Þau voru kölluð Ken og Barbie: Morð, pyntingar og nauðganir – Réttarhöld 20. aldarinnar í Kanada

Einar Þór Sigurðsson
Mánudaginn 27. nóvember 2017 21:30

Árið 1995 hófust réttarhöld í einu óhugnanlegasta sakamáli Kanada. Paul Bernardo, þrítugur karlmaður, og eiginkona hans, Karla Homolka, voru fyrir dómi vegna gruns um hryllilega glæpi; raðmorð, nauðganir og pyntingar.

Málið vakti gríðarlega athygli á sínum tíma enda virtust Paul og Karla vera ósköp venjulegt par við fyrstu sýn; bæði þóttu bera af sér ágætan þokka en á bak við sakleysislegt brosið reyndist ólýsanleg illska og mannvonska. Hvernig gat það verið að þessi ungu hjón, sem síðar voru kölluð Ken og Barbie-morðingjarnir, gætu framið svo hryllilega glæpi var spurning sem brann á vörum margra.

Klár og dugleg

Karla fæddist árið 1970 og var elst þriggja barna foreldra sinna. Hún þótti klár stúlka, dugleg í skóla og vinsæl meðal vina og hlaut kærleiksríkt uppeldi að mestu. Hún hafði alla tíð mikinn áhuga á dýrum og eftir að menntaskólanum lauk fékk hún vinnu við að aðstoða dýralækni í Ontario. Flestir bjuggust við að Karla ætti bjarta framtíð fyrir höndum en raunin varð önnur.

Karla þótti ung og efnileg stúlka á sínum yngri árum.
Klár og dugleg Karla þótti ung og efnileg stúlka á sínum yngri árum.

Mynd: AP2005

Þegar hún var sautján ára kynntist hún nokkuð eldri manni, fyrrnefndum Paul Bernardo sem var tuttugu og þriggja ára. Paul þótti, eins og hún, koma vel fyrir, virtist bráðgáfaður og var auk þess sjarmerandi. En innst inni blundaði óstjórnleg löngun í að gera eitthvað ljótt. Það er skemmst frá því að segja að Karla og Paul urðu ástfangin og ekki leið á löngu þar til fantasíur þeirra um kvalalosta fóru að gægjast upp á yfirborðið. Paul réði ferðinni og fylgdi Karla kærasta sínum eftir í einu og öllu.

Scarborough-nauðgarinn

Eftir að þau höfðu verið saman í nokkur ár fóru þau að færa sig upp á skaftið. Fantasíur í hugarfylgsnum þeirra urðu að raunverulegum gjörningum og fyrr en varði fór Paul að ráðast á grandalausar konur og nauðga þeim, allt með samþykki Körlu. Fjölmargar konur urðu fyrir barðinu á honum snemma á tíunda áratugnum og var Paul kallaður Scarborough-nauðgarinn af lögreglu og fjölmiðlum. Hann réðist oftar en ekki á konur í skjóli nætur og nauðgaði þeim á hrottalegan hátt.

Paul var mikið niðri fyrir þegar hann komst að því að Karla hefði stundað kynlíf með öðrum manni áður en hún kynntist honum. Karla var staðráðin í að bæta upp fyrir þetta og hún vissi að hann bæri kynferðislegar langanir til mágkonu sinnar, fimmtán ára gamallar systur Körlu að nafni Tammy.

Svo fór að Karla hnuplaði svæfingarlyfi frá dýralæknastofunni sem hún vann hjá. Þau biðu síðan færis sem kom að kvöldi 23. desember árið 1990. Gleðskapur fór fram á heimili Homolka-fjölskyldunnar og kepptust Paul og Karla við að hella áfengi í Tammy. Þegar gleðskapurinn var við það að klárast laumuðu þau svæfingarlyfi í drykk Tammy sem leið fljótt út af. Því næst fóru þau með hana meðvitundarlausa í kjallarann þar sem Paul nauðgaði henni. Meðan á þessu stóð fór Tammy að kasta upp og fór svo að hún kafnaði í eigin ælu. Lyfin í líkama hennar fóru framhjá þeim sem krufu líkið og því var úrskurðað að dauði hennar hefði verið slys.

Komst heil heim, ólíkt öðrum

Eftir þennan hörmulega atburð fluttu Paul og Karla saman inn og héldu þau uppteknum hætti. Paul kenndi Körlu um dauða systurinnar og kvartaði sáran undan því að hann fengi ekkert lengur út úr því að stunda með henni kynlíf. Karla var staðráðin í að gera allt fyrir kærasta sinn og taldi hún að unglingsstúlka að nafni Jane myndi gera hann ánægðan.

Hún var ung og virtist auk þess kunna mjög vel við Körlu sem var nokkrum árum eldri. Karla bauð henni út að borða, laumaði svæfingarlyfi í drykkinn hennar og fór síðan með hana heim. Þar var stúlkan meðvitundarlaus og á meðan brutu Paul og Karla gegn henni kynferðislega og tóku það upp á myndband. Daginn eftir vaknaði Jane, veik og aum í skrokknum en ómeðvituð um það sem hafði átt sér stað. Hún komst þó heil heim ólíkt öðrum stúlkum.

Fyrsta skipulagða morðið

Þann 15. júní árið 1991 rændi Paul ungri stúlku að nafni Leslie Mahaffy og fór með hana heim. Á heimili þeirra braut parið gegn stúlkunni á kynferðislegan hátt, það pyntaði hana og hélt henni fanginni í nokkra daga. Hluti af árásinni var tekinn upp á myndband. Áður en yfir lauk myrtu þau Leslie, bútuðu líkið niður og losuðu sig við það. Hálfum mánuði síðar fundust líkamsleifarnar í vatni skammt frá, en þann sama dag gengu Paul og Karla í hjónaband.

Hjónavígslan var falleg; Paul og Karla komu til athafnarinnar í vagni sem dreginn var af hvítum hesti, gestirnir fengu góðan mat og hjónin skiptust síðan á heitum áður en prestur lýsti þau hjón.

Annað morð

Hrottaskapnum var þó hvergi nærri lokið því þann 16. apríl árið 1992 rændu hjónin fimmtán ára stúlku, Kristen French. Þau voru stödd á bílastæði þegar þau komu auga á stúlkuna; Karla þóttist villt og bað stúlkuna um að koma með sér til að gefa sér leiðbeiningar. Þau rændu stúlkunni, fóru með hana heim þar sem þau pyntuðu hana og nauðguðu. Ofbeldið tóku þau upp á myndband. Þau myrtu hana og fannst lík hennar í skurði í Burlington hálfum mánuði síðar, þann 30. apríl.

Kristen var rænt þann 16. apríl árið 1992.
Kristen French Kristen var rænt þann 16. apríl árið 1992.

Í janúar árið 1993 dró þó til tíðinda þegar Karla ákvað að fara frá manni sínum eftir að hafa verið beitt líkamlegu og andlegu ofbeldi. Ofbeldið var ekkert nýtt af nálinni en Karla fannst sem Paul væri sífellt að verða árásargjarnari og ofbeldishneigðari. Hún fór frá honum þegar hann gekk svo illa í skrokk á henni að hún varð að leita á sjúkrahús. Hún flutti til vinkonu systur sinnar en svo vildi til að hún var lögreglukona.

Lögregla komst á sporið

Þegar þarna var komið við sögu var lögreglan hægt og rólega að komast á sporið, þá einna helst hvað varðar nauðganirnar. Lögregla birti teikningu af brotamanninum og var það vinnufélagi Pauls sem hafði samband við lögreglu og sagði að teikningin líktist Paul. Svo fór að Paul var boðaður í viðtal hjá lögreglu og voru tekin fingraför og var stroka tekin úr munni hans. Eftir að niðurstöður þeirra rannsóknar lágu fyrir kom í ljós að Paul var Scarborough-nauðgarinn. Rannsókn lögreglu á morðunum stóð einnig yfir og úr sem Paul var með á höndinni vakti athygli lögreglumanns við yfirheyrslurnar. Um var að ræða úr með mynd af Mikka Mús en lögreglumaðurinn mundi að Kristen French hefði einmitt verið með þannig úr kvöldið sem hún hvarf.

