Harmleikir stjarnanna

Pabbi Woody Harrelson var leigumorðingi – Hvert áfallið rak annað hjá Roy Orbison

Einar Þór Sigurðsson skrifar
Miðvikudaginn 10. maí 2017 21:00

Þegar rætt er um fræga fólkið í Hollywood sjá margir fyrir sér sældarlíf í sól og mikla peninga fyrir tiltölulega litla vinnu. Það kann vel að vera að það sé þægilegt að vera frægur leikari í Hollywood en staðreyndin er sú að margir þeirra hafa lent í miklum mótvindi í lífinu. Hér að neðan gefur að líta yfirlit yfir nokkrar stjörnur sem hafa þurft að ganga í gegnum ýmis erfið áföll í lífi sínu.


Mynd: EPA

Ráðgátan leystist aldrei

Það þekkja ef til vill ekki allir James Ellroy en fleiri þekkja líklega verkin hans. Ellroy er einn dáðasti glæpasagnahöfundur Bandaríkjanna og skrifaði hann til dæmis bækurnar L.A Confidential og Black Dahlia sem rötuðu báðar á hvíta tjaldið.
Þegar Ellroy var tíu ára, árið 1958, var móðir hans myrt á hrottalegan hátt. Í ævisögu sinni, My Darkest Places, rifjaði Ellroy þennan óhugnanlega atburð upp. Nokkrum dögum fyrir morðið hafði hann lent í miklum rifrildum við móður sína og fór hann í kjölfarið til föður síns til að dvelja hjá honum yfir helgi. Þegar hann sneri aftur heim til móður sinnar, í El Monte, úthverfi Los Angeles, komst hann að því að hún hafði verið myrt eftir að hafa verið beitt kynferðisofbeldi. Ráðgátan um hver varð henni að bana leystist aldrei. Ellroy fór út af sporinu á unglingsárunum, neytti eiturlyfja og stundaði smáglæpi áður en hann tók sig saman í andlitinu og hóf að skrifa glæpasögur með frábærum árangri.


Kenndi sjálfum sér um andlátið

Walt Disney er nafn sem flestir þekkja. Þessi frumkvöðull á sviði teiknimynda ólst upp í fátækt en eftir velgengni myndar hans um Mjallhvíti og dvergana sjö árið 1938 ákvað Walt að kaupa hús fyrir foreldra sína, Elias og Floru Disney. Skömmu eftir að þau fluttu inn, í nóvember 1938, kom á daginn að gasofn í húsinu lak. Walt kallaði á viðgerðarmann sem virðist ekki hafa komist fyrir lekann. Þann 26. nóvember dundi ógæfan yfir þegar mikill gasleki gerði vart við sig úr þessum sama ofni. Faðir hans, Elias, lifði af en móðir hans, Flora, lést í slysinu. Dauði móður hans fékk mikið á Walt og kenndi hann sjálfum sér um slysið að nokkru leyti.


Pabbi var leigumorðingi

Woody Harrelson hefur átt blómlegan feril sem leikari í Hollywood. Uppvaxtarár Harrelson voru þó enginn dans á rósum því faðir hans, Charles V. Harrelson, yfirgaf fjölskylduna þegar Woody var sjö ára og sleit öllum samskiptum. Mörgum árum síðar heyrði Woody útvarpsfrétt þar sem sagt frá því að maður að nafni Charles V. Harrelson væri á leið fyrir dóm vegna morðs. Woody taldi að ekki væru margir með þessu nafni í Texas og komst hann í kjölfarið að því að um var að ræða föður hans. Árið 1970 var Charles sýknaður af ákæru um morð á framkvæmdastjóranum Alan Berg en árið 1973 var hann sakfelldur fyrir morð á manni að nafni Sam Degelia. Charles fékk tvö þúsund dali fyrir morðið og var hann dæmdur í 15 ára fangelsi. Fimm árum síðar var honum sleppt úr haldi en hann var ekki frjáls lengi. 29. maí 1979, fimm mánuðum eftir að honum var veitt reynslulausn, myrti hann dómara að nafni John H. Wood með langdrægum riffli. Í ljós kom að Charles fékk 250 þúsund dali frá fíkniefnabaróninum Jimmi Chagra fyrir morðið. Charles var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið. Árið 1988 endurnýjaði Woody kynnin við föður sinn og hóf að heimsækja hann í steininn. Það gerði hann allt þar til Charles lést árið 2007.


