Morðið í miðasölunni


Ritstjórn DV
Sunnudaginn 21. október 2018 21:00

Ash Vale-járnbrautarstöðin Vettvangur síðasta glæps James Alcott.

 Ætla mætti að þeir sem hyggja á rán láti lítið fyrir sér fara á meðan þeir kanna aðstæður. Járnbrautaslökkviliðsmaðurinn James John Alcott hafði þveröfugan hátt á þegar hann skoðaði Ash Vale-járnbrautastöðina skammt frá Aldershot á Englandi þar sem sem hann hafði ákveðið að láta til skarar skríða í ágúst 1952.

Þann 20. ágúst fór James í miðasöluna og spurðist fyrir um ferðir til Dover. Síðan hékk hann á stöðinni og var eftir því tekið hve mikinn áhuga hann virtist hafa á því sem þar fór fram.

Hinn rólegasti

Næsta dag var hann mættur í morgunsárið og tyllti sér niður í vistarverum burðarmannanna, sem þá var auð. Einn burðarmaður sem átti þangað erindi kom að James þar sem hann sat hinn rólegasti og skóf undan nöglum sínum með dálki. Dálkinn sagðist James hafa keypt handa frænda sínum.

James Alcott
Var ekki undrandi þegar hann var handtekinn.

Um kvöldið var James mættur enn eina ferðina. Þá masaði hann við starfsfólk í tvo tíma.

Hann framvísaði skilríkjum Bresku járnbrautanna, gaf upp nafn sitt og sagðist vera slökkviliðsmaður þeirra.

Fékk far heim

James bað um leyfi til að nota símann í miðasölunni; hann vildi athuga með líðan kollega síns, sem hafði slasast. Það var auðsótt mál og að símtali loknu sagði hann við gjaldkera á járnbrautarstöðinni að hann væri í fríi, á leið til Frakklands með eiginkonu sinni.

Gjaldkerinn var önnum kafinn við að ganga frá kvittunum og þvíumlíku og fylgdist James grannt með. Að vakt sinni lokinni bauð hann James far á mótorhjóli sínu til Aldershot, sem hann þáði.

Ljós síðla kvölds

Þann 22. ágúst kom James á stöðina og til hans sást þar sem hann var í símanum í miðasölunni. Stundarfjórðung í átta sagði Geoffrey Dean miðasali við kollega sinn að hann væri að fara að loka, en hann færi þó ekki alveg strax: „Ég þarf að koma skikk á bókhaldið.“

Um klukkustund síðar sá undirliðþjálfi í hernum að, þrátt fyrir að hlerar væru fyrir glugga, enn var ljós í miðasölunni. Hann bankaði í glerið en fékk engin viðbrögð þrátt fyrir að hann heyrði mannamál berast út af henni en hugsaði ekki frekar um það og hvarf á braut.

Margar stungur og mikið blóð

Um klukkustund síðar vakti sama ljós athygli ungs burðarmanns og ákvað hann að segja Geoffrey að kominn væri tími til að fara heim. Mikil var undrun hans þegar hann komst að því að dyrnar að miðasölunni voru læstar innan frá og ekki nokkur leið að sjá þar inn. Fyrir ofan dyrnar var lítill hálfmánalagaður gluggi og með því að hífa sig upp gat burðarmaðurinn kíkt inn um hann. Sá hann þá hvar Geoffrey lá á gólfinu í blóðpolli.

Lögreglan var kölluð til og eftir að hafa brotist inn á skrifstofuna var liðsmönnum hennar ljóst að Geoffrey yrði ekki bjargað. Hann hafði verið stunginn mörgum sinnum og skrifstofunni umturnað.

Gistihús könnuð

Ekki var að undra að nafn James Alcott bæri á góma í samtölum lögreglu og starfsmanna járnbrautarstöðvarinnar, enda hafði maðurinn verið eins og grár köttur á stöðinni, þar á meðal í miðasölunni.

Líkið í miðasölunni
Miðasalinn Geoffrey Dean varðist ræningjanum, en allt kom fyrir ekki.

Í ljósi þess beindist grunur lögreglunnar nánast eingöngu að James og þegar morgnaði kannaði hún gistihús í grenndinni. Fljótlega hljóp á snærið því í gistihúsi við Victoria Road í Aldershot fengust þær upplýsingar að J.J. Alcott hefði tekið herbergi á leigu kvöldið áður og hygðist vera út vikuna. Hann var reyndar ekki inni við þegar þar var komið sögu, en kæmi heim fyrir lokun, klukkan 23.15.

