fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Yfirþjónn og illmenni

Roy var afbrotagepill frá Glasgow – Gerðist þjónn fína fólksins

Kolbeinn Þorsteinsson
Mánudaginn 11. desember 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Snemma beygðist krókurinn hjá Skotanum Archibald Hall, einnig þekktum sem Roy Fontaine. Archibald „Archie“ fæddist í Glasgow 17. júní 1924.

Glæpaferill hans hófst um fimmtán ára aldur þegar hann stal söfnunarbaukum Rauða krossins, en smáglæpirnir viku fljótlega fyrir viðameiri verkum á borð við innbrot og 17 ára fékk hann sinn fyrsta fangelsisdóm.

Um svipað leyti kynntist hann mun eldri, fráskildum karlmanni, nágranna sínum, og hófu þeir kynferðislegt samband auk þess sem Archie komst, fyrir hans tilstilli, inn í efri kreðsur samfélagsins.

Flutningur og nýtt nafn

En Archie lét ekki af innbrotum og nýtti ágóðann af þeim til að flytja til London. Dálæti hans á Hollywood-stjörnum þess tíma, til dæmis Joan Fontaine, varð til þess að hann tók upp nafnið Roy Fontaine.

Hann gekk í hjónaband með konu en það var skammlíft og Roy var tekið opnum örmum í samfélagi samkynhneigðra karlmanna í London, enda myndarlegur og sjarmerandi.

Ekki skemmdi fyrir að hann fullyrti að hann hefði átt í sambandi við frægðarmenn, til dæmis Boothby lávarð og leikritaskáldið Terrence Rattigan.

Í endurminningum sínum sagði Roy þó að stóra ástin hans hefði verið samfangi að nafni David Barnard.
En nóg um ástamál Roys.

Verður nýr maður

Þrátt fyrir að Roy lifði og hrærðist í veröld elítunnar í London lét hann ekki af svikamyllum og innbrotum. Fyrir vikið fékk hann nánast reglulega hvíld í boði bresku krúnunnar.

Eitt skiptið þegar Roy afplánaði langa fangelsisvist tók hann nýja stefnu. Hann tileinkaði sér nýjan karakter, upprætti allt sem tilheyrði skoskum talanda, lærði siðareglur efri stéttarinnar og kynnti sér fornmuni.

Allt þetta gerði hann til að geta umgengist ensku yfirstéttina án þess að grunur vaknaði um raunverulegan uppruna hans.

Roy verður yfirþjónn

Vinnan skilaði árangri því þegar Roy losnaði úr fangelsi árið 1977 hljóp fljótlega á snærið hjá honum. Hann fékk starf sem yfirþjónn hjá lafði Margaret Hudson í Dumfriesshire í Skotlandi. Á þeim tíma átti hann í tilviljanakenndu sambandi við vændiskonu að nafni Mary „Belfast Mary“ Coggle.

Þegar þarna var komið sögu vildi Roy venda sínu kvæði í kross og kveðja stigu glæpa og svika. Birtist þá ekki eins og skrattinn úr sauðarleggnum gamall samfangi og elskhugi úr Hull-fangelsinu, David Wright.

David hótaði að upplýsa lafðina um fortíð Roys ef Roy legði honum ekki lið. Það varð úr að lafðin réð David sem veiðivörð og garðhirðumann á setrinu.

David hittir skapara sinn

David hafði ekki hugsað sér að láta af glæpum og nýtti tækifærið og stal slatta af silfri Margaret Hudson.
Roy hugnaðist ekki það tangarhald sem David hafði á honum og bruggaði honum launráð.

Í júlí 1977 hittist svo vel á að þeir fóru tveir saman á kanínuveiðar. Roy nýtti fyrsta tækifæri sem hann fékk, skaut David í hnakkann og gróf líkið undir grjóthnullungum í læk sem rann á landareigninni.

Með morðinu tók líf Roys nýja stefnu og hann gaf upp á bátinn drauminn um heiðarleika og líf án glæpa.

Nýtt, gott starf

Í nóvember 1977 flutti Roy til London og fékk stöðu yfirþjóns hjá Walter Scott-Elliot, auðugum forngripasala og fyrrverandi þingmanni, og konu hans Dorothy. Vinkona Roys, Belfast Mary, hafði, sennilega í gegnum Roy, fengið starf bústýru og matselju hjá hjónunum.

Hjá þeim hugsaði Roy sér gott til glóðarinnar og fékk til liðs við sig smáglæpamann að nafni Michael Kitto. Eitt sinn er hjónin voru fjarverandi fóru kumpánarnir í skoðunarferð um íburðarmikið heimili þeirra. Þegar þeir voru í miðju kafi að dást að mögulegum ránsfeng komu hjónin óvænt heim og voru þá góð ráð dýr.

Belfast Mary hjálpar til

Lánið lék þó við Roy og Michael því þeim tókst að fyrirkoma Dorothy án þess að háaldraður eiginmaður hennar yrði þess var. Þar sem Roy var yfirþjónn á heimilinu var honum í lófa lagið að byrla Walter svefnlyfi í vænum slurk af viskíi.