Gátan leystist mörgum árum síðar

Leikarinn Dylan McDermott varð fyrir áfalli árið 1967 þegar hann var aðeins fimm ára gamall. Þá varð móðir hans fyrir skoti á heimili sínu en í mörg ár var talið að hún hefði svipt sig lífi.
Þetta örlagaríka kvöld höfðu móðir hans, Diane, og kærasti hennar, John Sponza, rifist. John þessi þótti ekki merkilegur pappír því hann var bæði ofbeldisfullur og á kafi í eiturlyfjum. Hann skipaði Dylan að fara út úr húsinu með litla systur sína og skömmu síðar heyrðist skothvellur. Diane hafði fengið skot í höfuðið og var hún úrskurðuð látin í kjölfarið. Það var ekki fyrr en árið 2011 að ráðgátan um andlátið leystist og beindust nú öll spjót að fyrrnefndum John. Diane hafði verið skotin í hnakkann, vinstra megin sem vakti athygli í ljósi þess að hún var rétthent. John þurfti þó aldrei að svara til saka enda var hann sjálfur myrtur árið 1972.


Móðir Charlize skaut pabba hennar

Sumarið 1991, þegar suðurafríska leikkonan Charlize Theron var 15 ára, var faðir hennar skotinn til bana. Faðir hennar, Charles, var drykkfelldur ofbeldismaður og hafði hann farið út og setið að sumbli þetta kvöld með móðurbróður Charlize. Síðar um kvöldið komu þeir heim, drukknir mjög, og hóf Charles að skjóta úr byssu. Til orðaskipta kom milli móður Charlize, Gerdu, og föður hennar sem endaði með því að hann hótaði að drepa þær báðar, eiginkonu sína og dóttur. Hann skaut úr byssu sinni í læsta svefnherbergishurð og þá greip Gerda til þess ráðs að ná í byssu og skaut hún bæði eiginmann sinn og bróður. Charles lést en bróðir hennar slasaðist talsvert. Gerda var ekki ákærð vegna málsins þar sem litið var svo á að um sjálfsvörn væri að ræða.


Mynd: 2014 Hannes Magerstaedt

Hvert áfallið rak annað

Keanu Reeves hefur mátt þola ýmislegt í gegnum tíðina. Faðir hans yfirgaf fjölskylduna þegar hann var þriggja ára og þar sem Keanu var mjög lesblindur gekk honum illa í skóla. Hann sneri sér því að leiklist og kom hans fyrsta tækifæri árið 1991 þegar hann lék í myndinni My Own Private Idaho ásamt River Phoenix. Þeir urðu fljótt bestu vinir en tveimur árum síðar, árið 1993, lést Phoenix á sviplegan hátt. Árið 1998 kynntist Keanu ástinni í lífi sínu, Jennifer Syme, og ári síðar, 1999, varð Jennifer ólétt. Þegar Jennifer var gengin átta mánuði fór hún af stað en dóttir þeirra, sem fékk nafnið Ava, fæddist andvana. Vorið 2001 kom svo enn eitt áfallið. Jennifer fór í gleðskap á heimili tónlistarmannsins Marilyn Manson en á leiðinni heim lenti hún í alvarlegu umferðarslysi og lést.


Missti eiginkonu og tvö börn

Eins og fyrri hluti sjöunda áratugarins var frábær fyrir tónlistarmanninn Roy Orbison var seinni hlutinn eins erfiður og hugsast getur. Fyrir þá sem ekki vita er Orbison maðurinn á bak við lög eins og Only the Lonely, Oh, Pretty Woman og Anything You Want. Árið 1966 var Roy í mótorhjólaferð á Englandi ásamt eiginkonu sinni, Claudette, þegar ógæfan dundi yfir. Claudette lenti í slysi á hjólinu og lést. Tveimur árum síðar kviknaði eldur í húsi tónlistarmannsins og létust tveir af þremur sonum hans, Roy Duane, 11 ára, og Tony, 6 ára. Áfallið var eðlilega mikið og dró Roy sig að stóru leyti í hlé eftir þetta. Hann sneri þó aftur á tónlistarsviðið nokkrum árum síðar og varð meðlimur í ofurgrúppunni The Traveling Wilburys ásamt Tom Petty, Bob Dylan, George Harrison og Jeff Lynn. Orbison lést úr hjartaáfalli í desember 1988.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af