fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024

Læknirinn sem talaði of mikið/Málglaði læknirinn

Ritstjórn DV
Laugardaginn 22. desember 2018 14:28

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Robert Buckanan (Buchanan) fæddist í Nova Scotia í Kanada árið 1862. Ekki verður hér dvalið við bernsku hans en skotist 24 ár fram í tímann, til ársins 1886.

Það ár, eftir að hafa numið læknisfræði við Edinborgar-háskóla í Skotlandi, flutti Buckanan ásamt eiginkonu sinni, Helen, og ungri dóttur þeirra, til New York-borgar þar sem hann opnaði eigin læknastofu í New York-borg. Þrátt fyrir að hann verði nánast öllum sínum frítíma á krám og í vændishúsum afrekaði hann að halda úti nokkuð farsælli læknastofu.

Skilnaður og gifting

Samkvæmt sumum heimildum skildi Buckanan við Helen á sumarmánuðum 1890. Samkvæmt öðrum heimildum, sem notaðar verða hér, skildi hann við eiginkonu sína 12. nóvember það ár. Sautján dögum síðar kvæntist hann Önnu Sutherland.

Anna þessi var tuttugu árum eldri en Buckanan og var farsæl framkvæmdastýra hóruhúss í Newark á New Jersey. Ætla má að kynni hafi tekist með þeim tveimur í einni fjölmargra heimsókna læknisins í slík hús.

Anna hafði ekki útlitið með sér; hún var lágvaxin og feit með litað hár, appelsínugult, og stóra vörtu á nefbroddinum.

Feluleikur læknisins

Buckanan sá þó einn mikinn kost við kvonfangið; Anna var vellauðug og á meðal auðæfa hennar voru 50.000 Bandaríkjadalir, sem læknirinn taldi hana á að ánafna honum í erfðaskrá hennar.

Læknirinn
Ágirntist 50.000 dali síðari eiginkonu sinnar.

Hjónakornin komu sér fyrir í íbúð við West 11.-stræti í New York, en Buckanan lagði sig í líma við að halda hjónabandinu leyndu og telja fólki trú um að Anna væri aðeins ráðskona hans. Anna gerðist síðar móttökustjóri á læknastofu eiginmanns síns.

Með tíð og tíma spurðist út að Anna væri eiginkona læknisins og fyrrverandi pútnahússstýra í þokkabót og fólk fór að leita til annarra lækna. Fyrir vikið tók innkoma Buckanan mikla dýfu.

Óþolandi herfa

Að sögn ríkti lítill friður á heimili hjónanna. Þau rifust eins og þeim væri borgað fyrir það og undir lok árs 1891 hótaði Anna að yfirgefa lækninn. Þann vetur var ljóst að Buckanan hugnaðist ekki hvaða stefnu hjónabandið hafði tekið og hafði hann á orði við vini sína að „gamla herfan“ væri óþolandi og hann yrði „losna við hana, hvað sem það kostaði“.

Þann 21. apríl, 1892, tilkynnti Buckanan að hann hygðist sigla til Skotlands og yrði einn í för. Fjórum dögum fyrir fyrirhugaða brottför hætti hann við vegna veikinda eiginkonu sinnar.

Kvænist fyrri eiginkonu sinni

Buckanan kallaði til tvo lækna til að koma Önnu til heilsu, en allt kom fyrir ekki og heilablóðfall varð henni að bana. Þremur vikum síðar kvæntist Buckanan fyrri eiginkonu sinni, Helen, í Nova Scotia og var þá 50.000 Bandaríkjadölum ríkari enda eini erfingi Önnu.

Saga þessi kynni að hafa endað þegar þarna var komið sögu, en sú varð ekki raunin. Í maí, 1892, ákvað blaðamaður í New York að skoða dauðsfall Önnu eftir að hafa heyrt orðróm þess efnis að ekki hefði allt verið þar með felldu. Vinir Önnu voru meðal annars sannfærðir um að henni hefði verið byrlað eitur.

Blaðamaður fer á stúfana

Blaðamaðurinn, Ike White, hóf að grafast fyrir um málið og á meðal þess sem hann hnaut um voru orð sem Buckanan hafði látið falla tveimur árum áður. Þá hafði verið réttað yfir læknanema að nafni Carlyle Harris. Hann var ákærður fyrir að hafa banað unnustu sinni með eitri. Í fyrstu hafði verið talið að banamein hennar hefði verið slag, en depilblæðingar á sjáöldrum hennar leiddu til frekari rannsóknar og í ljós kom að henni hafði verið gefinn banvænn skammtur af morfíni. Harris var sakfelldur og dæmdur til dauða.

Lík Önnu grafið upp

Buckanan hafði fylgst með málinu af miklum áhuga og iðulega talað um Harris sem „klaufskt fífl“ og „heimskan amatör“. Hafði Buckanan gortað sig af að geta fyrirbyggt að einkenni eitrunar kæmu fram við líkskoðun. Það gæti hann gert með því að setja atrópín í augu fórnarlambsins, en atrópín er unnið er úr jurtinni völvuauga sem einnig er nefnd sjáaldursjurt.

Vegna þess sem White hafði komist á snoðir um hóf hann herferð fyrir því að lík Önnu yrði grafið upp, enda ekki öll kurl komin til grafar að hans mati.

Honum varð að ósk sinni og viti menn; rannsókn leiddi í ljós leifar af morfíni í líffærunum og Buckanan var ákærður fyrir morð.

Tekist á um réttarvísindi

Fljótlega eftir að réttarhöld yfir Buckanan hófust varð ljóst að málflutningur myndi að stærstum hluta byggja á réttarvísindum, sem þá voru ný af nálinni.

Sjáaldursjurt
Einnig þekkt sem völvuauga og kom við sögu í réttarhöldunum.

Sækjendur og verjendur tefldu fram sínum sérfræðivitnum sem kepptust við að bera brigður á vitnisburð hver annars. Gripið var til þess ráðs að koma með kött í réttarsalinn og honum gefið morfín. Síðan var atrópín sett í augu kisa og kviðdómarar fengu að sjá með eigin augum áhrif þess – augu kattarins þöndust út.

Saksóknarinn notaði tækifærið og minnti á það sem áður hafði komið fram; að hjúkrunarkona hafði séð Buckanan beygja sig yfir fárveika eiginkonu sína og setja eitthvað í augu hennar.

Vörn snúið í sókn

Útlit var fyrir að ákæruvaldið væri með unnið mál í höndunum, en aðallögfræðingur Buckanan, William O’Sullivan, hafði verið læknir áður en hann sneri sér að lögfræði.

Hann kallaði fyrir höfuðvitni ákæruvaldsins, Rudolph Witthaus prófessor, og, með því sem virtust sárasaklausar spurningar, tókst að rugla það í ríminu og láta það mála sig út í horn. Síðan kallaði O’Sullivan fyrir sinn eigin sérfræðing sem rak smiðshöggið á vörn hans.

Þögull sakborningur

Þegar þarna var komið sögu gat brugðið til beggja vona fyrir Buckanan og reyndar líklegra að hann yrði sýknaður. Hann hafði verið þögull öll réttarhöldin, og nánast líkari áhorfanda en sakborningi. O’Sullivan varð hugsað til réttarhaldanna yfir Harris. Þá hafði honum, líkt og fjölmörgum kollega hans, fundist sú ákvörðun Harris að bera ekki vitni hafa unnið verulega gegn honum. Hann hugðist ekki gerast sekur um slík mistök og taldi Buckanan á að bera vitni.

Málglaður sakborningur

Í ljós kom að það var afar misráðið. Buckanan birtist kviðdómi sem sjálfumglaður vælukjói og versnaði bara þegar hann var gagnspurður af sækjandanum, Francis Wellman. Þegar upp var staðið hafði Buckanan hvort tveggja svarað með lygum og komist í fullkomna mótsögn við sjálfan sig. Hann nánast haltraði þegar hann yfirgaf vitnastúkuna.

Áfrýjun
Rafmagnsstóllinn varð síðasta sæti Buckanan.

Kviðdómur dró sig í hlé 25. apríl og eftir 28 klukkustundir á rökstólum varð niðurstaða hans að Buckanan væri sekur.

Árangurslaus áfrýjun

Buckanan var dæmdur til dauða og var dómnum áfrýjað og byggði áfrýjunin á að áhöld væri um þau vísindalegu sönnunargögn sem lögð voru fram við réttarhöldin. Witthaus prófessor, sem fannst hann hafa verið niðurlægður við réttarhöldin, hafði lagst í mikla vinnu og taldi sig reiðubúinn til að hnekkja umræddum sönnunargögnum.

Buckanan reið ekki feitum hesti frá áfrýjuninni og 2. júlí, 1895, settist hann í rafmagnsstólinn í Sing Sing-fangelsinu í New York-ríki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Allir þrír leikmenn klárir fyrir United

Allir þrír leikmenn klárir fyrir United
Eyjan
Fyrir 8 klukkutímum

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum
Stöð 2 lækkar verð
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Segja Zidane nálægt því að taka að sér óvænt starf

Segja Zidane nálægt því að taka að sér óvænt starf
Eyjan
Fyrir 9 klukkutímum

Ólafur Þ. Harðarson: Kosningarnar nú minna mjög á kosningarnar 1980 – spurningin hvort kjósendur kjósa taktískt

Ólafur Þ. Harðarson: Kosningarnar nú minna mjög á kosningarnar 1980 – spurningin hvort kjósendur kjósa taktískt
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Segir ráðamönnum að skammast sín – „Hversu aumt getur sálartetur þessa ofurlaunafólks verið?“

Segir ráðamönnum að skammast sín – „Hversu aumt getur sálartetur þessa ofurlaunafólks verið?“
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Verk og vit sett með pomp og prakt

Verk og vit sett með pomp og prakt
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Baldur um ófrægingarherferð gegn sér: „Þetta hefur engin áhrif á okkur Felix“

Baldur um ófrægingarherferð gegn sér: „Þetta hefur engin áhrif á okkur Felix“