fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024

Lesið – Óháðir menn

Og bæjarins verstu og jafnaðarmennska

Ritstjórn DV
Föstudaginn 9. desember 2016 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég var beðinn um að koma um daginn á aðventustund í kirkju Óháða safnaðarins á horni Stakkahlíðar og Háteigsvegar, en þaðan á ég góðar barnsminningar, bæði frá Sunnudagaskóla með séra Emil Björnssyni og frá leikskólaárum í austurkjallara sömu byggingar. Nú er þar prestur gamall kunningi frá háskólaárum, séra Pétur Þorsteinsson, mörgum vel kunnur fyrir frumlegt orðaglens, svo að ég kom þar með ánægju á sunnudagskvöldi og heyrði meðal annars hinn afbragðsfína Gradualekór syngja metnaðarfulla dagskrá.

Ég hafði frjálsar hendur með mitt erindi, þó hafði þess verið getið að gaman væri að heyra eitthvað minnst á jólagjafir, svo ég hóf spjallið á að vera svo hégómlegur að lesa upp úr eigin bók, reyndar gamalli, eða Gulleyjunni, sem er hálfur grunnurinn undir sýningu Þjóðleikhússins sem nú er í gangi, þ.e.a.s. söngleiknum Djöflaeyjunni, en þar segir meðal annars:

„Í Gamla húsinu voru jólin tekin alvarlega. Tommi vann ekki, Lína spáði hvorki í spil né bolla, Baddi drakk ekki, Dollí lét Danna í friði. Einu verkin sem unnin voru fyrir utan þrifaböðin, ef þeim varð viðkomið (yfirleitt var botnfrosið í baðkarinu úti í vaskahúsi á þessum árstíma) voru góðverkin.

Góðverkin: Þegar búið var að skreyta húsið svo að veggirnir voru orðnir eins og kóralrif var afgangsskrautið gefið fátæka fólkinu í bröggunum allt í kring. Prúðbúin sendinefnd skundaði hlaðin gjöfum um hverfið. Drykkfelldri ekkju sem aldrei hafði keypt jólatré afhenti Baddi tveggja feta háan jólatréstopp. Öðru heimili þar sem húsbóndinn hafði drukkið út sparisjóðinn sem konan önglaði saman fyrir jólamatnum gaf Dollí borðskreytingu sem traustustu eikarborð hefðu svignað undan. Gréta litla, kona Hreggviðs kúluvarpara, fékk dyrakrans með fæðingunni í Betlehem. Krossinn var negldur á krossviðarplötu sem skorðuð hafði verið fyrir dyrunum í stað hurðarinnar sem húsbóndinn molaði í drykkjuæði nokkrum dögum fyrr. Sæunn kattakelling fékk mistilteina.“

Tvíburarnir – Bæjarins verstu

Eftir að hafa ákveðið að lesa þetta, þar sem vandræði fólks í bröggum eru skoðuð í aðeins kómísku ljósi hefðbundinnar þriðjupersónu-frásagnar varð mér hugsað til manns sem hafði samband við mig löngu eftir að Gulleyjan og þær bækur komu út, því hann hafði áhuga á að bera undir mig sína sögu. Höfundar fá oft þannig tilmæli, og maður hefur svona varann á sér með að fara að eyða tíma í erindisleysu, en sá sem sneri sér til mín í þetta sinn talaði þannig að það vakti áhuga minn. Við hittumst yfir kaffi og hann sagði mér fyrst að hann hefði lesið Djöflaeyjutrílógíuna um Thulekampinn og að hann hafi þekkt umhverfið og tímabilið og frásagnarefnið; jafnvel fyrirmyndir að persónum. Og að sjálfur hafi hann alist upp á svipuðum slóðum.

