fbpx
Laugardagur 19.janúar 2019

Guðmundur jaki: Síðasti verkalýðsforinginn af gamla skólanum

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 18. mars 2018 15:00

Með breytingum í forystu verkalýðsfélaga, eins konar hallarbyltingum, má búast við aukinni hörku í kjarabaráttunni. Hörku sem hefur ekki sést síðan á tímum Guðmundar jaka, sem starfaði innan verkalýðsfélagsins Dagsbrúnar, forvera Eflingar, í tæpa hálfa öld. Jón Baldvin Hannibalsson, vinur Guðmundar, og Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor ræddu við DV um manninn sem stýrði hreyfingunni á umbrotatímum.

Helltu mjólkinni í allsherjarverkfalli

Fyrst kvað að Guðmundi jaka í allsherjarverkfallinu mikla sem stóð í sex vikur vorið 1955. Þessi stóri og djúpraddaði maður um þrítugt fór þá fyrir liði verkfallsvarða Dagsbrúnarmanna og olli talsverðum usla. Verkfallið var eitt það lengsta og harðvítugasta í Íslandssögunni og kom til vegna óðaverðbólgu og kjarastöðnunar verkafólks í Reykjavík. Dagsbrúnarmenn kröfðust 30 prósenta launahækkana, atvinnuleysistrygginga og fleira kjarabóta og náði margt af því fram að ganga. Guðmundur gerði nú lítið úr þessum þætti sínum í verkfallinu með sinni einstöku kímni í þætti hjá Hemma Gunn: „Ég hafði 400 manna her undir vopnum. Lögreglan hafði 110.“

Þjóðviljinn, 22. janúar 1955.
Verkfallið 1955: „Menn lögðu ekkert svo glatt í hann“ Þjóðviljinn, 22. janúar 1955.

Jón Baldvin segir: „Hann varð alræmdur í verkalýðshreyfingunni á þessum tíma. Stór og mikill og menn lögðu ekkert svo glatt í hann. Það slóst í brýnu, sér í lagi í tengslum við mjólkurflutningana inn í bæinn. Framsóknarmenn, sem höfðu einokun á mjólk, reyndu að stöðva verkfallið en þá var mjólkinni hellt niður sem þótti syndsamlegt athæfi. Guðmundur var auðvitað umdeildur og sumir töldu hann ganga fram með ofbeldi og taka völdin í sínar hendur.“
Guðmundur Jóhann Guðmundsson var fæddur árið 1927 í Reykjavík og ólst upp í verkamannabústöðunum sem Héðinn Valdimarsson, formaður Dagsbrúnar til margra ára og fyrirmynd Guðmundar, lét reisa. Hann var sonur Guðmundar H. Guðmundssonar sjómanns og Solveigar Jóhannsdóttur húsmóður. Sem barn sá hann atvinnuleysi og fátækt með eigin augum og hann færði föður sínum kaffi þegar hann fékk aðeins atvinnubótavinnu. Þetta sveið honum og átti eftir að marka líf hans og feril alla tíð.

Í sjónvarpsviðtali sagði hann: „Það sem mótar mann er hatrið á atvinnuleysinu, misréttinu, fátæktinni og svo þessum ömurlegu húsakynnum. Maður fór að HATA þetta ástand.“

Jakahlaupari og fyrirmynd Krists

Margir halda að Guðmundur hafi fengið viðurnefnið jaki vegna vaxtarlagsins og hins djúpa róms. Hið rétta er að nafnið Guðmundur jaki eða Gvendur jaki festist við hann 12 ára eftir að hann varð Reykjavíkurmeistari í svokölluðu jakahlaupi á Tjörninni. Jakahlaup var þegar ungir drengir hjuggu til ísjaka og fleyttu á Tjörnina, stukku og hlupu svo milli jaka til að komast yfir. Vitaskuld duttu margir ofan í ískalt vatnið á þeirri vegferð.

