fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Gamlar glæður

Leslie vildi horfa til fortíðar – Ruby beindi sjónum sínum fram á veginn

Kolbeinn Þorsteinsson
Sunnudaginn 4. mars 2018 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lengir lifir í gömlum glæðum, segir máltækið, og sú var raunin hjá Leslie Stone, 24 ára Breta, þegar hann hitti fyrrverandi kærustu sína, Ruby Keen, 23 ára, á Golden Bell-hótelinu í Bedfordshire 11. apríl 1937.

Leslie og Ruby höfðu hist sex árum fyrr og verið saman um nokkurra mánaða skeið. Hann gekk síðan í herinn og þegar hann var sendur til Hong Kong, árið 1932, skildi leiðir.

Tíminn leið, eins og gengur og gerist, og í desember fékk hann lausn úr hernum vegna heilsufars og fékk starf sem byggingaverkamaður.

Spjallað yfir drykk

Eftir að Leslie hafði kneyfað þrjá stóra bjóra og Ruby sötrað eitt portvínsglas röltu þau á Cross Keys-hótelið í Bedford og síðan þaðan á Stag-hótelið.

Það vakti athygli nærstaddra að Leslie nauðaði í Ruby að segja skilið við lögregluþjóninn sem hún var í tygjum við. Vildi Leslie að þau tækju upp þráðinn þar sem frá var horfið fimm árum fyrr.

Gengu niður göngustíg

Segir ekki af viðbrögðum Ruby, en Leslie slokaði þar í sig þremur bjórum og Ruby bætti á sig tveimur portvínsglösum og um tíu leytið þetta kvöld yfirgáfu þau Stag-hótelið.

Leið þeirra lá framhjá heimili hennar við Plantation-veg, þar sem hún deildi heimili með móður sinni, eldri systur og bróður.

Það síðasta sem sást til Leslie og Ruby þetta kvöld var þegar þau hurfu niður Firs-stíginn sem var vinsæll göngustígur meðal ungra elskenda á þessum slóðum.

Lygar Leslie

Klukkan sjö næsta morgun varð ljóst að farir þeirra höfðu ekki verið sléttar. Járnbrautastarfsmaður fann líkið af Ruby og í ljós kom að henni hafði verið nauðgað og hún kyrkt með eigin hálsklút. Kjóll hennar var rifinn frá hálsmáli og niður úr.

Eftir örlitla eftirgrennslan komst lögreglan á snoðir um fund Ruby og Leslie kvöldið áður. Aðspurður sagði Leslie að hann hefði skilið við Ruby fyrir utan Stag-hótelið klukkan stundarfjórðung yfir tíu kvöldið áður.

Þegar lögreglan fann á skóm Leslie og fatnaði leifar af jarðvegi sem var að finna á vettvangi morðsins vísaði hún frásögn hans til föðurhúsanna.

Nýjar lygar

Réttarhöld yfir Leslie Stone hófust 28. júní, 1937, í Old Bailey í London. Dómari var Gordon Hewart greifi, en þess má geta að hann settist í helgan stein árið 1940.

Í vitnastúkunni kom nýtt hljóð í strokkinn hjá Leslie. Hann sagði að hann og Ruby hefðu rifist, hún hefði fallið um koll og þá hefði kjóllinn rifnað.

Hann sór og sárt við lagði að hann hefði ekki nauðgað henni; hann hefði talið að hún væri meðvitundarlaus og mundi koma til sjálfrar sín innan skamms.

Föstudagurinn 13

Kviðdómarar í málinu voru ögn ráðvilltir varðandi eitt atriði og leituðu ráða hjá Hewart dómara; ef karlmaður verður konu að bana á meðan nauðgun á sér stað, jafnvel þegar maðurinn ætlar sér ekki að verða konunni bana, er hann þá sekur um morð?

Í huga Hewarts lék enginn vafi á réttu svari við þessari fyrirspurn og svaraði hann henni játandi. Kviðdómarar settust á rökstóla og sneru til baka 25 mínútum síðar með sektardóm í farteskinu. Hewart skellti svörtu dulunni á kollinn og dæmdi Leslie til dauða.

Það var dugnaðarforkurinn Thomas Pierrepoint sem sendi Leslie Stone yfir í eilífðina, föstudaginn 13. í ágúst 1937.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum
Pétur Einarsson látinn
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Anne Hathaway þurfti að slumma tíu menn – „Þetta hljómaði viðbjóðslega“

Anne Hathaway þurfti að slumma tíu menn – „Þetta hljómaði viðbjóðslega“
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Ten Hag hreinskilinn: ,,Hann á skilið fleiri mínútur“

Ten Hag hreinskilinn: ,,Hann á skilið fleiri mínútur“
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Opinberar ástæðuna fyrir banninu: Varð bálreiður – ,,Helvítis svindlari“

Opinberar ástæðuna fyrir banninu: Varð bálreiður – ,,Helvítis svindlari“
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Sjáðu stórkostlegt tilþrif Mbappe í gær

Sjáðu stórkostlegt tilþrif Mbappe í gær
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Gengi hans á Ítalíu gæti haft áhrif á Manchester United

Gengi hans á Ítalíu gæti haft áhrif á Manchester United
EyjanFastir pennar
Fyrir 10 klukkutímum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað ætti forseti að gera?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað ætti forseti að gera?