fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Samstilltar systur

Ritstjórn DV
Laugardaginn 4. ágúst 2018 21:00

Systurnar Christine og Léa vildu ekki vera aðskildar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Systur tvær, Christine, fædd 1905, og Lea, fædd 1911, Papin slitu barnsskónum í þorpum skammt frá frönsku borginni Le Mans. Af bernsku þeirra segir fátt, en þær áttu eldri systur, Emiliu, sem gerðist nunna og kemur ekki frekar við sögu hér. Christine og Lea dvöldu þónokkuð innan veggja hinna ýmsu stofnana því skilnaður foreldra þeirra hafði lagst á sál þeirra. Þegar þær voru orðnar stálpaðar sáu þær sér farborða sem þjónustustúlkur á hinum ýmsu heimilum í Le Mans. Reyndu þær eftir bestu getu að fá vist þannig að þær gætu verið saman.

Hæglátar og iðnar

Víkur nú sögunni til ársins 1926. Þá unnu systurnar hjá René nokkrum Lancelin, lögmanni í Le Mans sem sestur var í helgan stein. Bjuggu systurnar á heimili lögmannsins og eiginkonu hans. Einnig var þar til heimilis uppkomin dóttir þeirra hjóna, Genevieve.

Systurnar
Christine og Léa vildu ekki vera aðskildar.

Var eftir því tekið hve systurnar voru hæglátar og iðnar. Þær héldu sig mest út af fyrir sig og var engu líkara en þær hugsuðu mest um hvor aðra.

Árangurslaus bið

Árin liðu og lífið gekk sinn vanagang á heimili Lancelin-fjölskyldunnar. Þann 2. febrúar, 1933, dró þó til tíðinda. René Lancelin beið þá um kvöldið eftir eiginkonu sinni og dóttur, heima hjá mági sínum sem hafði boðið þeim til kvöldverðar.

Leið og beið en ekkert bólaði á mæðgunum. Áhyggjufullur fór René heim til að athuga hverju sætti. Dyrnar voru læstar innan frá og René gat ekki með nokkru móti komist inn, hann sá þó bjarmann frá kertaloga berast út um gluggann á vistarverum systranna á háaloftinu.

Blóðugur vettvangur

René sá þann eina kost í stöðunni að leita aðstoðar lögreglunnar og klifraði einn lögregluþjónn yfir vegginn að húsabaki og þaðan inn í húsið. Þar mætti honum ófögur sjón; mæðgurnar lágu á gólfinu og var vart hægt að bera kennsl á þær, svo illa farin voru andlit þeirra. Annað auga Genevieve verið stungið út og lá á gólfinu skammt frá líkinu. Bæði augu frúar Lancelin höfðu verið stungin út, þau fundust innvafin í klút sem hafði verið bundinn um háls hennar. Neglur höfðu verið rifnar af með rótum og gólfteppið var gegnsósa af blóði.

Klæddar í kímonóa

Lögregluþjónar fikruðu sig með varúð upp á efri hæðir hússins. Uppi á hálofti fundu þeir systurnar þar sem þær sátu, íklæddar kímonó, á öðru rúminu og héldu hvor utan um aðra. Þær játuðu undanbragðalaust að hafa banað mæðgunum og síðan farið úr blóði drifnum fötum sínum, klætt sig í kímonóa, og skolað morðvopnin; steikarhníf, hamar og tinkrús, sem ekki reyndist nothæf í kjölfarið.

Í kímonóum
Systurnar fóru úr blóðugum fatnaði eftir morðin og íklæddust kímonóum.

Að sögn Christine mátti rekja atburðarásina til þess að vartappi hafði sprungið þegar hún var að strauja, og ekki í fyrsta sinn á skömmum tíma. Til orðaskipta kom á milli hennar og frúar Lancelin og lauk þeim á þennan blóðuga og banvæna veg. 

