Mamman með sakaskrá – Skartgriparæningjarnir

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 28. júní 2018 21:00

Christopher DiMeo Enginn nýgræðingur í afbrotum.

Fjölskyldufyrirtæki hafa gjarna einhvern ljóma yfir sér, ekki síst þau sem hafa verið í eigu sömu fjölskyldu kynslóð fram af kynslóð. Upp að vissu marki má segja að starfsemi Christophers DiMeo og kærustu hans, Nicole Pearce, sem bæði voru 23 ára, hafi flokkast sem fjölskyldufyrirtæki því móðir Christophers, MaryAnn Taylor, lagði einnig sín lóð á vogarskálarnar.

Reyndar varð starfsemin ekki langlíf; stóð yfir í nokkra mánuði, í kringum áramótin 2004/2005, og kostaði þrjú mannslíf.

Úr innbrotum í rán

Um tveggja mánaða skeið stóðu ungmennin og mamman í stórræðum. Í fíkniefnavímu rændu þau hverja skartgripaverslunina á fætur annarri og hver hafði sitt hlutverk.

Reyndar hafði starfsemin einskorðast við hefðbundin innbrot áður, en arðgreiðslur munu ekki hafa réttlætt þann vettvang og því var starfsemin uppfærð.

Kynntust á lögreglustöð

Christopher var enginn nýgræðingur þegar kom að glæpum. Hann hafði setið inni í þrjú ár vegna ráns og státaði einnig af nokkrum sakfellingum fyrir innbrot og höndlun með stolið góss.

 

Nicole Pearce
Kannaði aðstæður í aðdraganda ránanna.

Christopher og Nicole voru bæði á reynslulausn þegar leiðir þeirra lágu saman, reyndar á lögreglustöð í San Diego þar sem ætlunin var að skrá sig hjá skilorðsfulltrúa.

Þau komust að þeirri niðurstöðu að þau vildu frekar blanda geði við hvort annað en skilorðsfulltrúann og stungu af. Þau tóku bifreið afa og ömmu Christophers ófrjálsri hendi og brunuðu til New York og rændu nokkrar verslanir á leiðinni.

Mamman með sakaskrá

Í nóvember 2004, eftir að hafa brotist inn í nokkur hús á Long Island og í Connecticut, ákváðu þau að stækka við sig á austurströndinni og fá móður hans með sér í lið.

MaryAnn hafði eignast Christopher 17 ára að aldri. Hann hafði að mestu alist upp hjá móðurforeldrum sínum og móðir hans verið meira eins og eldri systir. Sjálf hafði MaryAnn ekki hreinan skjöld og hafði á sakaskrá sinni þjófnaði og ávísanafals.

Í einu innbrotinu komst Christopher yfir skammbyssu sem hann svo síðar notaði í skartgripaverslununum.

Bonnie og Clyde og mútta

Verkaskipting var með þeim hætti að Nicole fór í skartgripaverslanirnar, kynnti sér skipulag, fjölda starfsmanna og staðsetningu þess. Síðan stormaði Christopher inn, veifandi skammbyssu og lét greipar sópa.

Mamma
Ók gjarna flóttabílnum eftir ránin.

MaryAnn fékk það hlutverk að keyra flóttabílinn, en var að auki sett í að kanna aðstæður í minni verslunum sem voru sennilega berskjaldaðri en þær stærri.

Aðallega sat hún þó undir stýri með annan fótinn kláran við bensíngjöfina á meðan drengurinn hennar sinnti sínu inni í skartgripaverslununum.

Einn lögreglumaður í morðdeildinni í New York hafði á orði að þau væru ekki eins og alræmda parið Bonnie og Clyde; „Þau eru Bonnie og Clyde og mútta.“

Fjármögnuðu neyslu

Umræddur lögreglumaður, Dennis Farrell, sagði að markmið þremenninganna væri að komast yfir eins mikið fé og fjármuni og mögulegt væri því öll glímdu þau við heróínfíkn auk þess sem Christopher hafði gaman af fjárhættuspili.

Þau rændu sína fyrstu skartgripaverslun 5. desember 2004. Afraksturinn var 100.000 dala virði og þau drifu sig í kjölfarið heim til Christophers á Long Island og fögnuðu ógurlega með krakki og heróíni. Þess má geta að mæðginin höfðu lengi verið háð fíkniefnum og stolið grimmt frá ættingjum og öðrum fíkniefnaneytendum.