Nýr alklæðnaður

Við leit á herbergi James fannst blóðugur jakki hans á rúminu. Í einum jakkavasanum var blóðugt veski, með bresku vegabréfi í og tveir peningaseðlar með blóðslettum á. Dálkinn fann lögreglan þar sem hann hafði verið falinn í eldstæðisloftrásinni. Við leit utandyra fundust buxur James í runna í nágrenninu.

Þegar James kom á gistihúsið um klukkan ellefu varð ljóst að hann hafði keypt ýmislegt þann daginn. Hann klæddist nýjum jakka, nýjum buxum og skórnir voru einnig nýir. Gömlu skórnir fundust síðar hjá skósmiði nokkrum.

Í sjálfu sér þurfti ekki frekari vitnanna við og sú varð raunin.

Borðleggjandi mál

Þegar James voru sýndir peningaseðlarnir sem fundust í blóðugum jakka hans, sagði hann. „Já, þetta er einhver hluti peninganna.“ Síðan bætti hann við að hann kærði sig eiginlega ekki um þá, því hann ætti sjálfur peninga fyrir fríið.

„Það var ljóst að þið mynduð ná mér. Við tókumst harkalega á og þið finnið fingraför mín úti um allt,“ sagði James og málið taldist upplýst.

Rannsókn lögreglunnar leiddi, henni til mikillar undrunar, í ljós að þetta var ekki í fyrsta sinn sem James hafði orðið manni að bana. Hann hafði sem breskur hermaður verið í Þýskalandi árið 1949 og hafði þá verið dreginn fyrir herrétt fyrir að hafa banað almennum, þýskum borgara.

Annar dauðadómur

Breska krúnan hafði þá hafnað að staðfesta dauðadóm yfir James og honum sleppt um síðir. Við réttarhöld yfir James vegna morðsins á Geoffrey var annað uppi á teningnum og niðurstaðan í Surrey í nóvember 1952 var dauðadómur. Í það skipti var dómnum fullnægt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 5 klukkutímum

Andri Snær vill að erlent afgreiðslufólk tali íslensku – Þór segir að íslenskunni sé sýnd vanvirðing

Andri Snær vill að erlent afgreiðslufólk tali íslensku – Þór segir að íslenskunni sé sýnd vanvirðing
433
Fyrir 6 klukkutímum
Atli Arnarson í HK
433
Fyrir 6 klukkutímum

Höttur og Huginn sameinast – Laust sæti í 3.deildinni

Höttur og Huginn sameinast – Laust sæti í 3.deildinni
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Ferguson brjálaðist eftir ákvörðun Van Nistelrooy – Hótaði að opna dyrnar og hleypa stuðningsmönnum inn

Ferguson brjálaðist eftir ákvörðun Van Nistelrooy – Hótaði að opna dyrnar og hleypa stuðningsmönnum inn
Eyjan
Fyrir 7 klukkutímum

Fyrstu kaupendum fer fjölgandi

Fyrstu kaupendum fer fjölgandi
433
Fyrir 7 klukkutímum

Vill ekki enda ferilinn á Emirates – Vonast til að gera það sama og Frei

Vill ekki enda ferilinn á Emirates – Vonast til að gera það sama og Frei
433
Fyrir 8 klukkutímum

Svona var Rodgers rekinn frá Liverpool – ,,Ég þurfti að taka þessu“

Svona var Rodgers rekinn frá Liverpool – ,,Ég þurfti að taka þessu“
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

„Ég er ekki hissa að ég hafi verið kallaður lygari í 30 ár“

„Ég er ekki hissa að ég hafi verið kallaður lygari í 30 ár“
Pressan
Fyrir 9 klukkutímum

Tvö börn dóu í hræðilegu slysi: Saksóknarar varpa ljósi á hrikalegt ráðabrugg föðurins

Tvö börn dóu í hræðilegu slysi: Saksóknarar varpa ljósi á hrikalegt ráðabrugg föðurins
433
Fyrir 9 klukkutímum

Wenger: Ég er orðinn pirraður

Wenger: Ég er orðinn pirraður