Óbærilegur aðskilnaður

Nú, systurnar voru handteknar, skildar að og settar á bak við lás og slá. Að vera ekki í samvistum við hvor aðra lagðist illa í þær, einkum og sér í lagi Christine. Hún varð nánast frávita og svo fór að yfirvöld sáu aumur á henni og leyfðu henni að hitta Léu. Christine kastaði sér um háls systur sinnar og mátti, að sögn þeirra sem urðu vitni að því, leiða líkur að því að samband þeirra hefði verið af kynferðislegum toga. Um það verður ekki fullyrt eitt eða neitt hér.

Christine tekur æðiskast

Í júlí, 1933, tók Christine æðiskast og reyndi að stinga úr sér augun og var ekki annað að gera í stöðunni en að setja hana í spennitreyju. Í kjölfarið fullyrti hún að daginn örlagaríka í febrúar hefði hún fengið svipað kast og það hefði verið orsök óhæfuverkanna. Sagði hún að hún ein bæri ábyrgð á morðunum, Léa hefði hvergi komið nærri.

Í varðhaldi
Christine og Léa voru skildar að eftir handtökuna og olli það þeim verulegu hugarangri.

Christine talaði fyrir daufum eyrum enda talið að hún væri að reyna að bjarga systur sinni. 

Síðar, þegar réttað var yfir systrunum, lagði kviðdómur ekki heldur trúnað á frásögn Christine.

Áhugi almennings

Málið vakti mikla athygli í Frakklandi á sínum tíma og var mikið rætt. Var það mat margra að morðin væru afleiðing þess hvernig verkafólk væri pískað áfram og bent var á að systurnar unnu 14 klukkustunda vinnudag og fengu aðeins hálfan frídag á viku.

Þegar réttarhöldin hófust, í september 1933, dreif að múg og margmenni fyrir framan dómhúsið í Le Mans. Svo mikill var atgangurinn að lið lögreglu þurfti til að hafa hemil á áhugasömum almenningi.

„Rífðu úr henni augun“

Við réttarhöldin sögðu systurnar að rifrildi hefði hafist milli Christine og frúar Lancelin. Léa hefði síðan blandað sér í málið og Christine hefði öskrað á hana „rífðu úr henni [frú Lancelin] augun“.

Léa gerði sem systir hennar krafðist og síðan fékk heimasætan sömu útreið. Að því loknu hefði Christine farið inn í eldhús og sótt vopn til að gera út af við mæðgurnar. Flestum höggunum var beint að höfðum mæðgnanna og svo hart gengið fram að vart var nokkuð eftir sem kallast gat andlit.

Mismiklir vitsmunir

Læknar, sem báru vitni við réttarhöldin, töldu næsta víst að Christine, sem var í meðallagi vel gefin, hefði verið ráðandi í sambandi systranna og að persónuleiki Léu, sem ekki var eins vel gefin, hefði nánast runnið saman við persónuleika Christine.

Á það var bent að geðrænna kvilla hefði orðið vart í fjölskyldu þeirra og faðir þeirra hefði nauðgað elstu systurinni. Til að gera langa sögu stutta þá voru Christine og Léa á endanum sakfelldar og fékk Christine dauðadóm. Tekið var vægar á Léu sökum stöðu hennar gagnvart vitsmunalega sterkari systur og fékk Léa 10 ára dóm.

Geðveiki, þunglyndi, dauði

Dauðadómnum yfir Christine var síðar breytt í lífstíðardóm eins og gjarna tíðkaðist þegar konur áttu í hlut. Í fangelsinu sýndi hún merki um væga geðveiki auk þess sem augljóst var hve mikið hún saknaði systur sinnar. Hún lagðist í þunglyndi og átti það til að svelta sig. Að lokum var hún færð á geðsjúkrahús í Rennes þar sem hún veslaðist upp og andaðist að lokum 18. maí. 1937.

Léu var sleppt úr fangelsi eftir átta ára afplánun. Hún settist að í Nantes, bjó þar með móður sinni og fékk vinnu á hóteli undir uppdiktuðu nafni. Talið er að Léa hafi dáið árið 1982, en þeir eru þó til sem bera brigður á það.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala