„Hann var nýbúinn að skrifa bréf til kærustunnar sinnar“

1986 – Áhöfn Syneta ferst við Skrúð – Grétar var meðal þeirra fyrstu sem komu á vettvang – Hugsar oft um slysið

Kristinn H. Guðnason skrifar
Miðvikudaginn 27. desember 2017 21:00

Klukkan 23.20 á jóladag 1986 barst neyðarkall frá breska tankskipinu Syneta og sagt var að skipið hefði strandað við Seley í Reyðarfirði. Björgunarsveitir á Austfjörðum og allir tiltækir bátar voru kallaðir út en það var um seinan. Öll áhöfnin fórst í harmleik, sem Bubbi Morthens túlkaði í einum af sínum þekktustu lögum, sama dag og mikið björgunarafrek var unnið á íslenska flutningaskipinu Suðurlandinu milli Íslands og Noregs.

Fundu mann með veikan púls

Grétar Rögnvarsson var skipstjóri á litlum fiskibát frá Eskifirði, Sæljóninu, og var kallaður út til björgunar. „Ég var að leika við krakkana mína þegar ég fékk símtal frá Landhelgisgæslunni. Ég hringdi í áhöfnina og við vorum með fyrstu bátunum sem fóru út.“ Hvernig voru aðstæðurnar? „Þær voru erfiðar. Myrkur og sunnan fimmtán eða átján metra vindur. Sjórinn var kaldur og kalt í veðri eins og er yfir veturinn yfirleitt.“

Á þriðja hundrað björgunarsveitarmenn voru kallaðir út, frá Neskaupstað, Eskifirði og Fáskrúðsfirði og fjöldi báta. Auk Sæljónsins voru Þorri, Eskfirðingur og Hólmatindur fyrstir af stað en varðskipið Týr var einnig á svæðinu. Klukkan 12.30 bárust þau skilaboð að Syneta væri stöðug en hallaði 35 gráður. Tuttugu mínútum síðar kom í ljós út frá stefnumælingum að skipið væri strandað við Skrúð í mynni Fáskrúðsfjarðar en ekki Seley. Síðustu samskipti við Syneta voru nokkrum mínútum fyrir 1.00 en þá var neyðarblysi skotið upp frá skipinu.

Grétar segir: „Við komum norðan við Skrúðinn þar sem skipið var strandað. Fljótlega sáum við hluti úr skipinu reka til okkar, stóla og mannlausan björgunarbát. Síðan fundum við mann í björgunarvesti sem við náðum strax upp í skipið og hófum lífgunartilraunir á honum með súrefnistækjum og hjartahnoði. Hann var meðvitundarlaus og með veikan púls.“ Maðurinn var Christopher Campbell stýrimaður. Læknir kom um borð en ekki tókst að bjarga manninum. Sæljónið sigldi í höfn með líkið og fór ekki aftur út.

Stukku í sjóinn

Syneta var 1.260 tonna, 86 metra tankskip skráð í Gíbraltar en gert út frá Englandi. Það var á leið til Eskifjarðar að sækja loðnulýsi sem flytja átti til Rotterdam og Dunkirk. Tólf menn voru í áhöfninni, sex Bretar og sex Grænhöfðeyingar. Þeir fórust allir í strandinu sem virðist hafa borið brátt að. Skipinu hvolfdi smám saman og skipverjarnir komust ekki í björgunarbáta. „Allt benti til þess að þeir hefðu stokkið í sjóinn,“ segir Grétar.

Fyrsta líkið fannst á floti klukkan 2.40 um nóttina. Níu menn fundust í sjónum en aðeins tókst að ná sjö þeirra um borð í skip, hinir runnu úr vestum sínum og sukku. Allir voru þeir illa klæddir. Farið var með líkin sjö til hafnar. Fjögur þeirra, af Bretum, voru send heim en þrjú af Grænhöfðeyingum voru jörðuð í Gufuneskirkjugarði.

Af hverju gerðist þetta?

„Það veit enginn. Manni finnst allt benda til þess að stýrimaðurinn hafi sofnað uppi í brú.“

Hugsar þú til baka um þennan atburð?

„Já. Sérstaklega á þessum tíma þegar menn fara að rifja þetta upp og maður heyrir Bubba-lagið. Manni finnst sorglegast að við höfum ekki náð að bjarga þessum manni því þá hefði hann verið til frásagnar. Hann var nýbúinn að skrifa bréf til kærustunnar sinnar í Bretlandi og við fundum það í vasa hans og komum því til skila.“

Fær enn þá bréf

Lagið Syneta kom út á plötunni Sögur af landi árið 1990. Bubbi samdi ljóðið en upprunalega heitir lagið Deportee og var gert ódauðlegt í flutningi Woody Guthrie. „Ég talaði við fólkið í björgunarþyrlunni og prestinn. Síðan þekki ég til margra annarra sem voru í aðgerðunum. Sjóslys hafa alltaf haft áhrif á mann. Þetta var sérstaklega nöturlegt af því að það voru áhöld uppi um hvað hafði verið að gerast um borð. Að björgunarvestin hafi verið ónýt og morkin, að skipverjarnir hafi farið vitlaust í þau og hálsbrotnað þegar þeir stukku frá borði. Það voru alls konar sögur,“ segir Bubbi, en slysið snart hann mjög á sínum tíma.

Hann segist enn fá bréf frá fólki sem var þarna þegar þetta gerðist. „Seinast fékk ég langt bréf í fyrradag frá manni sem var fjórtán ára þegar þetta gerðist og var að rifja þetta upp.“

Deportee fjallar um mexíkóska farandverkamenn sem fórust í flugslysi í Bandaríkjunum árið 1948. Valdir þú Deportee vegna þessa? „Algjörlega, ég tengdi þetta strax saman. Í báðum tilfellum voru þetta menn sem fórust af slysförum fjarri heimalandi sínu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af