sökuðu Hannes Hafstein og aðra stuðningsmenn Uppkastsins um undirlægjuhátt. Varla þarf að hafa fleiri orð um mikilvægi þessa kafla í Íslandssögunni og skírskotunina til nútímans en Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur rekur hana með þeim hætti að allir, jafnt fræði- sem áhugamenn um sögu og samtíð, hafa bæði gagn og gaman af.
Smelltu til að kjósa: