fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Dúett dauðans

Tvinnuðu saman kynlíf og morð – Fórnarlömbin voru aldraðar konur

Kolbeinn Þorsteinsson
Sunnudaginn 23. júlí 2017 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á Alpine Manor, dvalarheimili aldraðra í Walker í Michigan í Bandaríkjunum, unnu fyrr meir tvær vafasamar kvensniftir; Gwendolyn Graham og Catherine Wood.

Hjúkrunarkonurnar voru ekki aðeins vinnufélagar heldur einnig ástkonur og áttu það sameiginlegt að tilhugsunin um morð veitti þeim hvað mesta kynferðislega örvun.

Í upphafi var þetta sem leikur og þær ætluðu að velja fórnarlömb sín út frá nöfnum þeirra; fangamörk þeirra áttu að mynda orðið „Murder“, morð. Með því hugðust þær skensa lögregluna.

Gwen

Áður en lengra er haldið er vert að huga aðeins að fortíð Gwen og Cathy. Gwen fæddist í Kaliforníu en ólst upp í Texas. Hum mun hafa verið rólyndisbarn en nánast ávallt dapurleikinn uppmálaður.

Síðar útskýrði Gwen depurð sína með frásögnum af föður sínum sem að hennar sögn veitti henni helst til mikla kynferðislega athygli – sannleiksgildi þeirrar skýringar fékkst aldrei staðfest.

Gwen flutti til Michigan árið 1996 og hún fékk starf á Alpine Manor.

Cathy

Næsti yfirmaður Gwen á hjúkrunarheimilinu var Cathy, þá 24 ára. Cathy hafði gifst á unglingsaldri og þegar sjö ára hjónaband hennar rann sitt skeið glímdi hún við offitu á alvarlegu stigi; vóg 205 kíló.

Cathy var vinalaus og einmana, en fljótlega eftir að hún störf á Alpine Manor, 1985, var henni veitt stöðuhækkun, varð yfirmaður aðstoðarmanna hjúkrunarfræðinganna á staðnum. En félagslíf Cathy var ekki upp á marga fiska og á því varð engin breyting fyrr en leiðir hennar og Gwen lágu saman.

Ástarsamband og megrun

Vinátta þeirra breyttist skjótt í ástarsamband, Cathy sagði aukakílóunum stríð á hendur og varð tíður gestur í klúbbum samkynhneigðra, stundaði partí af miklum móð og fór ekki varhluta af skyndikynnum.

En tryggð hennar við Gwen beið ekki hnekki og síðla árs 1986 höfðu þær heitið hvor annarri ævarandi ást sem ekkert fengi grandað.

Í október það ár viðraði Gwen hugmyndir sínar um skipulögð morð, en Cathy tók hana ekki alvarlega. Gwen fékk mikið upp úr því að binda Cathy þegar þær stunduðu kynlíf og nánast kyrkja hana eða kæfa með kodda meðan á því stóð.

Áður en langt um leið fannst Cathy sem þetta samspil ánægju og sársauka væri ómissandi.

Byrjendamistök

Í janúar 1987 hófust stöllurnar handa, en lentu á ýmsum hindrunum. Meðal annars misreiknuðu þær hversu mikið líf var í fyrstu fórnarlömbunum sem voru alls ekki á því að kveðja jarðlífið. Þurftu Gwen og Cathy þá frá að hverfa, en merkilegt nokk bárust engar kvartanir frá þeim þrjósku gamalmennum varð lengra lífs auðið en vinkonurnar ætluðu.

En æfingin skapar meistarann og sá Gwen ekki annað í stöðunni en að velja veikburða konur þaðan í frá.

Minjagripir geymdir

Cathy stóð alla jafna á vakt þannig að hún gat fylgst með starfsstöðvum annarra hjúkrunarkvenna og séð þegar ástkona hennar murkaði lífið úr gamalmennunum.

Stundum gátu þær ekki hamið sig og fóru strax að loknu morði inn í tómt herbergi og nutu kynlífs. Gwen stal ýmsu úr fórum fórnarlamba sinna; vasaklútum, nælum og jafnvel fölskum tönnum, og geymdi til minja um morðin.
Stöllurnar virtust nærast á þeirri spennu sem fylgdi ódæðunum og möguleikanum á að upp um þær kæmist. Gengu þær svo langt að gorta af fjölda fórnarlamba sinna við vinnufélaga sína sem ályktuðu að um sjúklegan húmor væri að ræða.

