fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Síðasta opinbera aftakan í Frakklandi

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 26. apríl 2018 22:30

Eugene Weidmann Var að lokum yfirbugaður með hamri.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sá sem síðastur var tekinn opinberlega af lífi með fallöxi í Frakklandi hét Eugene Weidmann. Blaðið skildi höfuð hans frá búknum klukkan tíu mínútur í fimm að morgni 17. júní árið 1939.

Ungur leiðtogi þjófagengis

Eugene fæddist í Frankfurt am Main í Þýskalandi 5. febrúar, 1908. Fjölskylda hans var í útflutningsviðskiptum og Eugene hóf skólagöngu sína í  borginni.

Þegar fyrri heimsstyrjöldin skall á var hann sendur til afa síns og ömmu og á þeim tíma gerðist hann fingralangur mjög. Fjórtán ára var hann orðinn leiðtogi þjófagengis unglinga sem stal öllu steini léttara.

Finnur félaga í fangelsi

Á þrítugsaldri dvaldi hann um fimm ára skeið á bak við lás og slá í Saarbrücken fyrir rán. Í fangelsi kynntist Eugene tveimur mönnum, Roger Million og Jean Blanc. Síðar meir urðu þeir félagar á stigu glæpa af ýmsum toga.

Eftir að þeim var sleppt úr fangelsi lögðu félagarnir á ráð um að ræna ríkum ferðalöngum í Frakklandi og krefjast lausnargjalds. Í því skyni tóku þeir á leigu villu í Saint-Cloud, skammt frá París.

Byrjendamistök

Fyrsta mannránstilraunin, fyrri hluta 1937, fór í handaskolum því fórnarlambið barðist um á hæl og hnakka uns þeir sáu sitt óvænna og gáfust upp.

Í júlí gerðu þeir sína aðra tilraun. Eugene hafði komist í kynni við Jean De Koven, 22 ára dansara frá New York-borg, sem var í heimsókn hjá frænku sinni, Idu Sackheim í París.

Eugene tókst að hrífa De Koven og í bréfi til vinar síns sagði hún: „Ég er nýbúin að hitta einkar heillandi Þjóðverja, og gáfaðan, sem heitir Siegfried. Hver veit nema ég fái annað Wagner-hlutverk. Ég fer í heimsókn til hans á morgun í villu á fallegum stað skammt frá setrinu fræga sem Napóleon gaf Jósefínu.“

Dauði dansara

Í villunni var „Siegfried“ herramaður fram í fingurgóma. Þau spjölluð og reyktu og hann færði De Koven mjólkurglas sem hún þáði. Hún tók meira að segja nokkrar myndir af honum með nýju myndavélinni sinni (filmurnar af morðingja hennar fundust síðar við hlið líksins af henni).

Jean De Koven fékk ekki hlutverki í Wagner-verki því Eugene kyrkti hana og gróf líkið í garði villunnar. Hún hafði 300 franka í reiðufé og 430 dali í ferðatékkum. Hjákona Rogers Million fékk það hlutverk að leysa tékkana út og Ida Sackheim fékk bréf þar sem hún var krafin um 500 dali ef hún vildi sjá frænku sína á ný. Þannig fór um sjóferð þá.

Skot í hnakkann

Í septemberbyrjun sama ár réð Eugene mann að nafni Joseph Couffy til að keyra sig á Frönsku Rivíeruna. Joseph komst aldrei til Rivíerunnar því í skógi fyrir utan Tours skaut Eugene hann í hnakkann og hafði bíl og 2.500 franka upp úr krafsinu.

Ljóst má vera að „mannráns/lausnargjalds“-áform Eugene Weidmann og félaga hans, Rogers Million og Jean Blanc, voru löngu fokin út í veður og vind. Aðeins tveimur dögum eftir morðið á Joseph Couffy nörruðu Eugene og Roger einhjúkrunarkonu, Janine Keller, inn í helli í Fontainbleau-skógi. Þar var Janine myrt á sama hátt og Joseph og hirtir af henni 1.400 frankar og demantshringur.

Önnum kafinn Eugene

Upp úr miðjum október mæltu Eugene og Roger sér mót við leiklistarframleiðandann Roger LeBlond undir því yfirskini að þeir hygðust fjárfesta í einni sýninga hans. Skemmst er frá því að segja að Roger LeBlond þurfti ekki að kemba hærurnar. Fengurinn var 5.000 frankar.

Fritz Frommer, Gyðingur sem hafði verið í fangelsi vegna andnasískra viðhorfa sinna, var næstur í röðinni. Eugene, sem hafði kynnst Fritz í grjótinu, skaut hann í hnakkann en ekki fylgir sögunni hvað hann hafði upp úr krafsinu. Líkið af Fritz var grafið í kjallara villunnar í Saint-Cloud.

Nafnspjald verður Eugene að falli

Fimm dögum síðar, 27. nóvember, var fasteignasalinn Raymond Lesobre í mestu makindum að sýna Eugene fasteign í Saint-Cloud. Raymond sýndi ekki fleiri fasteignir þaðan í frá en varð 5.000 frönkum og lífinu fátækari.

Morðið á Raymond varð þegar upp er staðið síðasta morðið sem Eugene Weidmann framdi, því lögreglan komst á slóð hans fyrir tilstilli nafnspjalds sem hann hafði skilið eftir á skrifstofu Raymonds.

Síðustu skrefin
Aftakan gekk ekki snurðulaust fyrir sig.

Tveir lögreglumenn fóru í villuna í Saint-Cloud en þar var ekki köttur á kreiki. Brugðu þeir á það ráð að bíða þar um sinn utandyra.

Smiðshöggið

Þegar Eugene kom heim gekk hann nánast í flasið á lögreglumönnunum. Hann lét þó ekki slá sig út af laginu og fór inn og bauð þeim að ganga í bæinn. Eldsnöggt sneri hann sér síðan við og skaut þremur skotum að laganna vörðum. Þeim tókst þó særðum að yfirbuga Eugene, en það gekk ekki átakalaust fyrir sig. Fyrir einskæra tilviljun var hamar innan seilingar og tókst öðrum lögreglumannanna að seilast í hann og beita gegn Eugene. Eftir einhverjar barsmíðar tókst lögreglunni að reka smiðshöggið og Eugene rotaðist.

Tveir sektardómar

Lögreglan hafði í kjölfarið hendur í hári Rogers Million og Jean Blanc og kærustu Rogers. Þegar Eugene var í varðhaldi var hann spurður hvort hann iðraðist ekki gjörða sinna og hann svaraði að bragði: „Iðrist hvers? Ég þekkti þetta fólk ekki einu sinni.“

Eugene var samvinnuþýður og játaði alla sína glæpi en þegar upp var staðið voru aðeins hann og Roger Million sakfelldir og dæmdir til dauða. Kærasta Rogers og Jean Blanc voru frjáls ferða sinna.

Síðasti morgunninn
Aftakan fór ekki vel í franskan almenning.

Síðar var dómurinn yfir Roger mildaður og aðeins Eugene þurfti að horfast í augu við eigin aftöku.

Tafir og klúður

Árla morguns var mikið um að vera í Rue Georges Clemenceau í Versölum. Uppsetningu fallaxarinnar hafði lokið klukkan þrjú um nóttina og búið var að leigja út háu verði þá staði sem besta útsýnið veittu.

Sagan segir að Henri Desfourneaux böðull, sem var þekktur fyrir að fara sér hægt, hafi verið kvíðinn uppmálaður.

Vegna tafa var farið að elda af degi þegar allt var tilbúið sem gerði ljósmyndurum kleift að ná skýrum myndum.

Eugene Weidmann fékk að reykja vindil í klefa sínum auk smá slurks af rommi og var síðan leiddur út í morgunbirtuna. Handvömm olli því að plankinn sem hann var njörvaður við lagðist ekki sem skyldi. Því virtist ómögulegt að háls Eugene legðist í þar til gerða gróp.

Hárreyttur á hinstu stundu

Segir sagan að aðstoðarmaður Henri Desfourneaux hafi að lokum þurft að toga í hár og eyru Eugene svo blaðið stóra lenti á réttum stað. Sem það gerði um síðir með hvin.

Klúður í lokin
Beita þurfti afli svo blaðið lenti á réttum stað.

Þessi aftaka og ljósmyndir sem birtust af henni gengu fram af almenningi í Frakklandi og því var sett í lög að aftökur þar í landi yrðu í framtíðinni ekki framkvæmdar opinberlega.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Opinberar ástæðuna fyrir banninu: Varð bálreiður – ,,Helvítis svindlari“

Opinberar ástæðuna fyrir banninu: Varð bálreiður – ,,Helvítis svindlari“
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Knattspyrnusambandið íhugar að banna félögum alfarið að gera þetta

Knattspyrnusambandið íhugar að banna félögum alfarið að gera þetta
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Gengi hans á Ítalíu gæti haft áhrif á Manchester United

Gengi hans á Ítalíu gæti haft áhrif á Manchester United
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Parið vakti athygli allra í gær – Sjáðu hvað þau gerðu meðan heimurinn horfði

Parið vakti athygli allra í gær – Sjáðu hvað þau gerðu meðan heimurinn horfði
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Tveir látnir eftir umferðarslys í Eyjafirði

Tveir látnir eftir umferðarslys í Eyjafirði