fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Lyfjafræðingurinn Sigurður varð sér, eiginkonu sinni og þremur börnum að bana

Harmleikurinn á Suðurgötunni

Einar Þór Sigurðsson
Þriðjudaginn 6. febrúar 2018 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Fyrir bitur örlög er öll þessi myndarlega fjölskylda kvödd samtímis,“ sagði í minningargrein í Morgunblaðinu um lyfjafræðinginn Sigurð Magnússon. Sigurði var lýst sem hlédrægum, gáfuðum og vinsælum einstaklingi sem þó endaði ævi sína – og fjölskyldu sinnar – á skelfilegan hátt á Suðurgötunni í Reykjavík einn vetrardag í febrúar 1953.

Lá enn í rúmi sínu

Fjölskyldan var búsett í Dillonshúsi á Suðurgötu 2 en um þetta leyti starfaði Sigurður, sem var 35 ára, sem lyfjafræðingur í Reykjavíkur Apóteki. Kona hans, Hulda Karen Larsen, var 32 ára og börn þeirra þrjú, Magnús 6 ára, Sigríður 4 ára og Ingibjörg 3 ára. Á heimilinu bjó einnig systir Huldu Karenar, Ásdís að nafni, og hafði hún farið til vinnu um níu leytið þennan örlagadag. Um það leyti var Hulda að gera sig klára fyrir daginn; börnin voru að klæða sig en Sigurður lá enn í rúmi sínu.

Allir látnir

Nokkrum klukkustundum síðar, eða í hádeginu, kom móðir Huldu inn í húsið og blasti þá við henni hryllileg sjón. Allir í þessari ungu og fallegu fjölskyldu voru látnir. Rannsókn lögreglu hófst strax og fljótlega beindist grunur lögreglu að því að fjölskyldan; Sigurður, Hulda og börn þeirra þrjú hefðu látist af völdum eitrunar. Á náttborði Sigurðar fannst glas sem merkt var eitur og bréf sem hann hafði skrifað. Í frétt Alþýðublaðsins, daginn eftir þennan voveiflega atburð, var vísað í bréf sem sakadómari lét blaðið hafa. Um bréfið sem Sigurður skildi eftir sig segir meðal annars:

„Á náttborði húsbóndans var glas merkt: Eitur, og bréf hafði hann látið eftir sig til Ásdísar þar sem hann skýrir frá því að hann, sem undanfarið hefur verið meira og minna sjúkur, hafi í örvilnan náð í eitur, sem hann hafi gefið þeim öllum og verði þau dáin þegar að þeim verði komið. Kveðst hann ekki geta skilið börnin og konuna eftir.“

Hér má sjá stutta minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu um Sigurð.
Minningargrein Hér má sjá stutta minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu um Sigurð.

Lágu hlið við hlið í fötunum

Í umfjöllun Alþýðublaðsins kom fram að móðir Huldu, sem búsett var í Ytri-Njarðvík, hafi komið að fjölskyldunni í hjónarúminu þar sem fimmmenningarnir lágu hlið við hlið í fötum. „Þykir ekki fara á milli mála, að öll hafi þau látizt mjög fljótlega af völdum eitursins. Hins vegar var ekki vitað, hvaða eiturtegund hafi verið um að ræða.“
Síðar kom í ljós að eitrið í flöskunni var kamfórublanda sem einnig innihélt blásýru. Var talið fullvíst að Sigurður hefði fengið lyfin í tengslum við vinnu sína sem lyfjafræðingur. Af þeim sökum var talið fullvíst að hann hefði skipulagt ódæðið.

Það, hvað varð til þess að ungur maður í blóma lífsins ákvað að svipta sig lífi og drepa fjölskyldu sína í leiðinni, var tilefni til vangaveltna á sínum tíma. Sigurður var fæddur árið 1918, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1937 og lokaprófi í lyfjafræði frá Philadelphiu árið 1943. Ári síðar var hann ráðinn til starfa í Reykjavíkur Apótek þar sem hann starfaði allt til dauðadags.

Þjáðist af heilabólgu

Í bókinni Ísland í aldanna rás segir að svo virðist sem Sigurður hafði þjáðst af heilabólgu, sjúkdómi sem orsakast yfirleitt af veirusýkingu. Sjúkdómnum getur fylgt mjög slæmur höfuðverkur, hnakkastífleiki, hiti og minnkuð meðvitund. Í dag er hægt að eiga við sjúkdóminn með því að gefa veirulyf í æð en á þessum árum var erfiðara að fá meina sinna bót – og virðist sjúkdómurinn hafa lagst þungt á Sigurð. Í umfjöllun bókarinnar, sem Morgunblaðið vitnaði til í umfjöllun sinni, fyrir nokkrum árum, kemur fram að heilabólga geti í sumum tilfellum leitt til geðrænna kvilla. Hvað nákvæmlega amaði að Sigurði er ekki að fullu vitað; hvort hann hafi glímt við geðræn veikindi, óháð heilabólgunni, eða ekki. Hann hafði þó dvalið á sjúkrahúsi um nokkra hríð áður en hann lést og af lýsingum á þessum tíma má ætla að hann hafi þjáðst af alvarlegu þunglyndi. Þannig var jafnvel talið nauðsynlegt að lögreglumaður vekti yfir honum svo hann yrði ekki sjálfum sér og öðrum að skaða. Eftir sjúkrahússleguna virtist Sigurður vera að komast yfir veikindin.

Ein minningargrein birtist um Sigurð í Morgunblaðinu þann 4. mars árið 1953 og var hún merkt ónefndum starfsbróður hans. Í greininni sagði meðal annars að hann hefði verið einarður í skoðunum, kíminn og það hafi átt sinn þátt í vinsældum hans meðal samstarfsfólks. „Hann fékk lyfsöluleyfi fyrir tveimur árum, en gat ekki hagnýtt sér það vegna veikinda. Og nú, þegar ættingjar og vinir þóttust sjá fram á fulla heilsu – þá er hann farinn. Það er mikill mannskaði að mönnum eins og Sigurði Magnússyni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Langskotið og dauðafærið – Græðir þú pening um helgina?

Langskotið og dauðafærið – Græðir þú pening um helgina?
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Hrafnkell telur að margir sérfræðingar hafi „prjónað yfir sig“

Hrafnkell telur að margir sérfræðingar hafi „prjónað yfir sig“
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Dæmd fyrir líkamsárás á hvort annað

Dæmd fyrir líkamsárás á hvort annað
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Þetta stendur á veggnum þegar leikmenn City fara á æfingar

Þetta stendur á veggnum þegar leikmenn City fara á æfingar
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Varpa fram kenningu um hvarf Émile sem gæti kollvarpað rannsókninni

Varpa fram kenningu um hvarf Émile sem gæti kollvarpað rannsókninni
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Hrútur varð hjónum að bana – Nágrönnum mjög brugðið

Hrútur varð hjónum að bana – Nágrönnum mjög brugðið