Fyrsta morðið

Þann 20. desember gerði MaryAnn úttekt hjá J & J Jewels í New York og fékk syni sínum niðurstöðuna. Þau hinkruðu síðan við til hádegis þegar aðeins eigandinn, Thomas Rennison, og einn starfsmaður voru á staðnum.

Christopher rölti inn í verslunina og spjallaði við Thomas í um tuttugu mínútur undir því yfirskini að hann hygðist kaupa trúlofunarhring handa unnustu sinni.

Thomas Rennison hafði enga ástæðu til að gruna Christopher um græsku og sýndi honum rándýran hring. Christopher beið ekki boðanna og skaut eigandann til bana og hirti það sem hann gat með góðu móti.

Hjón skotin til bana

Síðan var skartinu komið í verð, fíkniefni keypt og slegið upp partíi sem stóð fram yfir áramót. Þann 16. janúar, 2005, rændu þau Rockland Jewellery Exchange í Nanuet, í New York-ríki, og höfðu upp úr krafsinu 80.000 dali.

Skartgripaverslun Tim og Kim Donnelly, í Fairfield í Connecticut, var rænd 2. febrúar með skelfilegum afleiðingum.

Donnelly-hjónin reyndu hvað þau gátu að tala um fyrir Christopher en við hann var engu tauti komið og skaut þau til bana. Ránsfengurinn var 100.000 dala virði.

Á mótel í Atlantic City

Þegar þarna var komið sögu gerðu þau sér grein fyrir að hitna myndi í kolunum. Christopher losaði sig við byssuna og bílinn einhvers staðar í Brooklyn og hann og Nicole fóru með rútu til Atlantic City og skráðu sig inn á subbulegt mótel, Ascot.

Sjónir lögreglunnar beindust fljótlega að Christopher DiMeo og þar sem spilafíkn hans var ekkert launungarmál dreifði lögreglan myndum af honum og Nicole á öll gistiheimili og hótel á svæðinu.

Innan skamms fékk lögreglan ábendingu frá eiganda Ascot sem hafði borið kennsl á skötuhjúin; þau væru í herbergi 230.

Enginn mótþrói

Nicole var gripin glóðvolg í gestamóttöku mótelsins þar sem hún hugðist greiða fyrir næstu nótt. Næstu klukkustundir var hótelið hægt og hljótt tæmt þar til aðeins einn var eftir; Christopher DiMeo í herbergi 230.

Mótelið var umkringt og lögreglan hafði samband við Christopher og reyndi að fá hann til að gefast upp mótþróalaust. Að einhverjum tíma liðnum sá hann sitt óvænna og gaf sig lögreglunni á vald.

MaryAnn var handtekin á heimili sínu í New York daginn eftir og engin vandræði þar.

Christopher fékk lífstíðardóm fyrir þrjú morð, sem hann skýlaust játaði á sig. Nicole og MaryAnn fengu 20 ára dóm fyrir manndráp.

Þannig fór nú það.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433
Fyrir 7 klukkutímum

Myndi borga risa upphæð bara til að horfa á liðsfélaga sinn spila

Myndi borga risa upphæð bara til að horfa á liðsfélaga sinn spila
Eyjan
Fyrir 7 klukkutímum

„Grafalvarleg stéttaátök standa yfir“

„Grafalvarleg stéttaátök standa yfir“
433
Fyrir 9 klukkutímum

Fljótasti leikmaður Manchester City kallaður í landsliðið – Giggs hefur trú á honum

Fljótasti leikmaður Manchester City kallaður í landsliðið – Giggs hefur trú á honum
Matur
Fyrir 9 klukkutímum

Fullkominn afgangamatur sem þarf lítið að hafa fyrir

Fullkominn afgangamatur sem þarf lítið að hafa fyrir
433
Fyrir 10 klukkutímum

Pogba lærir loksins að synda

Pogba lærir loksins að synda
Fókus
Fyrir 10 klukkutímum

Skissubók full af píkum og brjóstum

Skissubók full af píkum og brjóstum
433
Fyrir 11 klukkutímum

England vann riðilinn eftir dramatík – Króatía niður um deild

England vann riðilinn eftir dramatík – Króatía niður um deild
433
Fyrir 11 klukkutímum

Ástæða þess að Mane fór grátandi af velli – Stuðningsmenn óánægðir með sinn mann

Ástæða þess að Mane fór grátandi af velli – Stuðningsmenn óánægðir með sinn mann