Konan sem er andlit Norður-Kóreu: Flytur þjóðinni gleðifréttir jafnt sem sorgartíðindi

Ri Chun-hee er gædd miklum persónutöfrum – Nýtur fullkomins trausts þjóðarinnar

Einar Þór Sigurðsson
Sunnudaginn 3. september 2017 22:00

Jafnan þegar myndbönd eru sýnd frá útsendingum ríkissjónvarps Norður-Kóreu birtist sama andlitið á skjánum. Þetta er andlit Ri Chun-hee sem fært hefur þjóð sinni gleðifréttir jafnt sem sorgartíðindi undanfarin fjörutíu ár.

Í raun má segja að þessi 74 ára kona, sem fengið hefur hrós fyrir persónutöfra sína og tilfinningaþrungna framkomu, sé andlit Norður-Kóreu. Hún hefur fært þjóð sinni fréttir af hörmungum og var það hún sem tilkynnti um andlát Kim Jong-il árið 2011. Hún tilkynnti einnig um andlát Kim Il Sung árið 1994 og grét hún í báðum útsendingunum. Þá tilkynnti hún í síðasta mánuði að Norður-Kóreumönnum hefði tekist að sprengja kjarnorkusprengju í fimmta skiptið.

Ri átti erfitt með að halda aftur af tárunum þegar hún tilkynnti um andlát Kim Jong-il árið 2011.
Tilfinningaþrungið augnablik Ri átti erfitt með að halda aftur af tárunum þegar hún tilkynnti um andlát Kim Jong-il árið 2011.

Talið er að Kim-fjölskyldan hafi ráðið hana í vinnu árið 1971 og er Kim Jong-un, núverandi einræðisherra Norður-Kóreu, sagður hafa viljað hafa hana áfram í sjónvarpinu eftir að hann tók við völdum í landinu.

Katharine H.S. Moon, prófessor við Wellesley College skammt frá Boston í Bandaríkjunum, segir við Channel 4 í Bretlandi að saga Ri sé um margt merkileg. „Það er mjög erfitt að gerast fréttaþulur í Norður-Kóreu, sérstaklega fyrir konur. Hún er í raun sú eina sem hefur náð svona langt. Að mörgu leyti er hún móðurímynd Norður-Kóreu, andlit konunnar í landinu. Hún er í miklum metum hjá yfirvöldum og nýtur fullkomins trausts. Fólkið í landinu treystir henni enda eru íbúar vanir að sjá hana á hverju kvöldi í sjónvarpinu.“

Ri fæddist árið 1943 og er því komin vel á áttræðisaldur. Hún hefur verið minna áberandi í sjónvarpi Norður-Kóreumanna á undanförnum árum en er þó alltaf til taks þegar stór tíðindi berast. Þá sér hún um að færa landsmönnum tíðindin. Hún var leikkona á sínum yngri árum en allt frá árinu 1971 hefur hún séð um að færa landsmönnum fréttir.

Ri er sögð búa í lúxushúsi í höfuðborginni Pyongyang ásamt eiginmanni sínum, börnum og barnabörnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Pressan
Fyrir 3 klukkutímum

Eldsvoði og fjöldi ökumanna í annarlegu ástandi

Eldsvoði og fjöldi ökumanna í annarlegu ástandi
Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Kosningastjóri Trump krefst þess að Jeff Sessions dómsmálaráðherra verði rekinn úr embætti

Kosningastjóri Trump krefst þess að Jeff Sessions dómsmálaráðherra verði rekinn úr embætti
Bleikt
í gær

Íslenskar konur deila bráðfyndnum lygum sem þær trúðu sem börn

Íslenskar konur deila bráðfyndnum lygum sem þær trúðu sem börn
Fréttir
í gær

Myndband: Brjálaðist við flugþjón eftir að hann fékk samloku með kalkúna„skinku“

Myndband: Brjálaðist við flugþjón eftir að hann fékk samloku með kalkúna„skinku“
Fókus
í gær

Árið er 1998 – Svona bjuggu þær Carrie, Samantha, Miranda og Charlotte: 90’s lúkk og litir fyrir allann peninginn

Árið er 1998 – Svona bjuggu þær Carrie, Samantha, Miranda og Charlotte: 90’s lúkk og litir fyrir allann peninginn
Fréttir
í gær

Kyntáknið Þorsteinn Guðmundsson kemur Rúrik til varnar: „Við erum ekki kjötflykki, við erum manneskjur“

Kyntáknið Þorsteinn Guðmundsson kemur Rúrik til varnar: „Við erum ekki kjötflykki, við erum manneskjur“