Guðmundur var afar hraustur, ungur maður, efnilegur í íþróttum og stæltur. Hann stundaði nám í Gagnfræðaskólanum á árunum 1941 til 1944 og fór svo beint í verkamannavinnu. Í eitt skipti var hann í hópi verkamanna í garðinum hjá Einari Jónssyni myndhöggvara þegar upp kom óhefðbundið atvinnutilboð. Guðmundur sagði:

„Ég var nú átján ára gamall og með annað og betra vaxtarlag. Einar var lengi búinn að vappa þarna um kring og skoða menn. Þetta var að sumri eða haustlagi og við vorum naktir að beltisstað. Allt í einu rölti hann til verkstjórans og benti á mig og verkstjórinn kom til mín og sagði að hann vildi fá mig sem módel. Ég hrökk nú við þegar ég var settur á stall og fékk að vita að það var Jésú Kristur sem var fyrirmyndin.“ Verkið var stytta af frelsaranum sem enn þá stendur í Hallgrímskirkju.

Tíminn, 22. nóvember 1997.
Óskoraður foringi verkalýðshreyfingarinnar Tíminn, 22. nóvember 1997.

Reis í Dagsbrún en flæmdur úr Alþýðubandalaginu

Guðmundur spratt ekki upp úr engu vorið 1955. Þá hafði hann starfað í Dagsbrún í tvö ár, verið forseti Æskulýðsfylkingarinnar og í miðstjórn Sósíalistaflokksins. Síðar gekk hann í Alþýðubandalagið og sat sem borgarfulltrúi og svo sem varaforseti Dagsbrúnar í tuttugu ár uns hann tók við formennskunni árið 1982. Einnig sat hann á Alþingi fyrir Alýðubandalagið á árunum 1979 til 1987. Þegar komið var fram á níunda áratuginn var hann óskoraður foringi íslensks verkafólks, holdgervingur baráttunnar og sumir segja síðasti foringinn af gamla skólanum.
Jón Baldvin segir: „Hann var fyrirferðarmikill og aðsópsmikill og verkalýðshreyfingin varð svo öflug að aðrir urðu að taka tillit til hennar. Það er ekki þar með sagt að hún hafi náð miklum árangri í kjarabaráttu því þetta var verðbólguþjóðfélag og gengið var sífellt fellt til að lækka launin aftur.“

Þegar ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar, 1974 til 1978, greip inn í kjarasamninga stóð verkalýðshreyfingin með Alþýðubandalaginu og Alþýðuflokknum sem unnu mikinn kosningasigur árið 1978. Það var á þeim tíma sem Guðmundur fór inn á þing en þar fann hann sig ekki.

Ólafur segir: „Þar lenti hann í átökum og það var unnið gegn honum innan flokksins. Undir lokin var hann hálfpartinn flæmdur í burtu. Guðmundur og Albert Guðmundsson voru miklir vinir, þótt þeir væru hvor í sínum flokknum. Svo kom upp mál þar sem kom í ljós að Albert hafði gefið Guðmundi pening til að hann kæmist á spítala í Bandaríkjunum. Þetta þótti ýmsum í Alþýðubandalaginu ekki nógu fínt.“

Að sögn bæði Jóns Baldvins og Ólafs efnaðist Guðmundur aldrei á störfum sínum í forystu Dagsbrúnar eða á þingi. „Undir lokin var hann orðinn staurblankur,“ segir Jón.

Alþýðublaðið 22. janúar 1997.
Vinirnir Jón Baldvin og Gvendur jaki Alþýðublaðið 22. janúar 1997.

Varð mýkri með árunum

Þó að Guðmundur hafi komið fram á sjónarsviðið á miklum átakatímum í verkalýðshreyfingunni og gengið þar harðast fram sjálfur í verkföllum þá lagði hann einnig grunninn að mesta rólyndistímabili í atvinnulífssögu 20. aldar. Hann var einn af þeim sem lögðu grunninn að svokallaðri þjóðarsátt árið 1990 þar sem ekki var samið um launahækkanir sem slíkar heldur myndað kerfi til að halda utan um kaupmáttinn.

