Þvottabjörn drepinn í verksmiðju Lýsis og mjöls

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 7. febrúar 2018 18:00

Dagblaðið greindi frá því fimmtudaginn 29. janúar árið 1976 að rafvirki hjá Lýsi og mjöli í Hafnarfirði hafi mætt ógnvænlegu dýri þegar hann klifraði upp rafmagnsrennu. Dýrið sperrti upp hárin og rafvirkinn forðaði sér niður enda taldi hann að um illvígan ref væri að ræða. Hann talaði við samstarfsmann sinn í verksmiðjunni sem sótti byssu og skaut dýrið. En þá kom í ljós að þetta var alls ekki refur.

Þetta er hluti af ítarlegri umfjöllun DV um Sædýrasafnið sem finna má í síðasta helgarblaði.

Skoffín í verksmiðju Lýsis og mjöls

Félagarnir stóðu nú á gati og kölluðu til blaðamann. Að sögn þeirra virtist höfuð dýrsins vissulega vera af ref en búkurinn af ketti og fæturnir af apa. Að öllum líkindum hafði dýrið verið í verksmiðjunni í einhvern tíma. Starfsfólkið hafði orðið vart við undarleg fótspor og bæði húskötturinn og allar rotturnar voru flúnar.

Leitað var til Náttúrufræðistofnunar Íslands en þar fengust engin handbær svör strax. Samkvæmt stofnuninni var sennilega um að ræða hálfvaxinn ref, útileguhund eða skoffín. Skoffín er þjóðsagnavera, sögð afkvæmi refs og kattarlæðu.

Slapp úr einangrun

Degi seinna upplýstist gátan því um var að ræða þvottabjörn sem stóð til að vista í Sædýrasafninu í Hafnarfirði. Sápugerðin Frigg keypti slíka birnina af Dýragarðinum í Kaupmannahöfn og flutti þá inn í nóvember árið 1975. Tveir þeirra komust í Sædýrasafnið en einn slapp úr einangrun í fiskihúsi í Hvaleyrarholti.

Lögreglunni hafði verið gert viðvart um flótta bjarnarins og til hans hafði sést við Hafnarfjarðarhöfn innan um stórgrýti. Í nokkur skipti hafði verið reynt að handsama bangsa en hann var of snöggur. Á einhverjum tímapunkti fann hann skjól í verksmiðju Lýsis og mjöls og hafði þar greinilega eitthvert æti. Þegar hann var skotinn var hann þó orðinn nokkuð horaður enda hafði hann aldrei þurft að sjá um sig sjálfur og auk þess á framandi slóðum um miðjan vetur.

Þvottabirnir eru alætur og geta virst illvígir séu þeir hræddir. Þeir eru þó í flestum tilvikum sárameinlausir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af