fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024

Rússneska rúllettan á Súðavíkurhlíð

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 30. mars 2016 23:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árum saman hefur sú vitneskja legið fyrir að vegurinn um Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði og Súðavíkurhlíð í Álftafirði er stórhættulegur vegfarendum vegna tíðra ofanflóða, einkum snjóflóða. Þetta hefur komið átakanlega glöggt í ljós í ofviðrum þeim sem gengið hafa yfir Vestfirði undanfarin ár. Þess eru mörg dæmi, þar með nýleg, að fjöldamörg snjóflóð hafi fallið á þessari leið á fáeinum dögum. Fyrir þremur árum féllu flóð úr 20 af 22 skilgreindum snjóflóðafarvegum í Súðavíkurhlíð. Tepptust þar með allar bjargir og aðföng til og frá Ísafirði, höfuðstað Vestfjarða. Þær aðstæður sem þar með mynduðust eru með öllu óásættanlegar fyrir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum sem sækja heilbrigðisþjónustu og aðra grunnþjónustu til Ísafjarðar. Vegurinn um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð inn Djúp er helsta samgönguæð íbúa á Ísafirði í þjóðvegakerfinu yfir vetrarmánuðina.

22 snjóflóðagil á 2,8 kílómetra kafla

Nokkrar úttektir hafa verið gerðar á síðustu árum um mögulegar úrbætur á leiðinni um Súðavíkurhlíð. Í einni þeirra kemur fram að „fyrir þá sem ferðast daglega um Óshlíð eða Súðavíkurhlíð er snjóflóða- og grjóthrunshættan nálægt því að tvöfalda árlegar dánarlíkur í umferðinni sé miðað við meðaldánarlíkur Íslendinga í umferðinni.“

Vegurinn um Súðavíkurhlíð er einstæður hvað varðar snjóflóðahættu og grjóthrun. Víðast hvar er vegurinn alveg með sjó, í 5–30 metra hæð yfir sjávarborði, og því mjög miklar líkur á alvarlegum slysum sé ekið út af veginum. Innarlega á Súðavíkurhlíð, á 2,8 kílómetra löngum kafla, eru 22 gil þar sem reglulega verða snjóflóð, en eitthvert grjóthrun er á fjögurra kílómetra kafla. Á Kirkjubólshlíð er snjóflóðahætta í mörgum giljum, einkum innan til.

Úttektir sýna að snjóflóðum á Súðavíkurhlíð hefur fjölgað mjög eftir 1991 vegna breytinga á veðurfari og ríkjandi vindátta sem valda snjósöfnun og flóðum í hlíðinni. Þannig mældust 56,2 snjóflóð á ári á Súðavíkurhlíð 1991–2000 samanborið við 42,7 á hinni stórhættulegu Óshlíð sem nú hefur verið leyst af hólmi með jarðgöngum til Bolungarvíkur. Úttektaraðilar hafa bent á að jarðgöng séu eina aðgerðin sem tryggt getur fyllsta öryggi á þessari leið auk þess sem þau mundu stytta vegalengdina milli byggðarlaga töluvert með tilheyrandi hagræðingu og úrbótum fyrir samskipti, atvinnulíf og þjónustu á svæðinu. Á skalanum 1–10 mundu jarðgöng fá árangurseinkunnina 10, en óbreytt ástand einkunnina 5. Það þýðir að Súðavíkurhlíðin er í reynd rússnesk rúlletta með tilliti til öryggis vegfarenda.

Íbúar langþreyttir

Íbúar á svæðinu og Fjórðungssamband Vestfirðinga hafa árum saman knúið á um að hafist verði handa um gerð jarðganga milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar til þess að bæta úr því ófremdarástandi sem sannarlega ríkir að óbreyttu. Árið 2006 skrifuðu 1.439 manns undir „áskorun til ríkisstjórnar um að hefja nú þegar rannsóknir og undirbúning að jarðgangagerð milli Súðavíkur og Ísafjarðar út frá samfélagslegum og öryggissjónarmiðum“. Vorið 2013 tók ég málið upp á Alþingi sem fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um að Álftafjarðargöng verði þegar sett inn á samgönguáætlun sem næsta jarðgangaframkvæmd á Vestfjörðum á eftir Dýrafjarðargöngum. Í millitíðinni verði tryggðar viðunandi snjóflóðavarnir á Súðavíkurhlíð. Nú hefur fjármagn fengist til snjóflóðavarnanna en göngin eru enn ekki komin á áætlun. Við það verður ekki lengur unað. Hef ég því að nýju lagt fram þingsályktun um málið, með stuðningi annarra þingmanna Norðvesturkjördæmis.

Í hnotskurn.

Jarðgöng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar mundu ekki einungis leysa öryggismál á Súðavíkurhlíð heldur einnig á Kirkjubólshlíðinni þar sem snjóflóð og grjóthrun hafa einnig valdið vanda og hættu. Því má öllum ljóst vera hvílíkt öryggismál það er fyrir þá sem ferðast um þennan veg að flýta sem mest má verða jarðgöngum milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Pressan
Fyrir 12 klukkutímum

Fór að leita uppi draugahús á Ítalíu með kærastanum – Endaði líf sitt sem „mannleg fórn“

Fór að leita uppi draugahús á Ítalíu með kærastanum – Endaði líf sitt sem „mannleg fórn“
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Spáin fyrir Bestu deild kvenna – „Ég myndi segja að það sé eina sjokkið“

Spáin fyrir Bestu deild kvenna – „Ég myndi segja að það sé eina sjokkið“
Eyjan
Fyrir 13 klukkutímum

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Stöð 2 lækkar verð

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Dæmd fyrir líkamsárás á hvort annað

Dæmd fyrir líkamsárás á hvort annað
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Þetta stendur á veggnum þegar leikmenn City fara á æfingar

Þetta stendur á veggnum þegar leikmenn City fara á æfingar
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Verk og vit sett með pomp og prakt

Verk og vit sett með pomp og prakt
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Haaland tæpur fyrir bikarleikinn mikilvæga á morgun

Haaland tæpur fyrir bikarleikinn mikilvæga á morgun