Mary Coggle var kölluð til hjálpar og klæddi hún sig í fatnað af Dorothy og setti á sig hárkollu. Þannig tókst þeim að blekkja Walter. Líkið af Dorothy var sett í farangursrými bifreiðar og Mary og Walter, sem vart var með rænu, settust í aftursætið.

Síðan lá leiðin til Skotlands. Í Perthshire var líkinu af Dorothy hent í skurð við fáfarinn veg í Braco. Walter var síðar barinn til bana með skóflu og líkið grafið á afskekktum stað skammt frá Glen Affric í Inverness.

Líkum fjölgar

Daginn eftir upphófst mikið rifrildi því Mary vildi fá að halda minkapelsi Dorothy en Roy og Michael vildu losa sig við öll sönnunargögn. Án málalenginga barði Roy hana í höfuðið með skörungi og skellti síðan plastpoka yfir höfuð hennar og kæfði hana. Síðar var líkinu af Mary hent í læk í Dumfriesshire.

Að þessu loknu fóru kumpánarnir til Cumbria þar sem fjölskylda Roys hafði komið sér fyrir. Þar hittu þeir fyrir bróður Roys, Donald, sem hafði losnað úr grjótinu þremur dögum fyrr.

Að mati Roys sýndi Donald ótæpilega mikinn áhuga á nýjustu afrekum hans. Roy, sem var orðinn atvinnumaður í morðum, hélt klóróformvættum klút fyrir vitum Donalds og drekkti honum síðan í baðkarinu. Næsta dag óku Michael og Roy enn eina ferðina í norðurátt til að losa sig við lík.

##Syrtir í álinn

Roy og Michael gerðu þau mistök að bjóða antíkhöndlara postulín og silfurmuni á hlægilegu verði. Höndlarinn lagði númerið á bíl þeirra á minnið og setti sig í samband við lögregluna. Við eftirgrennslan komst lögreglan á snoðir um að bíllinn hafði verið tekinn á leigu af Walter Scott-Elliot og fór á heimili hans í Chelsea í London. Veggir þar voru þaktir blóði og ljóst að þar höfðu greipar verið látnar sópa enda verðmæti að andvirði fleiri þúsunda punda horfin.

Þannig var mál með vexti að fjárhirðir hafði fundið líkið af Mary Coggle mánuði áður, á jóladag 1977 nánar tiltekið. Vitað var að hún hafði einhvern tímann unnið hjá Scott-Elliot-fjölskyldunni og því velti lögreglan fyrir sér hvort einhver tengsl væru á milli aðkomunnar á heimilinu og morðsins á Mary.

Handtaka

Í janúar 1978 vöktu Roy og Michael einhverra hluta vegna grunsemdir hóteleiganda í Norður-Berwick og hafði hann samband við lögregluna. Þegar þarna var komið sögu hafði líkið af bróður Roys fundist.

Þegar lögreglan kom á hótelið flúði Roy út um salernisglugga en náðist skömmu síðar við vegatálma. Síðar í janúar aðstoðaði Roy lögregluna að finna líkið af Walter Scott-Elliot. Þegar það fannst var ljóst að refir höfðu tekið vel til matar síns.

Nokkrum dögum síðar voru líkamsleifar Davids Wright grafnar upp og líkið af Dorothy fannst þar sem því hafði verið hent, í vegarskurð í Braco.

Roy Fontaine játaði á sig fimm morð og fékk lífstíðardóm. Hann dó árið 2002 í Kingston-fangelsinu í Portsmouth, 78 ára að aldri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum
Stöð 2 lækkar verð
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Segja Zidane nálægt því að taka að sér óvænt starf

Segja Zidane nálægt því að taka að sér óvænt starf
Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Ólafur Þ. Harðarson: Kosningarnar nú minna mjög á kosningarnar 1980 – spurningin hvort kjósendur kjósa taktískt

Ólafur Þ. Harðarson: Kosningarnar nú minna mjög á kosningarnar 1980 – spurningin hvort kjósendur kjósa taktískt
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Elmar Örn dæmdur í 3,5 árs fangelsi fyrir nauðganir – Sendi myndbönd af glæpnum til konunnar í pósti

Elmar Örn dæmdur í 3,5 árs fangelsi fyrir nauðganir – Sendi myndbönd af glæpnum til konunnar í pósti
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Garnacho bað Ten Hag afsökunar – „Hann verður að læra mikið og hratt“

Garnacho bað Ten Hag afsökunar – „Hann verður að læra mikið og hratt“
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Baldur um ófrægingarherferð gegn sér: „Þetta hefur engin áhrif á okkur Felix“

Baldur um ófrægingarherferð gegn sér: „Þetta hefur engin áhrif á okkur Felix“
Eyjan
Fyrir 8 klukkutímum

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Lögreglan hefur heimsótt heimili hans fjórum sinnum á þremur dögum – „Velkomin til Norður-Kóreu“

Lögreglan hefur heimsótt heimili hans fjórum sinnum á þremur dögum – „Velkomin til Norður-Kóreu“