Sagan hans reyndist mögnuð: hann fæddist árið 1946, eitthvað tæpum níu mánuðum eftir að megnið af ameríska setuliðinu kvaddi Ísland í stríðslok, meðal annars faðir hans. Þá var móðir þess sem sagði mér frá, ung reglusöm verkakona, ólétt af tvíburum; viðmælanda mínum og bróður hans. Móðirin var með lasna móður sína á framfæri og eignaðist svo drengina sína. Hún bjó við þannig kjör að húsnæðið sem hún réð við var lekur gamall kofakjallari vestur í bæ, við hlið Camp Knox. Þar var hvorki heitt rennandi vatn né miðstöðvarkynding, bara kolaofn við einn vegginn og svo útikamar, sem fauk um koll í hvassviðrum. Og húsnæðið lak þannig að í rigningum þurfti að dreifa krukkum og fötum og koppum um öll gólf til að taka við vatninu. Móðirin sinnti þó drengjunum og þeir komu læsir og bráðgerir í Melaskóla þegar þeir höfðu aldur til, og voru settir beint í besta bekkinn. Þeir höfðu enn ekki gert sér grein fyrir að þeir væru eitthvað öðruvísi, og líkaði vel við skólafélaga – buðu meira að segja einhverjum heim. Bekkjarbræður komu í heimsókn einn rigningardaganna þegar vaskafötunum hafði verið dreift undir lekann. Og gestkomandi drengirnir urðu furðu lostnir, og flúðu svo er þeir þurftu að komast á klósett, og var bent á hrörlegan útikamarinn. Tvíburadrengirnir skildu síðan hvað bekkjarfélögunum hafði þótt skrýtið við þeirra heimilisaðstæður þegar þeir fengu svo að sjá heimili hinna, í höllunum við Ægissíðuna og þar í kring. Að auki var hlegið að því í besta bekknum í Meló að tvíburarnir vissu ekki hvað pabbi þeirra héti; hann mun hafa heitið annaðhvort William að fornafni eða Williams að eftirnafni – frekari upplýsingar voru ekki um hann.

Tvíburarnir skildu líka fljótt að þeir tilheyrðu ekki heimi hinna barnanna og myndu aldrei verða samþykktir í þeirra hóp; fóru að vanrækja skólann og sækja félagsskap annað, fullir mótþróa og beiskju auðvitað, og í stuttu máli lá leið þeirra fljótt niður á við. Strax á unglingsárum var það drykkja, læknadóp, innbrot og smáglæpir, og svo ævi með æ meiri drykkju, útskúfun og örvæntingu.

Það var semsé annar þessara bræðra sem hafði samband við mig, þá hátt á sextugsaldri, og búinn loksins að bíta af sér neysluna. Ég fann fljótt að þessi maður – Hreinn Vilhjálmsson – myndi sjálfur geta skrifað, og það gerði hann; „skálduð ævisaga“ hans kom út 2005 hjá Máli og menningu undir titlinum „Bæjarins verstu.“ Mér var sýndur sá heiður að fá eftir mig tilvitnun á kápunni þar sem meðal annars stendur: „Hann óð gegnum fjóshaug mannlífsins en sagan hans glitrar eins og perla.“

„Stimplaði sig út“

Þess má geta að tvíburabróðir Hreins hét Leifur. Hann reyndi líka að losa sig úr sínum viðjum, hætti um hríð í víni og dópi og fór meðal annars í Myndlistarskólann hér heima. En tókst ekki að komast úr vítinu; fyrirfór sér, eða „stimplaði sig út“ eins og Hreinn Vilhjálmsson bróðir hans orðaði það. Seinna hitti ég Tolla listmálara sem sagði mér að þeir Leifur hefðu verið um hríð samtíða í myndlistarnámi, og að Leifur, þá orðinn fullorðinn maður, hefði verið með einna mestan talent skólasystkinanna.

Því er ég að rifja upp örlög þessara bræðra að maður hugsar með hrolli til þess hversu skammt er um liðið frá því misskipting var slík í okkar þjóðfélagi að ungum efnilegum börnum eins og þessum bræðrum stóð í raun ekkert nema eymd og útskúfun til boða, þeir fengu í rauninni aldrei tækifæri. Tveimur hæfileikaríkum krökkum var í rauninni kastað á fjóshauginn í barnæsku, vegna óréttlætis í samfélaginu og bágra kjara móðurinnar. Og með það í huga hef ég verið að lesa nýútkomið stórvirki Guðjóns Friðrikssonar „Úr fjötrum“ og fjallar um sögu Alþýðuflokksins, sem hófst 1916, fyrir réttum hundrað árum.