Jón Baldvin segir: „Mín skoðun er sú að hann hafi verið orðinn ágætis sósíaldemókrati undir lokin. Við töluðum nú um það hvort hann vildi ekki ganga í Alþýðuflokkinn til að ljúka þessum hring en hann lét nú aldrei verða af því. En hann var góður vinur okkar kratanna.“

Ólafur tekur undir það. „Eins og oft var með þessa eldri menn í verkalýðshreyfingunni þá líkaði honum áreiðanlega ekki aukin áhrif menntamanna og nýrrar vinstrikynslóðar í Alþýðubandalaginu. Hann var menningarlega íhaldssamur að þessu leyti.“

„Svo kom upp mál þar sem kom í ljós að Albert hafði gefið Guðmundi pening til að hann kæmist á spítala í Bandaríkjunum. Þetta þótti ýmsum í Alþýðubandalaginu ekki nógu fínt.“

Bragur verkalýðsforystunnar breyst með aukinni menntun

Alla tíð var Guðmundur jaki mjög vinsæll maður, kom vel fram í viðtölum og þótti bæði alþýðlegur og hnyttinn. Segja mætti að hugtakið landsföðurlegur ætti vel við um hann.

Ólafur segir: „Hann var ekki síst vinsæll hjá andstæðingum sínum. Því hann þótti heill og góður karl. Hann gat verið mjög fyndinn og afskaplega vel máli farinn. Hann var góður sögumaður, hlýr og elskulegur persónuleiki sem skipti auðvitað máli þegar kom að persónulegum samskiptum.“

Hvað þætti honum um verkalýðsforystuna á síðari tímum?

„Hann myndi ábyggilega sakna þess að í verkalýðsforystunni væru verkamenn. Þegar hann var að hefja sín störf var forystan skipuð körlum sem áttu bakgrunn í hreyfingunni og voru ekki langskólagengnir en oft mjög greindir. Með aukinni skólagöngu þjóðarinnar hefur bragur verkalýðsforystunnar breyst.“

Guðmundur lést sjötugur að aldri árið 1997. Hann lét eftir sig eiginkonu, Elínu Torfadóttur fóstru, og fjögur uppkomin börn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433
Fyrir 1 klukkutíma

Sjáðu atvikið: Fékk tækifæri gegn Liverpool en gerði hörmuleg mistök

Sjáðu atvikið: Fékk tækifæri gegn Liverpool en gerði hörmuleg mistök
Fréttir
Fyrir 1 klukkutíma

Spurning vikunnar: Hvert myndir þú ferðast ef þú gætir farið hvert sem er?

Spurning vikunnar: Hvert myndir þú ferðast ef þú gætir farið hvert sem er?
Fókus
Fyrir 2 klukkutímum

Lifum lengur – Helga Arnarsdóttir fjallar um heilsu á mannamáli

Lifum lengur – Helga Arnarsdóttir fjallar um heilsu á mannamáli
Matur
Fyrir 3 klukkutímum

Kjúklingarétturinn sem bjargar helginni

Kjúklingarétturinn sem bjargar helginni
433
Fyrir 4 klukkutímum

Byrjunarlið Manchester United og Brighton – Verða þeir sjö?

Byrjunarlið Manchester United og Brighton – Verða þeir sjö?
Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Harðvítugar deilur um gosbrunn – „Peningar teknir frá þeim fátækustu“

Harðvítugar deilur um gosbrunn – „Peningar teknir frá þeim fátækustu“
Pressan
Fyrir 6 klukkutímum

Bannaður fyrir lífstíð fyrir fáránlegt uppátæki í skemmtiferðaskipi – Sjáðu myndbandið

Bannaður fyrir lífstíð fyrir fáránlegt uppátæki í skemmtiferðaskipi – Sjáðu myndbandið
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Hélt að hann myndi fá tækifæri hjá Emery en var svo seldur

Hélt að hann myndi fá tækifæri hjá Emery en var svo seldur