Leiðir skilur

Í apríl dró til tíðinda þegar Cathy neitaði að sanna ást sína með því að drepa hvern sem er. Skömmu síðar var hún færð á nýja vakt en Gwen hafði fundi sér nýja lesbíu, Heather Barager, sem hún varði sífellt meiri tíma með. Gwen fór síðan með Heather heim til Texas og skildi Cathy eftir í sárum.

Í ágúst sagði Cathy sínum fyrrverandi, Ken, alla söguna en einhverra hluta vegna beið hann í fjórtán mánuði með að hafa samband við lögregluna. Þegar lögreglan síðan heyrði frásögn Kens átti hún bágt með að leggja trúnað á hana. Um fjörtíu vistmenn höfðu skilið við fyrsta fjórðung ársins 1987, allir með eðlilegum hætti að talið var. En við nánari athugun virtist þó eitthvað bogið við átta dauðsföll.

Þegar þarna var komið sögu hafði Gwen hafið störf á Mother Frances-sjúkrahúsinu í Texas, en hringdi þó endrum og sinnum í sína gömlu kærustu.

Fimm vafamál

Af þeim átta dauðsföllum sem lögreglan kíkti nánar á var í þremur tilfellum útilokað að eitthvað grunsamlegt hefði átt sér stað.

Eftir stóðu fimm möguleg fórnarlömb; Marguerite Chambers, 60 ára, Edith Cole, 89 ára, Myrtle Luce, 95 ára, Mae Mason, 79 ára, og Belle Burkhard, 74 ára.

Reyndar var fátt um beinharðar vísbendingar um að konurnar fimm hefðu verið myrtar, en í ljósi frásagnar Kens taldi ákæruvaldið sig hafa nóg í höndunum til að leggja fram ákæru.

Lykilvitni

Cathy og Gwen voru handteknar í desember 1988 og ákærðar fyrir morð tveimur kvennanna. Á meðal vitna sækjanda voru fjórar fyrrverandi samstarfskonur og í september 1989 hljóp á snærið hjá ákæruvaldinu þegar Cathy játaði sig seka um manndráp, gerðist lykilvitni gegn fyrrverandi ástkonu sinni og slapp við lífstíðardóm fyrir vikið.

Að sögn Cathy hafði Gwen, auk morðanna, reynt að kæfa fimm konur sem þó sluppu með skrekkinn.

Upp úr kafinu kom að það var ekki sektarkennd sem fékk Cathy til að segja Ken söguna. Cathy óttaðist að Gwen færði morðin upp á nýtt og óhugnanlegra svið í nýju starfi hennar á sjúkrahúsinu í Texas.

Sexfaldur lífstíðardómur

Það sem olli Cathy áhyggjum var að Gwen kynni að snúa sér að ungbörnum næst. „Þegar hún var að myrða fólk á Alpine og ég aðhafðist ekkert, það var nógu slæmt,“ sagði Cathy. „En þegar hún fór að hringja í mig og segja mér hve mikið hana langaði að stúta barni, ég varð að stoppa hana einhvern veginn.“

Cathy sagði að þegar þar var komið sögu hafi hún orðið að grípa í taumana: „Hún [Gwen] sagði að hana langaði að taka eitt af börnunum og slengja því í glugga. […] Mér var orðið sama hvað yrði um mig.“

Þegar upp var staðið komst kviðdómur að þeirri niðurstöðu að Gwen væri sek um fimm morð og áform um hið sjötta.

Gwendolyn Graham fékk sexfaldan lífstíðardóm 2. nóvember 1989 án möguleika á reynslulausn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Gætu neyðst til að selja vonarstjörnuna í sumar vegna fjárhagsvandræða

Gætu neyðst til að selja vonarstjörnuna í sumar vegna fjárhagsvandræða
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Klopp svartsýnn og biðst afsökunar

Klopp svartsýnn og biðst afsökunar
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Pétur Einarsson látinn

Pétur Einarsson látinn
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Hvetur United til að horfa í óvænta átt: Harðhausinn aftur heim? – ,,Gæti smellpassað“

Hvetur United til að horfa í óvænta átt: Harðhausinn aftur heim? – ,,Gæti smellpassað“
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Stórstjarnan plataði alla með nýrri mynd: Margir voru áhyggjufullir – Sjáðu svakalegan mun

Stórstjarnan plataði alla með nýrri mynd: Margir voru áhyggjufullir – Sjáðu svakalegan mun