Lögregla þjarmaði að hjónunum og á endanum ákvað Karla að segja sannleikann um voðaverkin; morðin, nauðganirnar og pyntingarnar. Hún sagði lögreglu að Paul væri nauðgarinn og morðinginn og um svipað leyti fékk hún sér lögmann sem reyndi að haga málum þannig að hún fengi vægari dóm fyrir þátttöku sína gegn því að vitna gegn eiginmanninum. Niðurstaðan varð einmitt sú en hún átti eftir að vekja talsverða reiði meðal almennings í Kanada. Eftir að samið hafði verið kom á daginn að þátttaka Körlu var meiri en lögregla hafði talið í upphafi – myndböndin sem hjónin tóku sýndu það einmitt. Samkomulagið fól í sér að hún fengi tólf ára fangelsisdóm en gæti sótt um reynslulausn eftir þrjú ef hún sýndi af sér góða hegðun.

Mistök lögreglu

Hafi samkomulagið sem ákæruvaldið gerði við Körlu vakið reiði margra vakti röð meintra mistaka lögreglu við rannsóknina ekki síður reiði. Eins og Salvör Nordal fjallaði um í Morgunblaðinu árið 1995 fann lögregla myndböndin af misþyrmingunum ekki við ítarlega húsleit á heimili þeirra hjóna. Paul hafði falið þau í ljósakrónu á heimili þeirra og lét hann lögmanninn sinn vita af tilvist þeirra. Rúmu ári síðar afhenti hann lögreglu myndböndin. Þá kom fram fyrir dómi að DNA-sýni hafi verið tekin af Paul árið 1990 þegar rannsókn lögreglu á nauðgunarmálunum stóð sem hæst. Þau voru aftur á móti ekki rannsökuð fyrr en árið 1993. Fyrir utan þetta hafði lögregla fengið vísbendingar frá konum sem virtust benda á aðild Pauls að þessum hryllilegu nauðgunum. Meðal þessara vísbendinga var bílnúmer sem reyndist tilheyra bifreið Pauls en þessum vísbendingum var ekki fylgt eftir. Lögregla virðist því hafa haft nægan tíma til að stöðva Paul áður en hann leiddist út í enn alvarlegri glæpi, morð.

Paul getur sótt um reynslulausn á næsta ári.
Enn í fangelsi Paul getur sótt um reynslulausn á næsta ári.

Sagðist sjálf fórnarlamb

Karla lýsti sér fyrir dómi í raun sem fórnarlambi aðstæðna og hún hafi í raun hlýtt eiginmanninum í einu og öllu af ótta við ofbeldi af hans hálfu. Hún hafi verið mjög áhrifagjörn og eiginmaður hennar stýrt henni í einu og öllu. Eftir að samkomulag ákæruvaldsins við hana var í höfn var ekki aftur snúið: Samkomulag er samkomulag og það var ekki unnt að breyta því þótt frekari sönnunargögn um þátt Körlu hefðu komið fram síðar meir. Paul átti sér aftur á móti engar málsbætur og var hann dæmdur í lífstíðarfangelsi þann 1. september árið 1995, fyrir morðin og hátt í 30 nauðganir. Paul sótti um reynslulausn árið 2001 en var hafnað. Áfrýjunarnefnd leit svo á að yfirgnæfandi líkur væru á því að Paul myndi brjóta af sér aftur. Paul situr enn á bak við lás og slá en getur sótt um reynslulausn í febrúar á næsta ári.

Eignaðist son

Þann 4. júlí árið 2005 var Körlu sleppt úr fangelsi gegn ákveðnum skilyrðum. Fyrst um sinn þurfti hún að láta lögreglu í té allar upplýsingar um sig: Dvalarstað og símanúmer og þá þurfti hún að láta lögreglu vita ef hún hygðist fara úr bænum. Þá mátti hún ekki setja sig í samband við ungmenni undir 16 ára. Kanadískir fjölmiðlar greindu svo frá því að árið 2007 hefði hún eignast son og í desember sama ár voru fluttar fréttir af því að hún hefði flutt frá Kanada til Antille-eyja til að geta lifað „einfaldara“ lífi en í Kanada. Svo virðist vera sem dvöl hennar þar hafi verið stutt því árið 2014 var greint frá því að Karla væri flutt aftur til Kanada, til Quebec. Fjölmargir Kanadamenn kröfðust þess að yfirvöld veittu upplýsingar um hvar hún byggi en allt kom fyrir ekki. Síðast spurðist til hennar í Châteauguay í Quebec en það var í apríl á síðasta ári. Karla er í dag 47 ára en Paul, sem gæti öðlast frelsi á næsta ári, er 53 ára.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af