Framkvæmdastjóri leggur undir sig land og stofnar nýtt ríki

Dixit-konungdæmið er á milli Egyptalands og Súdans

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 15. nóvember 2017 23:00

Suyash Dixit, framkvæmdastjóri hjá indversku tæknifyrirtæki, lýsti því yfir á dögunum að hann hefði stofnað eigin ríki. Þetta væri kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir þá staðreynd að ekkert ríki hefur gert tilkall til landsvæðisins sem um ræðir.

Dixit þessi er 24 ára og lýsti hann yfir stofnun Dixit-konungdæmisins á dögunum. Landsvæðið sem um ræðir, Bir Tawil, er þokkalega stórt, rúmir tvö þúsund ferkílómetrar, og stendur mitt á milli Egyptalands og Súdans.

Enginn býr á svæðinu, en, eins og bent er á í umfjöllun Telegraph, er Bir Tawil líklega eini staðurinn á Jörðinni sem hægt er að búa á en er á sama tíma ekki hluti af neinu ríki. Dixit ferðaðist á dögunum til Bir Tawil og var með eigin þjóðfána í farteskinu og plöntufræ.

„Reglum samkvæmt er ekki hægt að gera tilkall til lands án þess að planta þar fræjum, sagði Dixit. Nokkur hundruð manns hafa skrifað undir plagg þar sem Sameinuðu þjóðirnar eru hvattar til að viðurkenna tilvist hins nýja konungdæmis.

Ólíklegt er þó að Dixit verði að ósk sinni því eins og lagaprófessor við Georgetown University bendir á þá geta einungis fullvalda ríki gert tilkall til landsvæða, en ekki einstaklingar. Vísar hann í alþjóðalög máli sínu til stuðnings. Árið 2014 reyndi Bandaríkjamaður að lýsa yfir stofnun ríkis í Bir Tawil. Hugðist hann kalla ríkið Konungdæmi Norður-Súdans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Tour of Reykjavík 2018