Hvíslandi Candy Man opnar íslenskt nammi

Vinsæl ASMR-rás á YouTube gerir kitlandi myndband með íslensku ívafi

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 30. mars 2017 21:00

105 þúsund notendur YouTube hafa horft á myndband þar sem maður sem kallar sig Candy Man opnar og smakkar íslenskt sælgæti. Það birtist á vinsælli YouTube-rás, Ephemeral Rift, sem sérhæfir sig í svokölluðum ASMR-myndböndum og á yfir 314 þúsund fylgjendur.

ASMR, sem stendur fyrir Autonomous Sensory Meridian Response, er fyrirbæri sem erfitt er að útskýra og er ekki læknisfræðilega viðurkennt. En það gengur í einfölduðu máli út á það að hvísl, strokur og ýmiskonar smáhljóð eru notuð til að kalla fram viðbrögð í áhorfendum eða hlustendum sem teljast næmir fyrir ASMR (það eru víst ekki allir). Slík myndbönd eru gríðarlega vinsæl á YouTube ekki ólíklegt að þú hafir rekist á þau á vafri þínu um síðuna. Allt milli himins og jarðar er notað til að framkalla viðbrögð í áhorfandanum, allt frá því að bursta hár, krumpa pappírspoka og framkalla hljóð með því að slá létt eða renna nöglum yfir hin ýmsu yfirborð.

Viðbrögðin sem hljóðin í ASMR-myndböndum framkalla eru einhvers konar firðringur, kitl, eða önnur ósjálfráð viðbrögð eins og að fá hárin til að rísa á þeim sem á horfir– en þá á notalegan hátt. Áhorfandinn getur líka orðið stjarfur eða farið í ástand sambærilegt því að fá langa og þægilega störu.

Fram kemur í myndbandi Ephemeral Rift að Candy Man hafi áskotnast ýmis konar sælgæti frá Íslandi, sem keypt hafi verið á vefsíðu Nordic Store eftir ábendingu frá áhorfendum. Í myndbandinu, sem þeir sem ekki eru kunnugir ASMR-myndböndum gætu talið stórfurðulegt, má sjá Candy Man opna og handleika íslenska sælgætið og hvísla síðan að áhorfendum í kitlandi myndbandi.

Sælgætið sem Candy Man handleikur í myndbandinu er meðal annars Stjörnurúlla, Eitt Sett, Djúpur, Prins Poló, Djúpur, Nóa Kropp og Freyju Draumur svo fátt eitt sé nefnt. Ágæt auglýsing fyrir íslenska sælgætisframleiðendur.

Íslenska sælgætið byrjar eftir rúmlega 21 mínútu í meðfylgjandi myndbandi. Sjón er sögu ríkari:

Hér geta áhugasamir nálgast fleiri ASMR-myndbönd frá Ephemeral Rift.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af