Jöfnuður í samfélagi manna

Nú er mikið í tísku að segja að sósíaldemókratismi sé úreltur, það hlakka margir yfir dvínandi fylgi þeirra flokka sem slíkt aðhyllast, ekki síst í okkar heimshluta, og við Íslendingar þekkjum þetta svosem vel; hreyfing jafnaðarmanna næstum þurrkaðist út í síðustu kosningum. En ég hef verið að lesa áðurnefnda bók Guðjóns Friðrikssonar, hún hefur auðvitað Alþýðuflokkinn gamla í miðpunkti en fylgir að sjálfsögðu hreyfingunni, hvert sem hún klofnar og undir hvaða nöfnum sem hún birtist í lengri eða skemmri tíma: þetta er sagan um baráttu fátækrar alþýðu fyrir því að geta lifað mannsæmandi lífi, að alþýðubörn geti notið viðunandi húsnæðis, menntunar og þroska, og þurfi ekki að eyða ævinni á botni samfélagsins. Og það er hrollvekjandi til þess að hugsa hvernig þjóðfélagið væri ef jafnaðarmenn og verkalýðshreyfing hefði ekki barist fyrir þeim umbótum sem orðið hafa. Það mætti byrja á vökulögunum frá þriðja áratugnum, og svo áfram: verkamannabústöðunum, alþýðutryggingum og seinna almannatryggingum, lög um stéttarfélög og vinnudeilur sem tryggðu samningsrétt vinnandi fólks um kaup og kjör; lög um jöfn laun kynjanna, lánasjóð námsmanna, tónlistarnám sem öllum stæði til boða og þannig mætti áfram telja; það var fyrir baráttu sósíalista sem tókst að uppræta fátækrahverfi af því tagi sem tvíburarnir sem hér hefur verið sagt frá þurftu að alast upp í.

Fólk ætti að velta fyrir sér þeim æpandi mun sem er á samfélögum í okkar heimshluta þar sem jafnaðarmenn hafa haft veruleg áhrif, og svo hinum. Jafnaðarmenn hafa aldrei ráðið neinu í Rússlandi, eftir fall kommúnismans tóku ólígarkarnir yfir þjóðarauðinn og sólunda honum í þotulíf sjálfs sín um allan heim. Í Bandaríkjunum er sósíalismi bannorð, og sagt var að þegar Bernie Sanders kenndi sig við þá stefnu hafi orðið útséð um að hann gæti orðið forseti; í staðinn fengu þeir Trump sem ætlar strax í janúar að hefja vinnu við að leggja niður hið svokallaða „Obamacare“ sem er vottur af því kerfi sem við þekkjum í kratískari Evrópu og á að gefa fátæku fólki rétt til lífs og heilsu þótt það veikist eða slasist.

Ég held við viljum ekki bandarískt kerfi í okkar landi; það var þannig snemma á síðustu öld, en breyttist vegna baráttu alþýðunnar, þrátt fyrir oft hatramma andstöðu hinna betur megandi. Fólk þarf að kynna sér þessa sögu; lesa bæði „Bæjarins verstu“ og hina nýju „Úr fjötrum – saga Alþýðuflokksins“.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 klukkutímum

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Kostar sitt að kúka í Lystigarðinum – Akureyrarbær tvöfaldar verðmiðann

Kostar sitt að kúka í Lystigarðinum – Akureyrarbær tvöfaldar verðmiðann
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni
Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 4 klukkutímum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins
Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

„Í dag er þetta eitthvað sem gerir mig sterkari“

„Í dag er þetta eitthvað sem gerir mig sterkari“
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Indriði læknir þreyttur á vottorðabákninu – „Ég endurnýja sömu sjúkraþjálfarabeiðnina sem sjúklingur hafði fengið í 10 ár í röð fyrir sama bakverkjavandanum“

Indriði læknir þreyttur á vottorðabákninu – „Ég endurnýja sömu sjúkraþjálfarabeiðnina sem sjúklingur hafði fengið í 10 ár í röð fyrir sama bakverkjavandanum“
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Leikmaður Arsenal ákærður – Varðhundur hans á að hafa bitið nuddarann í háls og hendi

Leikmaður Arsenal ákærður – Varðhundur hans á að hafa bitið nuddarann í háls og hendi