Ungt fólk nennir ekki að stunda kynlíf

Vilja frekar borða og lesa teiknimyndasögur – Þjóðin eldist hratt

Kristinn H. Guðnason skrifar
Þriðjudaginn 11. júlí 2017 20:30

Fréttamaður BBC tók nýverið viðtöl við nokkra unga Japani varðandi kynhegðun þeirra. Ástæðan fyrir því er að japönsk ungmenni eru að stórum hluta hætt að stunda kynlíf. Í nýlegri könnun kom í ljós að 64% Japana á aldrinum 18 til 34 ára voru ekki í föstu sambandi og 43% höfðu aldrei stundað kynlíf um ævina. Þetta vekur nokkra furðu í ljósi þess að kynlíf og kynferði hefur lengi verið stór hluti af menningu Japan.

Ano Matsui er 26 uppistandari. „Ég hef ekkert sjálfstraust. Ég hef aldrei verið vinsæll hjá stúlkum. Einu sinni bauð ég stúlku út en hún sagði nei. Það lagðist á sál mína. Það eru til margir karlmenn eins og ég sem eru hræddir við konur. Við erum hræddir við höfnun. Við eyðum tímanum frekar í tómstundir eins og teiknimyndir. Ég hata sjálfan mig, en það er ekkert sem ég get gert í þessu.“

Við eyðum tímanum frekar í tómstundir eins og teiknimyndir

Anna er 24 ára og vinnur hjá fjármálastofnun. „Löngun mín til að borða og sofa trompar kynlíf. Kynlíf er eitthvað sem ég þarf ekki á að halda. Að vera í sambandi setur hömlur á frelsi mitt.“

Listamaðurinn Rokudenashiko, sem varð fræg fyrir að hanna þrívíddar líkan af leggöngum sínum og birta á internetinu, telur vandamálið vera leti. „Að hefja samband er ekki auðvelt. Strákur verður að bjóða stúlku út á stefnumót. Ég held að margir nenni því einfaldlega ekki. Þeir geta horft á klám á netinu og fengið útrás á þann hátt.“

Börnum fækkar

Þetta er ekki skopsaga heldur grafalvarlegt vandamál því að Japanir eru sú þjóð sem eldist hraðast. Árið 1980 voru börn undir 15 ára aldri 23% þjóðarinnar og aðeins 9% eldri en 65 ára. Í dag eru börn rúmlega 12% og eldri borgarar rúmlega 27%. Hin lága fæðingartíðni hefur valdið því að Japönum hefur fækkað um meira en milljón frá árinu 2010. Auk þess veldur þetta miklum efnahagslegum erfiðleikum þegar sífellt hækkandi hlutfall fólks fer út af vinnumarkaði og þarfnast umönnunar.

En hvernig er hægt að bjarga japönsku þjóðinni frá því að veslast upp í getnaðarleysi? Að minnsta kosti eru hinar nýju kynlífsdúkkur, sem framleiddar eru þar, ekki lausnin.


Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af